Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 14:01:17 (265)


[14:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt hvernig stjórnarandstæðingar fara að því að reyna að skýra út fyrir fólki að vextir hér séu háir eða það hafi verið gert eitthvað með handafli og þess háttar. Það liggur fyrir alveg með skýrum hætti að vextir hafa stórkostlega lækkað hér á landi með markaðsaðgerðum. Og nú ætla ég að segja hv. þm. að ríkissjóður þarf ekki á nýrri lántöku að halda það sem eftir er þessa árs, ekki á nýjum peningum að halda. Það þarf auðvitað að endurnýja stokkinn. En ríkissjóður þarf ekki á meiri peningum að halda. Ég er hérna með það sem Sigurður B. Stefánsson sagði og það sem hann benti á er auðvitað að það er ekkert hættumerki á íslenska markaðnum þótt skammtímavextir hækki nú tímabundið vegna þess að vextir hafa verið að hækka annars staðar. Þvert á móti sé það heilbrigðismerki á íslenska fjármagnsmarkaðnum að bregðast við með þessum hætti. Ég held að hv. þm. og fleiri hans flokksmenn og stjórnarandstæðingar ættu að kynna sér vaxtamálin betur og átta sig á því hvernig þau virka og viðurkenna þá staðreynd að vextir hafi lækkað hér á landi og það er kannski stærsti sigur ríkisstjórnarinnar að ná einmitt tökum á málum með þeim hætti. Þeir yrðu menn að meiri ef þeir viðurkenndu þetta. Og ég skora á hv. þm. að koma hér upp og segja það umbúðalaust og vera ekki að reyna að pota vöxtunum upp með því að gera hlutina tortryggilega þegar það liggur fyrir, meira að segja frá Sigurði Stefánssyni og ég held hérna á viðtölunum við hann, hann segir að þetta sé heilbrigðismerki að við færum vextina til samræmis við það sem gerist í okkar nágrannalöndum, ekki síst ef við erum að opna íslenska fjármagnsmarkaðinn. Þetta á auðvitað hv. þm. að vita og ég veit að hv. þm. er maður til þess að viðurkenna staðreyndir og ég vonast til þess að hann komi hér í ræðustólinn og geri það í annarra áheyrn.