Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 10:59:49 (83)



[10:59]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Á dagskrá þessa fundar eru fimm mál sem öll fjalla um aðgerðir gegn skattsvikum. Sum eru efnislega samhljóða, eins og um hvernig lágmarkssektum verði beitt gegn skattsvikum, þannig að ég tel eðlilegt að mæla fyrir þeim öllum samtímis.
    Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að skattsvik hér á landi eru mjög mikil, eins og víða annars staðar, og þó ýmislegt hafi verið reynt að gera hér á landi til þess að sporna við skattsvikum þá virðist hægt miða. Ég vil í upphafi minna á að það var á árinu 1984 sem voru lagðar fram á Alþingi tvær tillögur, annars vegar tillaga um að kanna umfang skattsvika og hins vegar um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Síðar starfaði nefnd á árunum 1992 og 1993 til þess að kanna aftur umfang skattsvika og það er nokkuð athyglisvert að í þessum tveim könnunum sem hafa farið fram um umfang skattsvika þá virðist niðurstaðan vera sú sama. Þær eru gerðar með átta ára millibili og er niðurstaðan sú að ríkissjóður verði af skatttekjum vegna undandráttar í skatti upp á 11 milljarða kr. Þannig að það virðist lítill árangur verða. Og jafnvel þó að það hafi verið gripið til ýmissa aðgerða eins og t.d. að efla embætti skattrannsóknarstjóra, einfalda skattkerfið, fækka frádráttarliðum, taka upp kerfisbreytingu, sem var virðisaukaskattur í stað söluskatts, þá virðist þetta vera niðurstaðan að skattaundandrátturinn virðist vera hinn sami. Er ég ekki þar með að gera lítið úr því að það er alveg ljóst að skatteftirlitið hefur skilað engu að síður nokkrum árangri, en það virðist vera svo að skattsvikarar finni alltaf nýjar leiðir til þess að komast undan skatti.
    Við erum ekki að tala um neinar smáupphæðir hér þegar um er að ræða 11 milljarða kr. sem ríkissjóður verður af. Það er sama upphæð og kostar ríkissjóð að reka allt skólakerfið. Þetta eru 4 milljörðum kr. hærri upphæð heldur en rekstur félmrn. kostar, sem er þó með stóra og viðamikla málaflokka eins og Atvinnuleysistryggingasjóð og húsnæðiskerfið. Þannig að það er mjög brýnt að Alþingi geri það sem í þess valdi stendur til þess að grípa til aðgerða og stuðla að lagabreytingum sem geti bætt þetta ástand.
    Það er alveg ljóst að skattsvik eru mjög alvarlegt brot og hafa valdið miklu tjóni og lamað siðferðisþrek þjóðarinnar og það gengur auðvitað ekki að stór hópur manna komist upp með skattsvik. Það er mín skoðun að með skattsvikamál verði að fara eins og hvert annað alvarlegt afbrot í þjóðfélaginu og taka á þeim af fullri hörku, en það finnst mér ekki hafa verið gert eins og ég mun koma að síðar.
    Ég vil, áður en ég held lengra, vísa til þess sem fram kemur í Alþýðublaðinu í morgun, í forustugrein, þar sem talað er um skattsvikin. Þar er farið um það nokkrum orðum að sú sem hér stendur hafi setið á þingi frá 1974, stendur nú hér, og sem ráðherra síðustu sjö árin og á þeim tíma hafi ég haft alla möguleika til þess að koma fram málum í ríkisstjórn sem vörðuðu harðara eftirlit með skattsvikum en enginn kannist við að slík málaleitan frá undirritaðri hafi strandað á andstöðu meðráðherra. Ég tel alveg fulla ástæðu til þess að fara um þetta nokkrum orðum, ekki síst þar sem síðar í þessum leiðara kemur fram að sú sem hér stendur ber ekki síst ábyrgð á því að ekki hafi verið meira gert í þessum málum.
