Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:10:27 (196)


[16:10]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er viss um að allir sem hér sitja eru tilbúnir að taka þátt í því að koma í veg fyrir slys. Ég vildi engu að síður inna eftir skýrari svörum við spurningu minni. Er formaður fjárln. tilbúinn að beita sér fyrir því að íþróttasjóður, en það er hann sem verið er að leggja niður með þessari aðgerð, verði endurreistur og hann verði í þeim fjárlögum sem verða samþykkt í desember? Það er mikilvægt að menn hlaupi ekki undan því að svara jafnskýrum spurningum og hér eru lagðar fram vegna þess að þau skilaboð, sem þar með eru send til íþróttahreyfingarinnar, til æskufólksins og til foreldranna sem eru að berjast við aukna fíkniefnaneyslu, aukna áfengisneyslu, aukin afbrot, aukið agaleysi í þjóðfélaginu, það eru skýr skilaboð í fjárlagafrv. eins og það er í dag og ég vil kalla það slys ef menn eru ekki tilbúnir til að leiðrétta það sem þarna er og ég tel að menn eigi að koma hér upp og segja alveg skýrt og skorinort: Eru menn tilbúnir að beita sér fyrir því að íþróttasjóður og fjárlög til févana íþróttafélaga verði í fjárlögum fyrir árið 1995?