Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:27:02 (207)


[17:27]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við 1. umr. um fjárlögin en sé mig knúinn til þess vegna viðbragða hv. formanns fjárln. við andsvari sem ég veitti um íþróttasjóð sem nú stendur til að leggja niður.
    Þegar lögin um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga voru til umræðu háðum við nokkuð harða baráttu fyrir tilvist íþróttasjóðs sem þá stóð til að leggja niður. Eftir harða rimmu náðist að verja sjóðinn. Þótt veikur væri og lítið fé sett í hann þá litu menn á það sem ákveðinn sigur og mætti í framhaldi af því vinna að því að efla þennan sjóð og styrkja þannig að hann yrði verulegur styrkur fyrir íþróttirnar í landinu.
    Nú kemur fram í þeim fjárlögum sem hér eru lögð fram að ætlunin er að leggja íþróttasjóð niður. Í frv. sjálfu, í skýringum við þennan lið, sem er liður 989, segir, með leyfi forseta:
    ,,Fjárveiting til íþróttafélaga að fjárhæð 14,5 millj. kr. er felld niður. Fjárveiting þessi hefur verið nýtt til að styrkja framkvæmdir á vegum íþróttafélaga. Með breyttri verkaskiptingu á árinu 1990 tóku sveitarfélög að sér byggingu íþróttamannvirkja og stuðning við framkvæmdir á vegum íþróttafélaga.``
    Þegar slík rök eru borin á borð þá hlýtur maður að líta til þess hvernig stuðningur Jöfnunarsjóðs hefur verið við íþróttafélögin í landinu vegna þess að það er gefið í skyn í skýringum með þessum lið að þetta sé allt með felldu og stuðningur úr Jöfnunarsjóði frá sveitarfélögunum sé eitthvað sem marktækt er.
    Ég er hér með útskrift yfir útgreiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir árið 1993 og ég ætla að fara aðeins yfir það hvernig hann hefur stutt í raun og veru hina frjálsu íþróttahreyfingu og félög eins og sagt er í greinargerð með frv. Ef við lítum fyrst yfir árið 1993, þessu er skipt eftir kjördæmum, þá fékk Reykjanes 0 kr., Vesturland fékk 1.547 þús. kr., Vestfirðir 0 kr., Norðurland vestra 0 kr., Norðurland eystra 167 þús. kr., Austurland 100 þús. kr. og Suðurland ekkert. Samtals á árinu 1993 1 millj. og 814 þús. kr. úr Jöfnunarsjóði.
    Lítum á árið 1994. Reykjanes ekkert, Vesturland ekkert, Vestfirðir 1,5 millj. kr., Norðurland vestra 1 millj. 992 þús. kr., Norðurland eystra ekkert, Austurland 1.722 þús. kr. og Suðurland 3,5 millj. kr.
    Þetta er allur styrkurinn sem kemur frá sveitarfélögunum í gegnum Jöfnunarsjóðinn.
    Þetta er nákvæmlega það sem við óttuðumst þegar verkaskiptalögin voru samþykkt að sérstaklega smærri sveitarfélögin réðu ekki við að styrkja íþróttirnar í sínu umdæmi. Það er nákvæmlega sú mynd sem birtist á þessum tölum sem koma frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Og nú ætla menn að færa fyrir því rök í fjárlagafrv. að það sé hægt að leggja íþróttasjóð niður vegna þess að sveitarfélögin og Jöfnunarsjóður eigi að sjá um hann. Menn hafa það svart á hvítu hver reynslan er. Rökstuðningurinn eða það sem er gefið í skyn í fjárlagafrv. er þess vegna villandi. Í hæsta máta villandi.
    Ég mun því fyrir 2. umr. leggja fram brtt. við þennan lið og mér þykir sárt, virðulegi forseti, að hæstv. menntmrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu því þetta er málaflokkur sem heyrir undir hann en ég skil það og veit ástæðuna fyrir því að hann getur ekki verið viðstaddur umræðuna en hef engu að síður sagt honum mína skoðun á þessu þannig að hann veit nákvæmlega minn hug í málinu.