    Ég vil minna á það að þær tvær tillögur sem voru fluttar 1984 flutti ég ásamt fleirum og það er ýmislegt sem hefur verið gert í samræmi við þáltill. um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Það hefur t.d. verið fjölgað sérhæfðu starfsliði við embætti skattrannsóknarstjóra og það fór fram endurskoðun á fyrirkomulagi söluskattskerfisins eins og þar var lagt til. Það hafa verið í undirbúningi nauðsynlegar breytingar á bókhaldslögum og var lagt fram um það frv. á síðasta þingi, þó það hafi ekki orðið að lögum. En það sem ekki hefur verið framkvæmt er að beita í auknum mæli sjálfvirkum sektarákvæðum og hækkuðum sektum og það hefur ekki verið ráðist í það sem Alþingi ályktaði þó, að stofna sérdeild við Sakadóm Reykjavíkur sem taki til meðferðar skattsvikamál.
    Af því að Alþýðublaðið heldur því nú fram að ég hafi ekkert gert sem ráðherra í þessu máli þá er það rangt vegna þess að ég á hér í mínum fórum nokkur minnisblöð sem ég hef sent mínum samráðherrum, einkum í tengslum við fjárlagagerðina. Þegar komið hafa fram tillögur um að skerða ýmsa félagslega þjónustu þá hef ég lagt fram ýmsar tillögur til þess að taka á skattsvikamálum. Ég er m.a. með tvö minnisblöð frá 1992 sem voru send forsrh. og samráðherrum mínum í ríkisstjórn þar sem ég tek einmitt á því lið fyrir lið hvað ég tel að eigi að gera til þess að taka á skattsvikamálum og í þeirri upptalningu er m.a. að finna þau atriði sem ég nú flyt í frumvarpsformi en náðu þá ekki fram að ganga. Þannig að ég vísa því til föðurhúsanna sem stendur í leiðara Alþýðublaðsins, sem mér finnst nú oft ekki marktækur.
    Nefnd sem kannaði umfang skattsvika og tillögur um aðgerðir gegn þeim skilaði áliti 1993. Það er margt athyglisvert sem þar kemur fram. Ég vil með leyfi forseta vísa til þess sem fram kemur í þessari skýrslu, þar sem nefndin fjallar um árangur skatteftirlits og skattrannsókna. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Breitt bil er milli refsiheimilda skattalaga annars vegar og réttarframkvæmda hins vegar. Dómar í skattsvikamálum verða að teljast vægir í samanburði við refsidóma vegna ýmiss konar auðgunarbrota og annarra fjármunabrota. Ástæður eru ekki ljósar en viðhorf almennings og jafnvel afstaða réttarkerfisins gagnvart skattsvikum virðist vera á þann veg að vægar sé litið á slík brot en rétt er að mati nefndarinnar. Héraðsdómstólar, en þó einkum Hæstiréttur, hafa í dómum sínum dæmt sektir sem eru töluvert lægri en það skattundanskot sem sannað hefur verið. Varnaðaráhrif slíkra dóma hljóta að vera hverfandi lítil og gefa almenningi tilefni til að ætla að brot gegn skattalögum séu ekki eins ámælisverð og önnur fjármunabrot. Nefndin er þeirrar skoðunar að á þessu ástandi verði óhjákvæmilega að verða breyting.``
    Síðan er athyglisvert sem kemur fram hjá nefndinni að hún segir að líklegt sé að ótti manna við skatteftirlit og skattrannsóknir hafi sífellt minnkað hin síðari ár. Áhættan af skattsvikum hefur ekki verið mikil því líkur á að upp komist um þau eru ekki verulegar.

    Þetta er náttúrlega mjög alvarlegt sem hér er sett fram, að það sé staðhæft hér að líkur til þess að upp komist um alvarleg skattsvikamál séu ekki verulegar.
