Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:55:47 (227)


[18:55]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú man ég ekki gjörla út á hvað lagabreytingin gengur út af fyrir sig. En við verðum að gera mun annars vegar á bótagreiðsluauka úr almannatryggingalögunum vegna launabreytinga og hins vegar sérstökum samningum sem hafa orðið um svokallaðar eingreiðslur, sem þurfti auðvitað lagaheimild til, en reiknað er með að falli niður.
    Í öðru lagi varðandi húsaleigubæturnar, þá vonast ég til þess að það komist skýrt til skila að það lá fyrir strax í apríl hvernig átti að fjármagna húsaleigubæturnar og um það var meira að segja gerður skriflegur gjörningur, sem ég skrifaði upp á ásamt fyrrv. félmrh., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var víðtæk samstaða um að fjármagna húsaleigubæturnar með þessum hætti, enda sé ég ekki annað en það sé eðlilegt að fella niður greiðslur úr heimildarbótakerfinu til þeirra sem eru í því kerfi og munu fá húsaleigubætur samkvæmt húsaleigubótakerfinu. Þannig að ég sé ekki annað en það sé mjög eðlilegt að fara að með þessum hætti.
    Það er líka þannig að Byggingarsjóður verkamanna hefur skilað gífurlega mörgum íbúðum á undanförnum árum og er kominn tími til að hægja aðeins á þeirri starfsemi og þá var spurningin: Átti að skera það niður í sjálfu sér til bóta fyrir ríkissjóð? Það kom auðvitað til greina og ég hefði þegið það, svo sannarlega. En í staðinn var fallist á að nota það fjármagn, sem þar hafði áður farið inn fyrir Byggingarsjóð verkamanna, til húsaleigubóta fyrir þá sem þurfa að leigja á almennum markaði.
    Þetta þarf að koma fram og vona ég að það skýri þetta mál nægilega vel fyrir hv. þm.