Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:03:38 (152)


[18:03]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið um margt fróðleg. Það hefur m.a. verið nokkuð fróðlegt hverjir hafa talað í þessari umræðu en þó enn þá fróðlegra hverjir hafa ekki talað. Það hefur t.d. komið fram að það hefur enginn þingnaður eða ráðherra Sjálfstfl. talað hér nema hæstv. forsrh. og ég skil það þá þannig að það sé búið að múlbinda allan þingflokk Sjálfstfl. til stuðnings við ríkisstjórnina þannig að þeir hv. þm. Egill Jónsson og Eggert Haukdal, Eyjólfur Konráð Jónsson og fleiri sem hafa verið með gagnrýni á núverandi ríkisstjórn og samstarfið við Alþfl. hafi látið af þeirri gagnrýni. E.t.v. mun það kvikna á nýjan leik hjá hv. þm. Eggert Haukdal þegar hann fréttir það að núv. hæstv. utanrrh. er að fara til Rússlands til að ræða þar um menningarsamning. En ég man það að hv. þm. sagði upp hollustu sinni við ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens ef ég man rétt vegna menningarsamnings sem var gerður við fyrrum Sovétríkin. Þetta voru mikil tíðindi á þeim tíma og birtist mikið viðtal við hv. þm. þannig að það má vera að þegar það kemur í ljós að menningarmálin komast á ný á dagskrá við Rússland, sem er að vísu dálítið annað en fyrrum Sovétríkin, að hv. þm. Eggert Haukdal átti sig á því að þarna kunni að vera hætta á ferðum.
    Ég tel þó að það hafi komið ákveðin niðurstaða út úr þessari umræðu og hún er sú að hæstv. forsrh. hefur lýst yfir trausti á hæstv. utanrrh. og hann hefur lýst yfir persónulegu trausti á hæstv. félmrh. Guðmund Árna Stefánsson. Ég lít nú svo á að það sé það sama að hafa persónulegt traust á ráðherra og traust, en þetta er þó ákveðin niðurstaða og þá er það vitað. Við eigum þá væntanlega ekkert að efast um það lengur og það hlýtur að vera gott fyrir hæstv. utanrrh. og hann hlýtur að fagna þessari niðurstöðu. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir hann á erlendum vettvangi að nú skulu komin þau skilaboð þegar hann fer næst til Brussel eða Moskvu að hann hafi fullt traust forsrh. síns. Ég tel ástæðu til að óska honum til hamingju með það að þessari óvissu hefur verið eytt, en ég spyr þó: Á ekkert að taka mark á orðum hæstv. forsrh. þegar hann segir að það sé ekki hægt að treysta mönnum til samninga sem telja sjávarútvegssamning Norðmanna góðan? Og þessi ummæli út og suður. Eigum við sem sagt héðan í frá ekkert að taka mark á því? Hæstv. forsrh. sagði að ég hefði eingöngu farið hér með ummæli sem hefðu verið neikvæð um hæstv. ráðherra. Ég hef ekki farið yfir ummæli sem væru jákvæð. Á maður að þurfa að spyrja í hvert og eitt skipti hvort það eigi að túlka neikvæð ummæli sem jákvæð og jákvæð ummæli sem neikvæð? Það hlýtur að vera ljóst að forsrh. sem talar út og suður um ráðherra í ríkisstjórn sinni verður vart tekinn alvarlega um þessi mál héðan í frá því að nú hefur hann lýst yfir afdráttarlausu trausti á þessa tvo hæstv. ráðherra og þar með hefur hann fyrir hönd Sjálfstfl., vegna þess að það hefur enginn annar talað hér af hálfu Sjálfstfl., tekið á sig fulla ábyrgð á þessum ráðherrum eins og hann á að sjálfsögðu að gera því að forsrh. ber ábyrgð á sínum ráðherrum í sinni ríkisstjórn.
    Hæstv. forsrh. gerði nokkuð mikið úr því að upp hefði komið mál hér áður fyrr í samstarfi Framsfl. og Sjálfstfl. og því hafi þá verið lýst yfir að það væri alfarið á ábyrgð Sjálfstfl. Þótt ég geri mér grein fyrir því að hver og einn flokkur beri ábyrgð á sínum ráðherrum, þá hlýtur það að vera svo að forustumenn samstarfsflokka ræði saman um slík alvarleg mál og reyni að komast að sameiginlegri niðustöðu sem er til hagsbóta og farsældar fyrir viðkomandi ríkisstjórn. Ég er a.m.k. ekki þeirrar skoðunar að það sé eingöngu málefni viðkomandi flokks og komi samstarfsflokknum ekkert við. Ég hef ekki nákvæmlega þau ummæli sem hæstv. forsrh. vitnaði til, en það er hins vegar alveg ljóst að slík mál hljóta á hverjum tíma að vera rædd milli samstarfsaðila í ríkisstjórn. Hitt er svo annað mál, að það hefur hvert mál á hverjum tíma ákveðna sérstöðu og þess vegna er alltaf erfitt að bera þau saman.
    Mér finnst að hæstv. forsrh. hafi gert mjög mikið úr verkum þessarar ríkisstjórnar og það fer allur krafturinn í það. Hann sagði að árangur þessarar hæstv. ríkisstjórnar sé þá ekki bara sá mesti sem nokkur ríkisstjórn hefur náð heldur jafnframt sá besti. Það er sem sagt ekki nóg að nota lýsingarorðið mestur, það þarf jafnframt að nota lýsingarorðið bestur. Auðvitað er gott að hafa sjálfstraust og hafa álit á því sem menn eru að gera. En er þetta nú ekki nokkuð langt gengið, hæstv. forsrh., að endurtaka í sífellu þessi orð

og nánast að segja að þetta sé allt saman í mjög góðu lagi?