    Síðan er sagt: ,,Þannig má leiða líkur að því að ótti við ranga skýrslugerð sé ekki umtalsverður af hálfu þeirra sem stunda skattsvik.``
    Mér finnst mjög alvarlegt þegar þetta er sett fram með þessum hætti, en í tillögu nefndarinnar eru lagðar fram ýmsar tillögur til úrbóta.
    Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að nefndin hafi lagt fram ítarlegar tillögur til úrbóta á þessu ástandi og segir síðan, með leyfi forseta:
    ,,Ljóst er þó að hert skattframkvæmd með auknum mannafla til skattrannsókna og skatteftirlits ásamt hertum refsingum við skattsvikum eru þær tillögur sem mestu máli skipta ef stemma á stigu við því ástandi sem nú er. Því miður bendir margt til að það hafi versnað á undanförnum missirum að mati þeirra sem til þekkja. Stefnumörkun fjmrn. þarf af þeim sökum að vera virkari og einbeittari en verið hefur. Jafnframt er mikilvægt að það takist að auka skilning skattaðila á réttum skattskilum og draga þannig úr áráttu allt of margra einstaklinga til skattsvika.
    Skattsvik eru útbreidd lögbrot hér á landi og alvarleg þjóðfélagsleg meinsemd. Skattsvikin særa réttlætiskennd fólks og þegar stór hópur manna kemst undan því, með býsna opinskáum hætti, að fara að lögum veikir það trú á því að við lýði sé réttarríki hér á landi. Skattsvikin skekkja aðstæður til samkeppni í atvinnulífinu og hefta í mörgum tilfellum eðlilega og æskilega framþróun fyrirtækja og jafnvel heilla atvinnugreina. Opinberir aðilar verða af umtalsverðum skatttekjum vegna skattsvika og fyrir vikið þurfa skattgreiðendur nú og í framtíð að bera þyngri byrðar en ella.``
    Virðulegi forseti. Ég hef því leyft mér að leggja fram nokkur mál sem öll miða að því að herða aðgerðir gegn skattsvikum og fara nýjar leiðir og grípa til nýrra aðgerða til að taka á þessu máli. En kjarninn í þessum málum sem ég flyt er að skattsvikurum verði sýnd aukin harka og að málsmeðferð skattsvikamála verði gerð skilvirkari.
    Ég vil nefna það að í tillögum nefndarinnar sem ég hef verið að vitna til frá 1993 er einnig tekið á þessum málum sem ég hér flyt. Það eru tvær tillögur sem ég hef tekið upp sem nefndin mælir með og flutt í frumvarpsbúning. Það er að endurskoða viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald vegna eigin atvinnureksturs og sjálfstæðrar starfsemi og að lágmarkssektir við skattsvikum verði hækkaðar.
    Að öðru leyti flyt ég þrjú mál sem eru um það að komið verði á fót sérstökum skattadómstól. Embætti skattrannsóknarstjóra verði gert að rannsaka mál að opinberum hætti og unnt verði að krefjast ábyrgða vegna innskattsgreiðslna.
    Ef ég vík fyrst að fyrsta málinu, sem er frv. til laga um sérstakan héraðsdóm í skatta- og bókhaldsmálum, þá hefur þetta mál komið áður fyrir Alþingi. Að vísu ekki í sama búningi og nú. Það er í fyrsta lagi að það er sennilega á árinu 1978 að flutt er mál af Vilmundi Gylfasyni og þeirri sem hér stendur um sérstakan dómara og rannsóknadeild í skattamálum og bókhaldsmálum. Þetta mál miðaði að því sama, eins og hér er lagt til, þó með nokkrum öðrum hætti sé lagt til í þessu frv. sem hér er til umræðu. Og í þeirri tillögu sem var samþykkt á Alþingi, þar sem fram komi vilji Alþingis, á árinu 1984, kom fram að stofnuð yrði sérdeild við Sakadóm Reykjavíkur til þess að taka á skattsvikamálum. En þrátt fyrir þetta hefur ekkert verið gert að því er varðar það mál.
