Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 14:26:48 (268)


[14:26]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Í upphafi fjárlagaræðu sinnar lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að hann ætlaði að fjalla um stefnumörkun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í efnahagsmálum. Eins og hér hefur komið fram þá urðu vaxtamálin fyrirferðamikil í þeirri efnahagsumfjöllun. Slíkt er ekkert nýtt þegar efnahagsstefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er rædd.
    Hér var áðan minnst á vaxtasprenginguna miklu sem ríkisstjórnin setti af stað í upphafi valdaferils síns og hefur dregið svo þungan dilk á eftir sér. Afleiðingar hennar urðu greiðslu- og rekstrarerfiðleikar fyrirtækjanna og heimilanna í landinu. Árið 1990 var staða fyrirtækja með því besta sem verið hafði um langt skeið en skyndilega snerist dæmið við. Mörg fyrirtæki hafa síðan orðið og eru enn að verða gjaldþrota með gífurlegu tapi fyrir bankakerfið sem hefur þurft að bæta sér það upp með háum vöxtum. Samdráttur í rekstri varð einnig hjá flestum eða öllum sem þó hafa enn getað haldið áfram og það leiddi að sjálfsögðu til minnkandi atvinnu og þess mikla atvinnuleysis sem nú er okkar mesta böl fyrir þá einstaklinga sem fyrir því verða og þjóðarbúið í heild. Sá mikli fjársjóður sem er í vinnuafli þeirra sem eru atvinnulausir nýtist þjóðinni ekkert og atvinnuleysið veldur þungum útgjöldum ríkissjóðs og sveitarfélaga. Samt keppast ráðherrarnir við að segja að ástandið sé orðið harla gott og fram undan sé betri tíð með blóm í haga en því miður stangast ýmislegt hvað á annars horn í orðum og athöfnum.
    Ummæli hæstv. forsrh. í umræðum utan dagskrár á Alþingi í fyrradag auðvelda ekki hv. alþm. að vita hverju skal trúa hjá hæstv. ráðherrum en þá svaraði hæstv. forsrh. því þegar verið var að biðja um

skýringar á ummælum ráðherra að ekki væri hægt að taka einhver ummæli héðan og þaðan úr ræðum manna eða viðtölum. Því verður það spurning hverju á að trúa í sambandi við vaxtamálin líka.
    Í greinargerð fjárlagafrv. á bls. 338 stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Loks lækka vaxtagreiðslur vegna ríkisvíxla og ríkisbréfa um 700 millj. kr. vegna lækkunar skammtímavaxta milli ára og minni halla á ríkissjóði.``
    Eins og hér hefur verið bent á þá vék hæstv. fjmrh. að sama efni á mörgum stöðum í ræðu sinni og segir að vextir hafi lækkað verulega og séu lægri en verið hefur um langt árabil og vaxtabyrði heimilanna hafi lækkað. Vextir hafi lækkað og atvinnuleysi sé hér minna en annars staðar, sem virðist vera takmörkuð huggun fyrir þá sem eru atvinnulausir.
    En eins og hér hefur verið bent á kemur síðan hæstv. fjmrh. í sjónvarpið og segir að vextir muni hækka. Ég get ómögulega skilið hvernig það kemur saman við það sem hann segir í fjárlagafrv., að lækkun skammtímavaxta muni leiða til minni útgjalda á sama tíma og skammtímavextir eru að hækka.
    Í Morgunblaðinu í gærmorgun var viðtal við sérfræðing í vaxtamálum sem hér hefur verið vitnað til. Hann telur að ekki verði komist hjá því að hækka vexti á skammtímamarkaði á næstunni vegna hækkandi vaxta á alþjóðlegum markaði, óvissu um verðbólgu vegna ógerðra kjarasamninga og loks hugsanlega vegna aukinna umsvifa í þjóðarbúskapnum. Hér efast sérfræðingurinn í vaxtamálum um að það standist sem stendur í grg. fjárlagafrv. um lækkun skammtímavaxta og að ekki sé allt jafnbjart fram undan eins og hæstv. ráðherrar virðist vilja telja.
    En reyndar bætir sérfræðingurinn við og segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Slík hækkun er nauðsynleg til að varðveita tiltrú manna á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.``
    Ég vildi gjarnan fá að heyra skýringu hæstv. fjmrh. á því hvernig vaxtahækkun er nauðsynleg til að varðveita tiltrú á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Er það e.t.v. til þess að skapa slíka tiltrú sem ríkisstjórnin tekur nú nýtt skref í vaxtahækkun?