    Auðvitað hefur núverandi ríkisstjórn náð árangri á vissum sviðum. Ekki ætla ég að mótmæla því. En það er margt annað sem hún hefur ekki náð árangri í og hefur verið tíundað hér ágætlega í dag af öðrum stjórnarandstæðingum. Mér finnst það t.d. vera í þessum anda þegar hæstv. forsrh. segir hér að þetta sé nú ekki mikið vandamál með síldina. Í versta falli sé þetta spurningin um 34 millj. Það er því miður ekki rétt. Ég hef að vísu ekki tölur um það hver útflutningurinn á Svíþjóð og Finnland er nákvæmlega. En eftir því sem ég best veit eru það nokkur hundruð millj. og ef illa fer kemur á þessa síld 10--12% tollur. Ég vona sannarlega að það muni takast að koma í veg fyrir það og það má vel vera að það sé minna vandamál í ákveðnum tilvikum en í öðrum. En það má ekki umgangast þessi mál með þessum hætti nema það sé ætlunin að borga þetta hreinlega úr ríkissjóði ef illa fer því að mismunur á samkeppnisstöðu upp á 10--12% er spurningin um það hvort hægt er að framleiða viðkomandi vöru eða ekki. Og það er ekki bara spurningin um Svíþjóð og Finnland. Það er jafnframt spurningin um það ef Norðmenn ganga þarna inn þá munu þeir hætta að borga toll upp á 20% en við borgum í sumum tilvikum toll upp á 10%. Það er t.d. verið að borga 10% toll af edikverkaðri síld, sem hæstv. utanrrh. lét í ljósi álit sitt um að kæmi ekki til. Það hafa þess vegna ekki staðist að öllu leyti þau orð sem féllu í sambandi við samningana um Evrópskt efnahagssvæði að því er varðar síldina. Og svo er það líka staðreynd að ef verið er að senda frysta síld um þessar mundir inn á Bretlandsmarkað, þá er borgaður af henni tollur því að hann fellur ekki niður fyrr en 15. febr. Þetta eru samkeppnisatriði sem skipta mjög miklu máli og mér finnst með ólíkindum að hæstv. forsrh. skuli gera svona lítið úr þessu. Það var enginn að kenna honum um eða hans ríkisstjórn að það var ekki búið að breyta þessu. Ég var með vissar efasemdir um að undirbúningurinn væri langt kominn. Vonandi er það rangt hjá mér. En ef öll mál eru meðhöndluð með þessu hugarfari, að þetta sé eiginlega ekkert vandamál, þetta sé svona eins og smástyrkir úr sjóðum ráðherranna, það þurfi ekki að skera niður nema styrkinn til Sunnukórsins og eitthvað annað til þess að koma á móti þessu, þá er ekki von að vel fari.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Mér finnst að niðurstaða hennar sé komin. Hún kemur að vísu nokkuð á óvart en það er þá niðurstaða. Hæstv. forsrh. hefur fullt traust á ráðherrum í ríkisstjórninni og hefur tekið fulla ábyrgð á þeim. Það er vissulega drengskaparbragur að því. Hann hefur tekið til baka ummæli sín um hæstv. utanrrh. Það kom vissulega á óvart að hann hefði fullt traust á utanrrh. Þá veit þjóðin það og ekki síst samstarfsaðilar okkar erlendis. Það er hins vegar alveg ljóst að stjórnarandstaðan treystir ríkisstjórninni ekki. Hún vantreystir henni en við áttum satt best að segja von á því að það væri svipað með ýmsa aðra þingmenn stjórnarliðsins sem kæmu hér upp til þess að láta í ljós vissar efasemdir og staðfesta þær en ég skil þögn þeirra þannig að þeir hafi látið af þessum efasemdum og séu nú staðráðnir í því að standa með núv. hæstv. ríkisstjórn.
    Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði að það væri djúpstæður trúnaðarbrestur í núv. ríkisstjórn. Það var það sem við vorum að halda fram hér í stjórnarandstöðunni, töldum það alvarlegt og sáum ekki hvernig núverandi ríkisstjórn gæti haldið áfram með djúpstæðan trúnaðarbrest innan borðs. Nú hefur hæstv. forsrh. tekið af allan vafa um það að svo er alls ekki og menn hljóta að spyrja: Hverju á að trúa? Hefur hér verið breitt yfir trúnaðarbrestinn í dag? Er hann til staðar? Ég lít svo á að dagurinn í dag hafi farið í það hjá hæstv. ráðherrum að breiða yfir þennan trúnaðarbrest. Ég tel að hann sé til staðar og ég tel að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi þekkingu til og reynslu til að staðfesta það. Ég hef ástæðu til að trúa því sem hún þar sagði. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. taki líka mark á þeim orðum miðað við þau ummæli sem hann hafði um þennan hv. þm. þar sem hann sagði að það hefði aldrei borið skugga á þeirra samstarf og þess vegna kemur það mjög á óvart að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skuli fullyrða hér að það sé djúpstæður trúnaðarbrestur til staðar en hæstv. forsrh. kemur hér upp og segir: Ég hef fullt traust á mínum ráðherrum.
    Ég vil svo þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel að hafi verið málefnaleg og ég virði þau svör sem hér hafa komið fram en ég verð að játa það að ég er ekki alveg viss um hvort ég get alveg trúað þeim svörum. Mér finnst vera undansláttur í þeim og mér finnst það vera þannig að ráðherrarnir séu að reyna að breiða yfir sannleikann í sínu samstarfi.