    Ég tel að með stofnun sérstaks skattadómstóls yrði stigið stórt skref í þá átt að gera meðferð skattsvikamála í sem mestum mæli opinbera, en ég tel að það sé veigamikil forsenda fyrir því að takast á við þetta mikla umfang skattsvika. Ég tel að slík meðferð veiti miklu meira aðhald og varnaðaráhrif gegn skattsvikum. Meðferð skattsvikamála mun ganga greiðar fyrir sig hjá sérstökum skattadómstól en almennum dómstólum sem eru ofhlaðnir störfum og skattsvikamál geta því verið að velkjast í dómskerfinu árum saman. Það er staðreynd að dómskerfið er seinvirkt og þar vantar starfskrafta með sérþekkingu í skattskilum og reikningshaldi til þess að taka á þessum málum. Því hefur sú leið verið valin og farin gegnum árin að senda flest mál til einfaldrar sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd, sem áður var ríkisskattanefnd, en ekki til opinberrar meðferðar dómstóla.
    Þegar skoðuð eru t.d. árin 1985 til 1991 þá voru 16 mál send til opinberrar rannsóknar á meðan á sama tíma eru 134 mál send til ríkisskattanefndar til sektarmeðferðar. Þannig að tilhneigingin er að senda málin frekar til þessarar skattanefndar, yfirskattanefndar nú, heldur en til dómstólanna og ég hygg að það sé vegna þess að dómstólakerfið er mjög svifaseint í þessum málum.
    Ég bendi einnig á að það verður kannski að teljast óeðlilegt að það sé skattrannsóknarstjóri sem einn taki ákvörðun um það hvort mál séu send yfirskattanefnd til meðferðar eða hvort þau séu send til opinberrar meðferðar hjá dómstólum. Hjá yfirskattanefnd taka þessi mál, skattsvikamálin, um þrjá til sex mánuði, en það er algengt að hjá dómstólunum taki þau tvö til þrjú ár, þó það megi finna dæmi um styttri tíma. Við höfum einnig fyrir okkur dæmi í dómskerfinu um að skattsvikamál taki mörg ár og þar eru líka tilvik sem sýna okkur að öll brot eru löngu fyrnd þegar kemur að dómi í skattsvikamálum. Því tel ég að með stofnun sérstaks héraðsdóms í skattsvikamálum taki mál miklu styttri tíma og þurfi varla að taka þar lengri tíma en nú gerist hjá yfirskattanefnd. En ljóst er að slík opinber meðferð veitir miklu meira aðhald gegn skattsvikum eins og ég hef sagt.
    Í frv. er lagt til að héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum verði stofnaður og opinber mál vegna

brota á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og lög um bókhald sem og vegna brota á reglugerðum og öðrum stjórnvaldsákvörðunum skuli rekin og dæmd fyrir þessum sérstaka héraðsdómi í skatta- og bókhaldsmálum. Lagt er til að dómarar í héraðsdómi í skatta- og bókhaldsmálum verði þrír og það er vegna umfangs og fjölda skattsvikamála sem það er gert. Síðan er bent á að auk þess geti komið til að það kunni að vera lögbundin nauðsyn að þrír dómarar dæmi í einstaka málum þegar um mjög flókin og alvarleg skattsvikamál er að ræða. Auk þess er áskilið að dómarar, sem skipaðir eru við sérstakan héraðsdóm í skatta- og bókhaldsmálum, verði að hafa sérþekkingu á skattskilum og reikningshaldi. Kveðið er á um að öll skattsvikamál skuli rekin fyrir dómnum nema mál sem sætir refsimeðferð af hálfu yfirskattanefndar. Tekið er fram að hugsanlega geti aðrir aðilar eins og sýslumenn sent mál til dómsins.