    Það er hlálegt að á sama tíma og menn tala um forvarnir og mikilvægi forvarna skuli svona tala birtast í fjárlagafrv. fyrir árið 1995. Það er reyndar ekki hlálegt, það er sorglegt og menn geta farið yfir þættina. Það þýðir ekkert að standa hér í ræðustól og berja sér á brjóst og tala um forvarnir og gera sig að einhverjum englum með geislabaug en meina svo nákvæmlega ekkert með því vegna þess að það er ekkert til í íslensku þjóðfélagi sem er betri forvörn gegn alls kyns villum sem fólk getur lent í en einmitt íþróttastarfið. Um það eru til rannsóknir sem voru gerðar á vegum Háskóla Íslands og á vegum íþróttanefndar ríkisins fyrir tilstilli Þórólfs Þórlindssonar prófessors. Þar kemur þetta alveg skýrt í ljós og þessi skýrsla verður lögð fram á íþróttaþingi sem verður um næstu helgi. Hvað kemur þar í ljós? Það koma í ljós bein tengsl t.d. við námsárangur. Þeir sem stunda íþróttir ná betri námsárangri en þeir sem stunda þær ekki. Þeir sem stunda íþróttir neyta minna áfengis en þeir sem stunda þær ekki. Þeir sem stunda íþróttir lenda síður á villigötum fíkniefnanna en þeir sem stunda þær ekki. Svona er hægt að telja upp lið fyrir lið fyrir lið að ógleymdu heilsufari almennt. Svo ætla menn að koma hér og bjóða upp á þetta, þetta eru litlar 14,5 millj. kr. en það er prinsippið sem gildir í þessu máli. Það er stefnan og það eru skilaboðin sem er verið að segja við fólkið í landinu. Og það er ekki hægt að taka það gott og gilt að á sama tíma komi menn og tali um forvarnir, vegna þess að það eru innantóm orð. Menn segja náttúrlega berum orðum: Við meinum ekkert með þessu. Hér ættu menn að vera að koma og styrkja forvarnir í landinu. Menn ættu að rifja upp nýlega umræðu um fíkniefnin. Viðtöl við unga, glæsilega stelpu í sjónvarpinu sem hafði lent í þessum ósköpum, viðtöl við móðurina. Menn ættu að labba hér í Austurstræti um helgar og sjá ástandið þar. Menn ættu að fletta í lögregluskýrslum um afbrotin. Ég fullyrði að fjöldanum öllum af þessu fólki væri hægt að bjarga með því að leiða það inn á brautir íþróttanna.
    Þess vegna finnst mér sorglegt að sjá þá stefnu og þau skilaboð sem æskan í landinu, sem foreldrarnir, uppalendur, kennarar og allir þeir sem bera hag æskunnar og framtíðarinnar fyrir brjósti, eru að fá með þessum tillöguflutningi sem hér er. Meira að segja RLR getur ekki spornað við fæti. Þeir vita af þessu öllu, en þeir hafa ekki mannskapinn, þeir hafa ekki fjármagnið. Það er því alveg sama hvar við berum niður á þætti forvarnanna, það eru engar raunverulegar forvarnir til. Þær eru til á tyllidögum, þær eru

til í afmælum og í veislum og öðru slíku, stórræðum, en þegar komið er að aðgerðunum þá eru þær ekki til. Þess vegna harma ég að þetta sé.