    Í ræðu sinni í gær sagði hæstv. fjmrh. að í þessari viku verði fyrsta útboð ríkissjóðs á skuldabréfum með tengingu við evrópsku mynteininguna ECU og er fyrirhugað að þau verði framvegis tvisvar í mánuði. Þessari ákvörðun er fylgt eftir með miklum auglýsingum í Morgunblaðinu í gær. Fyrst er heilsíðuauglýsing með þessari fallegu mynd af Skrautu í blómskrýddum haga. ( Fjmrh.: Er hún erlend eða íslensk?) Kusa? Hún er íslensk. ( Fjmrh.: Það var sagt við mig í gær að hún væri erlend.) ( JGS: Ólafur Ragnar hefur ekkert vit á svoleiðis.) ( SvG: Ólafur er ekki fróður í þessum málum.) Það hef ég ekki hugmynd um. En þetta er hún íslenska Skrauta og vissulega er ánægjulegt að sjá svo fallega mynd af henni. (Gripið fram í.) En á eftir þessari fallegu auglýsingu kemur önnur á næstu blaðsíðum sem segir nánar um það hvað þessi fallega mynd á að þýða. Þar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fyrsta útboð á nýjum ECU-tengdum spariskírteinum ríkissjóðs til fimm ára fer fram á morgun, miðvikudaginn 12. október, kl. 14.00.`` --- Það er sem sagt nýhafið þetta nýja útboð. --- ,,Á sama tíma fer fram útboð á hefðbundnum verðtryggðum spariskírteinum til fimm og tíu ára.
    Nýju ECU-tengdu spariskírteinin til fimm ára eru í íslenskum krónum og bera 8% nafnvexti með gjalddaga 5. nóvember 1999. Spariskírteinin eru með tengingu við ECU á lánstímanum . . .
    Útboð á hefðbundnum, verðtryggum spariskírteinum ríkissjóðs fer einnig fram á morgun á sama tíma``, en spariskírteinin verða seld með tilboðsfyrirkomulagi.
    Hér er ríkisstjórnin að fara í mikla herferð á sölu gjaldeyristengdra spariskírteina með 8% vöxtum. Þá hlýtur að vakna spurningin hvort það sé líklegt að önnur spariskírteini eða verðbréf ríkissjóðs, sem verið er að auglýsa og bjóða fram á sama tíma, verði keypt á miklu lægri vöxtum. Við höfum oft heyrt sagt í fréttum frá tilraun Húsnæðisstofnunar til að selja húsbréf á 5% vöxtum nú í sumar með takmörkuðum árangri og þó var ekkert slíkt glæsitilboð með 8% vöxtum á boðstólum á sama tíma. Miðað við þann kostnað sem ríkisstjórnin virðist ætla að leggja í að auglýsa þessi hávaxtabréf og fá sem flesta til að kaupa þau þá hlýtur hún að hafa gert sér einhverja grein fyrir því hvaða áhrif það muni hafa á önnur skuldabréfaviðskipti og hvaða áhrif er líklegt að það hafi fyrir vaxtastig almennt í landinu, bæði fyrir atvinnulíf og einstaklinga. En hæstv. fjmrh. hefur undirstrikað að þetta nýja útboð með háu vöxtunum sé ekki af þörf til að afla lánsfjár, það sé af einhverjum öðrum ástæðum. Hæstv. fjmrh. hefur einnig sagt að bankavextir þyrftu að lækka. Þeir væru hér of háir. En er það til að stuðla að slíkri lækkun sem nú eru boðin með miklu kappi þessi hávaxtabréf? Er ekki líklegt að bankarnir telji að þarna sé kominn nýr keppinautur um fjármagn til þeirra með svo háum vöxtum að þeir verði að bregðast við í gagnstæða átt? Eða er þetta nýja tilboð með háu vöxtunum til að varðveita tiltrú manna á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eins og sagði í orðunum sem ég vitnaði til áðan og hæstv. fjmrh. tók undir? Hversu dýru verði verður þessi styrking á stefnu ríkisstjórnarinnar keypt þegar öll kurl koma til grafar, þegar áhrifin af þeim hafa komið fram?
    Ég tel æskilegt að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir ástæðunum fyrir því að þarna er farið að bjóða verðtryggð ríkisskuldabréf með 60% hærri vöxtum en hefur verið miðað við nú á þessu sumri, hvaða áhrif það muni hafa á markaðinn og afleiðingar fyrir þjóðfélagið í heild.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í fleiri atriði þessa fjárlagafrv. Þar er að sjálfsögðu af mörgu að taka en það mun verða rætt ítarlegar síðar.