    Einnig er kveðið á um að ríkissaksóknari geti í þeim tilvikum sem ætla má að sökunautar hafi gerst brotlegir um aðra refsiverða háttsemi er lýtur að skattsvikamálum sent málið til framhaldsmeðferðar fyrir almennum héraðsdómi. Athafnir héraðsdóms í skatta- og bókhaldsbrotum, svo sem varðandi þingfestingu, fyrirtekt og fleira, skulu þó engu að síður halda gildi sínu.
    Virðulegi forseti. Í lokin er ákvæði til bráðabirgða þess efnis að mál sem þingfest hafi verið fyrir almennum héraðsdómstólum fyrir gildistöku laga þessara skulu rekin þar áfram.
    Ég tel ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að hafa frekari orð um þetta mál og ég sný mér að frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og frv. til laga um breytingu á staðgreiðslu opinberra gjalda. Þau eru efnislega samhljóða að meginhluta til og er meginefni og innihald þeirra að sett verði ákvæði um sektarlágmark vegna skattsvika. Það er einu sinni svo að það vantar ekki ákvæði í lög sem heimila að beita mjög háum sektum við skattsvikum en staðreyndin er sú að þeim er mjög vægilega beitt. Um er að ræða að í lögum er heimilt að beita í sekt allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem undan er dregin en þegar litið er á hvernig þessum sektarákvæðum er beitt þá er ljóst að það er aðeins um að ræða brot af þeirri fjárhæð sem undan er dregin frá skatti sem beitt er sem skattsekt.
    Í skýrslunni, sem ég hef verið að vitna til um umfang skattsvika, kemur fram að sektir sem undirréttur hafi dæmt í þessum málum sem hlutfall af skattsvikum hafi verið frá 17%--116% og sektir Hæstaréttar sem hlutfall af skattsvikum einungis frá 7--68%. Allir sjá að þegar svo lágum fjárhæðum er beitt í skattsvikamálum veitir það mjög lítið aðhald. Í hæsta lagi er þar er um að ræða sömu fjárhæð og skotið er undan.
    Í því frv., sem ég legg hér fram, er gerð tillaga um að sett sé ákveðið lágmark í þessu skyni sem nemi þrefaldri þeirri fjárhæð sem undan er dregin að lágmarki og allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem undan er dregin að hámarki. Nefndin sem kannaði umfang skattsvika tekur í reynd undir það að þessu ákvæði skattalaga sé mjög mildilega beitt. Það kemur einmitt fram þegar hún fjallar um það að líklegt sé að ótti manna við skatteftirlit og skattrannsóknir hafi sífellt minnkað hin síðari ár og áhættan af skattsvikum hafi ekki verið mikil. Þess vegna tel ég fyllilega ástæðu til þess að setja slíkt lágmarksákvæði. Auðvitað geta mennirnir þá deilt hvar slíkt gólf eigi að liggja, hvort það eigi að vera tvöföldun eða þreföldun, en það er tillaga mín í þessu frv. að um þreföldun verði að ræða.     Með frv. þessu er því lagt til að tiltekið refsilágmark verði lögfest og einnig að málsmeðferð skattsvikamála hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins verði háð meðferð opinberra mála.
