Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 13:46:51 (376)


[13:46]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel mjög ámælisvert að við séum fyrst núna þegar liðnar eru nær tvær vikur af þinginu að sjá það frv. til lánsfjáraukalaga sem hér er fjallað um og kveður á um að auka útgáfu á húsbréfum. Ekki síst þegar það var vitað í júnímánuði að II. flokkur húsbréfa yrði uppurinn í ágúst. Í júní, um svipað leyti og ég fór úr félmrn., kom eftirfarandi frá Húsnæðisstofnun:
    ,,Miðað við áætlanir stofnunarinnar er gert ráð fyrir að II. flokkur 1994 endist til miðs ágústmánaðar en þær áætlanir eru þó háðar nokkurri óvissu um þróun mála næstu mánuði.``
    Við því var þannig varað fyrir nokkrum mánuðum síðan í hvað stefndi. Hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. hafa haft þennan tíma til að fara yfir stöðuna og þeim hefði ekkert átt að vera að vanbúnaði að leggja fram þetta mál sem 1. mál þingsins. Ég segi að þetta sé ámælisvert vegna þess að á þeim hálfa mánuði sem liðinn er síðan þing kom saman hefur sennilega hátt í þriðjungur af þeim umsóknum sem nú bíða afgreiðslu komið en þær eru um 600 talsins sem bíða. Ég veit að hæstv. fjmrh. ætti að vita það manna best hvaða áhrif það hefur á markaðinn þegar svona stífla verður í húsbréfakerfinu.

    Ég þykist vita ástæðuna fyrir því af hverju þetta hefur dregist svo lengi vegna þess að ég hef nokkra reynslu af starfi sem félmrh. og samskiptum við fjmrn. um húsbréfakerfið. Ég tók eftir því áðan að hæstv. fjmrh. sagði úr ræðustól og var þá að tala til hv. formanns efh.- og viðskn., Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, að hann ætti í erfiðleikum með að skýra út markaðslögmálin varðandi vextina. ( Fjmrh.: Fyrir framsóknarmönnum.) Fyrir framsóknarmönnum. Ég vil þá segja að ég hef átt í miklum erfiðleikum í gegnum árin með að skýra út fyrir hæstv. fjmrh. markaðslögmál húsbréfakerfisins. Það er nú einu sinni svo að þessi húsbréf eru gefin út í smáskömmtum á þriggja mánaða fresti, það hefur þó komið fyrir að það hefur verið gert með sex mánaða millibili. Það gerir fjmrn. til að nota tækifærið þegar komið er að því að gefa út nýjan húsbréfaflokk til að reyna að þrengja að kerfinu með öllum hætti. Í því stappi stendur alltaf milli fjmrn. og félmrn. í tvær til þrjár vikur áður en húsbréfin eru gefin út. Þrengja að þessu markaðskerfi sem á að byggja á lögmálinu um framboð og eftirspurn. Nú er svo komið að fyrir tilstuðlan fjmrn. er þetta að verða að miðstýrðu markaðskerfi. Ég vara við því ef svo á að halda áfram varðandi húsbréfakerfið að það eigi eilíflega að þrengja að því með einum eða öðrum hætti þannig að það byggir ekki á því sem lagt var upp með.
    Ég vil segja að ég hygg að hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. hafi verið að þrátta hér um ábyrgðargjaldið af húsbréfunum. Við skulum fara nokkuð yfir það mál. Í fyrsta lagi: Af hverju eru þessir erfiðleikar í húsbréfakerfinu? Af hverju eru þessi vanskil? Í fyrsta lagi vitum við að þegar vextir lækkuðu í nóvember var það raunar vitað að það mundi auka útgáfuna á húsbréfum. Fólk sem hafði haldið að sér höndum fór af stað. Líka fór þá fólk af stað sem var kannski í of dýru húsnæði og var að reyna að létta sér greiðslubyrðina og fór í minna húsnæði. Ég held að það sé einnig ljóst. Síðan er ljóst að vanskilin eru fyrst og fremst hjá því fólki sem fékk greiðsluerfiðleikalán á árunum 1990--1991. Þá voru afföllin mikil í húsbréfakerfinu, þá var gripið til þess ráðs að stofna hér greiðsluerfiðleikalánaflokk í gegnum húsbréfakerfið vegna þess að fólk var komið í vandræði sem hafði fengið lán í 86-kerfinu. Þannig að að stærstum hluta til eru vanskilin hjá fólki sem fékk greiðsluerfiðleikalánin.
    Síðan hafa aðstæður breyst eins og hefur verið rakið úr þessum ræðustól. Atvinnuleysi, tekjufall hjá fólki, veikindi, það skýrir stærsta hluta þeirra umsækjenda sem sækja nú um greiðsluerfiðleikalán hjá Húsnæðisstofnun eða um 80% þeirra hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli, veikindum eða atvinnumissi.
    Síðan er vissulega það, og það skal ég manna fyrst verða til að viðurkenna, sem hér var nefnt að skerðing á vaxtabótum hefur vissulega átt sinn þátt í því að raska greiðsluáætlun hjá fólki. ( KÁ: Hverjir hafa samþykkt þær?) Ég samþykkti þær, hv. þm., en kannski man fjmrh. best hver það var sem streðaði lengst gegn því að það yrði gert og margbenti á hvaða áhrif það hefði. Enda var ekki gengið eins langt í því efni og upphaflega stóð til.
