Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:21:12 (203)


[17:21]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt eigin fjárlagafrv. ráðherrans voru heildarskuldir hins opinbera 1988 147 milljarðar, voru árið 1989 166 milljarðar og ef ráðherrann getur fengið það út að það sé tvöföldun á

147 milljörðum að verða 166 milljarðar þá hefur hann satt að segja lært reikning einhvers staðar annars staðar en þar sem hann kenndi hann. Ég held því að ráðherrann verði að temja sér vandaðri vinnubrögð í málflutningi en svona útúrsnúninga eins og kom fram hjá honum áðan.
    Síðan er hann í öðru lagi að skýra út þessa miklu skuldasöfnun með því að ríkissjóður hafi orðið að taka að sér Atvinnuleysistryggingasjóð og Hagræðingarsjóð. Ég veit ekki betur en þessi ríkisstjórn hafi á síðasta þingi flutt þessar skuldir yfir á sjávarútveginn með því að setja þær inn í --- hvað heitir hann nú aftur --- Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Er það ekki rétt munað? Þessar skuldir hafa bara verið fluttar frá ríkissjóði yfir á frystihúsin og útgerðina í landinu. Svo eru það aðalrökin fyrir því að þessi skuldastaða hafi aukist svona mikið sem búið er að bókfæra á atvinnulífið sjálft.
    Satt að segja ætti hæstv. fjmrh. að temja sér vandaðri vinnubrögð í túlkun á staðreyndum en að reikna hjá sér skuldir sem hann flutti frv. um á síðasta þingi að reikna hjá sjávarútveginum.