    Ég tel að með því að beita slíku refsilágmarki tryggi það betur að refsiákvæðum skattalaga sé beitt á þann hátt að þau veiti raunverulegt aðhald gegn skattsvikum samhliða því að skattrannsóknir verða að hætti opinberra mála sem á að tryggja að fleiri skattsvikamál sæti refsimeðferð fyrir dómi. Ég tel að það sem kemur fram í frv. sé raunverulega í samræmi við vilja Alþingis, sem kom fram fyrir 10 árum, þ.e. árið 1984, þar sem Alþingi ályktaði um að það ætti að herða alla beitingu á þessum sektarákvæðum en það virðist ekki hafa verið gert.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara frekari orðum um frv. en vil þó aðeins víkja að 5. gr. Samkvæmt gildandi lögum fer rannsókn skattsvikamála fram hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, endurákvörðun opinberra gjalda fer fram hjá ríkisskattstjóra nema hann feli hana skattstjóra og refsiþáttur mála er að meginstefnu til einnig afgreiddur í skattakerfinu, þ.e. hjá yfirskattanefnd. Í samræmi við þessa meginstefnu laganna er meðferð mála hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, stjórnsýslumeðferð og í frv. þessu er lagt til að mál sem skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur til rannsóknar skuli sæta meðferð opinberra mála. Þá er jafnframt lagt til að þegar rannsókn mála hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sé lokið skuli mál send til ríkisskattstjóra. Þegar um minni háttar mál er að ræða skulu þau sæta refsimeðferð í skattkerfinu, þ.e. hjá yfirskattanefnd. Með þessum hætti er stefnt að því að meginreglan verði sú að skattsvikamál sæti úrlausn dómstóla. Breytingin hefur vafalítið meiri skilvirkni á rannsókn á málsmeðferð í för með sér þar sem mál fara strax til ákæruvalds en þurfa ekki að lokinni rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að sæta opinberri rannsókn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins eins og nú er.
    Ég vil þá, virðulegi forseti, víkja að frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Það er efnislega samhljóða frv. um tekjuskatt og eignarskatt og um staðgreiðslu opinberra gjalda er varðar þann þátt sem ég hef gert að umtalsefni og kveður á um hvernig beita eigi sektarákvæðum skattalaga, þ.e. að þarna verði sett ákveðið gólf.
    Í frv. þessu er einnig annað ákvæði sem fjallar um það að skattstjórum sé heimilt að krefjast trygginga vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts úr ríkissjóði. Ég tel mjög mikilvægt að allar leiðir séu skoðaðar til að sporna gegn því að skattsvikarar finni leið til þess að fara fram hjá virðisaukaskattskerfinu. Því tel ég brýnt að á þessu sé tekið og reynt að finna leiðir til að bæta þar úr. Ein leiðin er sú, sem hér er lögð til, þ.e. að krefjast tryggingar gegn endurgreiðslu virðisaukaskatts úr ríkissjóði. Á það er bent í greinargerð með frv. að dómar hafi gengið vegna sviksamlegrar háttsemi manna við að fá virðisaukaskatt ranglega greiddan úr ríkissjóði. Hér er um nýja tegund skattsvika að ræða og hætta á misferli veruleg.
    Uppbygging skattsins er þannig að innskattur getur alloft orðið hærri en útskattur. Oft á tíðum hafa aðilar því fengið umtalsverðar fjárhæðir ranglega endurgreiddar áður en í ljós hefur komið að um skattsvik hefur verið að ræða. Nauðsyn beri til að sporna við tilhneigingu af þessu tagi og því er gert ráð fyrir að unnt verði að krefja aðila sem fá greiddar verulegar fjárhæðir úr ríkissjóði um tryggingu, t.d. bankaábyrgð eða veðsetningar. Með þeim hætti ættu hagsmunir ríkissjóðs að vera betur tryggðir ef í ljós kæmi að forsendur endurgreiðslu virðisaukaskatts ættu ekki rétt á sér. Þá verður að telja líkur á að unnt verði að draga úr tilhneigingu af þessu tagi þegar aðilar þurfa að leggja fram tryggingar. Þessu ákvæði mætti beita þegar innskattur er að jafnaði hærri en útskattur. Er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um í reglugerð hvernig að þessu skuli standa. Gróft má áætla að um 10% framteljenda virðisaukaskatts fái endurgreiddan virðisaukaskatt þegar innskattur reynist hærri en útskattur en það er í þeim tilvikum þegar um er að ræða fjárfestingar, útflutning eða breytingu á eignarhaldi.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, í lokin víkja að þáltill. sem kveður á um endurskoðunarviðmiðunarreglur um reiknað endurgjald vegna eigin atvinnureksturs eða sjálfstæðrar starfsemi. Um þetta mál hefur verið nokkuð fjallað á Alþingi og m.a. í tengslum við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um skattframtöl á 116. löggjafarþingi en þar spurði þingmaðurinn um hve stór hópur skattgreiðenda fékk áætlaðan skatt árin 1991 og 1992 og komu þar fram mjög athyglisverð svör.