    Síðan spyr ég hv. formann fjárln., sem var mikill og þekktur íþróttagarpur hér áður fyrr, hvort hann treysti sér til þess að segja hér úr ræðustól að hann mundi beita sér fyrir því, ekki að hann gæti lofað mér því að þetta yrði að veruleika, að sjóðnum yrði bjargað, en hann mundi beita sér fyrir því að svo færi. Nei, það var aldeilis ekki hægt að taka á því. Það er hægt að finna hér í þessu plaggi fjöldann allan af fjárhæðum sem væri betur varið til íþrótta heldur en þar sem þær eru, fjöldann allan. Hv. formaður treysti sér ekki til að taka þessa afstöðu, einfaldlega hvort hann vildi beita sér fyrir þessu, en hann treysti sér til þess að taka afstöðu til þess að hátekjuskattur eigi að vera á. Það var stórmannlegt, en hitt er ekki mjög stórmannlegt. Ég tek undir sjónarmið hv. þm. með hátekjuskattinn. Ég er því fylgjandi að hann verði á og þess vegna mætti þrepa hann upp, fara með hann í fleiri þrep svipað og t.d. er gert í Svíþjóð og ég hef reyndar lagt fram fyrirspurn þess efnis hvernig sú skipting kæmi út. En ef menn eru tilbúnir að taka afstöðu til jafnstórs máls og hátekjuskattur er, hljóta menn að geta litið á þetta, þá hljóta menn að geta gert það.
    Ég get ekki úr því að ég er kominn hérna upp stillt mig um, svipað og fyrir 2--3 dögum, að inna hv. þm. Framsfl. enn einu sinni eftir því: Ætla þeir að fara með virðisaukaskattinn í eitt þrep ef þeir komast til valda? Þeir hafa hlaupið hér fagnandi um götur eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom fram. Reyndar skilur enginn hverju þeir eru að fagna. Barið sér á brjóst og sagt: Sjáið þið, sjáið þið. Fleiri þrep í skattkerfinu auka möguleikana á skattsvikum. Þvílík uppgötvun! Hver ætli hafi ekki gert sér grein fyrir því. Eftir því sem eru fleiri dyr á húsum eru fleiri leiðir út úr þeim. Þvílík uppgötvun. Og síðan að það yrði flóknara bókhaldskerfið eða bókhaldsfærslan á þeim. Önnur eins stórkostleg uppgötvun. Þetta vissi auðvitað hver einasti maður. En eftir öll þau stóru orð sem féllu hér og eru enn að falla þá á þjóðin það inni hjá Framsfl. að þeir segi það skýrt og skorinort, ætla þeir að setja matarskattinn aftur á, vegna þess að það sögðu þeir á síðasta þingi. Nú er aðeins farið að reka í bakkgírinn og segja: Það er erfitt að breyta til baka, og annað slíkt. En á sömu stundu er sagt: Þetta er eitthvað það vitlausasta sem gert hefur verið. Og þá er jafnvel verið að segja: Við ætlum þá bara að lifa við þetta vitlausa kerfi. Það er því kominn tími til að hv. þm. Framsfl. segi þjóðinni, skýrt og skorinort eins og þeir gerðu hér á síðasta þingi: Við ætlum að auka byrðarnar á ykkur, við ætlum að hækka matarverðið í landinu. Það eru nákvæmlega skilaboðin sem voru hér. Nú er bara spurning. Menn tala um kosningaþing. Eru menn menn til þess að standa við fyrri orð?
    Um skattsvikin vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan. Skattar eru orðnir allt of háir. Allt of háir. Það er allt of mikið af fólki sem lifir ekki vegna skattanna, fyrst og fremst. Af hverju halda menn að skattsvik aukist? Það er fyrst og síðast vegna þess að fólk verður auðvitað að bjarga sér, því er ýtt út í það vegna þess að skattarnir eru of háir. Hvað gerum við ekki til að brauðfæða börnin okkar? Við förum aðeins fram hjá kerfinu, ef þess þarf með, og það erum við hér inni sem setjum skattalögin sem berum stærstu ábyrgðina á því. Ég er tilbúinn að axla þá ábyrgð. En það er okkur að kenna. Við eigum fyrst að líta hér inn heldur en að líta út um allt þjóðfélag og reyna að finna einhverja seka menn þar, sem eru sekir af því að við settum þá í þá stöðu. Þannig að það er alveg ljóst að skattbyrði á þorra fólks verður að létta með einum eða öðrum hætti. Þess vegna tek ég undir þá gagnrýni sem hefur komið fram, að hátekjuskatt á ekki að leggja niður. Ég trúi ekki öðru, þegar upp verður staðið rétt undir jól, en að við verðum búnir að setja hann á aftur. Ég trúi ekki öðru. Það er bara ekki réttlæti í öðru.