Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:21:50 (97)


[12:21]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það væri fróðlegt að fá það fram hjá hv. nýkjörnum formanni þingflokks Framsfl., Finni Ingólfssyni, sem fór hér með mikla þulu um álögur og háar tölur, 12 milljarða, hvort hann sé tilbúinn að koma hér upp og segja það að Framsfl. ætli sér í næstu kosningabaráttu að lofa kjósendum að hverfa frá þessum ósköpum öllum. Eða ætlar hann að koma hér upp og segja: Ja, þetta er kannski ekki svo alslæmt, við munum skilja eitthvað eftir. Eru framsóknarmenn tilbúnir að fylgja sínum málflutningi eftir með þeim hætti að segja að öll þessi vitleysa, sem núv. ríkisstjórn hefur gert að þeirra mati, verði aftur tekin? Eða ætla þeir kannski að lifa áfram við það? Það er náttúrlega athyglisvert og það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að fá svör við slíkum spurningum, hvort það geti virkilega verið. Þeir eru auðvitað í gamla klafanum á gamla staðnum. Þeir vilja aukið millifærslukerfi á öllum sviðum. Þeir vilja draga og soga allt fjármagnið inn til sín og síðan að deila því út eftir einhverju ölmusukerfi sem þeir finna út. Þetta er nákvæmlega framsóknarmennskan. Þetta er nákvæmlega sú stefna sem þeir hafa alltaf fylgt og ætla sér greinilega að halda áfram.