    Tillagan felur í sér að fela fjmrh. að skipa nefnd með aðild skattyfirvalda og aðila vinnumarkaðarins sem hafi það verkefni að endurskoða viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald vegna eigin atvinnureksturs eða sjálfstæðrar starfsemi og kanna hvort rétt sé að lögfesta slíkar reglur eða setja þær í reglugerð og við það skuli miða að breyttar viðmiðunarreglur taki gildi 1. janúar 1995. Nefnd sú sem kannaði umfang skattsvika tekur mjög undir það að þetta reiknaða endurgjald verði tekið til endurskoðunar frá grunni og er vísað í það í greinargerð með tillögunni. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að með öllu sé ótækt að viðmiðunarreglurnar séu notaðar með þeim hætti að það sé mun lægri en meðallaun launþega í sömu starfsgrein. Auðvitað er mjög alvarlegt ef svo er og gerir nefndin það að tillögu sinni að reiknuð viðmiðunarlaun verði í heild sinni tekin til endurskoðunar og hækkuð mjög verulega þannig að þau verði eigi lægri en meðallaun í viðkomandi starfsgrein. Því tel ég að það þurfi að fara ofan í þessi mál. Í þeim tilgangi er tillagan flutt.
    Fyrirkomulagið nú er með þeim hætti að ríkisskattstjóri ákveður lágmark reiknaðs endurgjalds samkvæmt viðmiðunarreglu sem hann ákveður. Það er spurning hvort það sé rétt að hafa þetta með þeim hætti að ríkisskattstjóri einn taki ákvarðanir um hvernig þessar viðmiðunarreglur skuli vera og hvort ekki sé rétt að festa í reglugerð eða löggjöf hvernig með skuli fara. Staðreyndin er sú að viðmiðunarreglurnar hafa ekki breyst í 13 eða 14 ár og einungist tekið breytingum í samræmi við þróun tekna og launa í viðkomandi starfsgrein. Að vísu er þó undanskilið árið 1992 en þá voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem ríkisskattstjóra var gert að hækka reiknað endurgjald um 15% á þessum þáttum. Engu að síður segir nefndin að þrátt fyrir þessa hækkun sé ekki nóg að gert og þetta þurfi að endurskoða frá grunni. Fjöldi þeirra einstaklinga, sem reiknuð voru endurgjöld, var um 25 þúsund á sl. ári og heildarfjárhæð reiknaðs endurgjalds er rúmlega 15 milljarðar kr.
    Allmargir framteljendur eru með reiknað endurgjald vegna hlutastarfs og því er meðaltalið mjög lágt í þessu ef reynt er að reikna það út og það skekkjir náttúrlega þessa meðaltalsútreikninga. Á hinn bóginn eru hæstu viðmiðunarmörk fyrir ýmsa sjálfstætt starfandi aðila, svo sem löggilta endurskoðendur, tannlækna, lögmenn og fleira, ákaflega lágt reiknuð. Ef við skoðum þessi viðmiðunargjöld þá eru þau frá að mig minnir 90 þús. kr. á mánuði núna upp í liðlega 256 þús. kr. Þannig að ég tel að það standi allar forsendur til þess að skoða þetta frá grunni.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þau mál sem ég hef lagt fram sem miða að því að taka skattsvik föstum tökum sem ég tel að allir þingmenn hljóti að vera sammála um að gert verði þó menn geti kannski greint á um hvaða leiðir skuli fara í því efni. Ég vænti þess að þessi mál fái meðferð hér á þingi og verði afgreidd þannig að við getum búið við löggjöf sem veitir meira aðhald en nú er gegn skattsvikum. Ég legg til, virðulegi forseti, í lokin að þessum málum öllum verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.