    Þetta eru nú þær ástæður. Hér hafa menn talað um 25% vanskil í húsbréfakerfinu og þá er miðað við 90 daga vanskil. Ég hygg það sé eðlilegra að miða við fjögurra mánaða vanskil vegna þess að þá fyrst sendir Húsnæðisstofnun málin til lögfræðinga þannig að fólk sem er skuldum hlaðið bíður kannski og borgar fyrst sína skuldir annars staðar áður en það fer að gera upp húsbréfalánin. Það er náttúrlega ljóst að ef Húsnæðisstofnun hefði sömu aðferðir og bankakerfið að senda málin til lögfræðinga eftir einn mánuð þá værum við ekki að tala um svona mikil vanskil. Þannig að þessi sveigjanleikinn í húsbréfakerfinu er ein ástæða til sem ég vil nefna. Þegar við skoðum fjögurra mánaða vanskil þá erum við að tala um að vanskilin séu ekki fjórðungur, eins og hér hefur verið nefnt, af húsbréfalánum heldur innan við 20% og það tel ég brýnt að hafa í huga. Vissulega er það of mikið en það á sér sínar skýringar og ég vara við því ef sú mynd er gefin að þetta sé allt saman húsbréfakerfinu að kenna vegna þess að ef það fengi að virka og ganga eins og það á að gera þá væri staðan önnur að mínu viti.
    Mig langar aðeins að fara út í þetta ábyrgðargjald sem hér er verið að tala um. Það var farið út í að taka upp þetta ábyrgðargjald, að mig minnir, um síðustu áramót. Þá var tekið upp ábyrgðargjald sem var 0,25%. Á sama tíma höfðum við aðstæður til að lækka vexti af húsbréfunum niður í 4,75%. Að viðbættum þessum 0,25% var því ekki verið að auka vextina frá því sem var í húsbréfaflokknum áður. Þeir voru 5% með sama hætti þó hluti af þeim væri núna ábyrgðargjald. Núna erum við beinlínis að hækka vextina frá því sem þeir hafa verið upp í 5,1%. 0,25% ábyrgðargjald gefur 30 millj. á ársgrundvelli. Þau 0,1% sem hér er verið að tala um gefa kannski 10 millj. Það eru þær 10 millj. sem við erum að tala um sem hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. eru vafalaust búnir að þrátta um í nokkrar vikur og hefur orðið til þess að töf hefur orðið á því að leggja málið fyrir þingið. Ég tek undir það með þeim sem hér hafa talað og sagt að það séu skrýtin viðbrögð hjá hæstv. ríkisstjórn við þessum vanskilum að hækka vextina.
    Við höfum nú einu sinni borið okkur saman við Danmörk varðandi húsbréfakerfið sem er ekki ósvipað í Danmörku. Þeir eru jú með varasjóð og þeir eru með ábyrgðargjald. Þeir miða við lánshlutfallið, hvað þeir lána, og eru með 0,2% ef þeir lána 60% en fara upp í 0,4% ef lánshlutfallið er 80%. Það er þó nokkur munur á hvort verið er að lána 65% af verði íbúðar eða 80% miðað við áhættuna fyrir ríkissjóð. En við erum að sigla hér með 65% upp í nærfellt það sama og Danir eru með í ábyrgðargjald miðað við 80%. Þar hafa vanskilin líka verið út af því að lánastofnanir keppa um viðskiptavinina með því að yfirbjóða varðandi þetta lánshlutfall og þess vegna hefur þar orðið verðhrun á fasteignum sem við höfum sem betur fer ekki búið mikið við hér.
    Það er eitt sem ég vil nefna af því að svo mikið liggur við að fá þessar 10 millj. til Húsnæðisstofnunar, að það tekur margar vikur að ná samkomulagi. Því er seinkað að gefa út nýjan húsbréfaflokk með afleiðingum sem ég óttast. Ég óttast það að þegar þessi stífla er komin með 600 umsóknum sem bíða að það geti haft veruleg áhrif á afföllin í húsbréfakerfinu, ég óttast það, allt fyrir þessar 10 millj. Ég tel að það hefði frekar átt að snúa sér að því að skoða það að bæta þau vaxtakjör sem húsbréfadeildin hefur á sínum innstæðum Seðlabankanum. Það er svo að það liggja sennilega 1--2 milljarðar í nokkra mánuði í Seðlabankanum frá húsbréfadeildinni þar sem fasteignabréfin koma fyrr inn heldur en það sem þarf að greiða út þannig að þetta eru 1--2 milljarðar sem liggja þarna. Það voru samþykkt lög hér fyrir nokkrum mánuðum síðan sem heimiluðu að hægt væri að ávaxta þessa peninga annars staðar en í Seðlabankanum. Lögin voru áður með þeim hætti að það var einungis hægt að ávaxta þá í Seðlabankanum. Og hver er ávöxtunin sem af þessu fé hefur verið sem hefur verið bundin með þessum hætti í Seðlabankanum? Á sl. ári var raunávöxtun af þessu fjármagni 1,2%. Það er í skamman tíma sem féð liggur þarna, einhverja mánuði, en ég minni þá á að lífeyrissjóðirnir fá 4--5% raunávöxtun á fjármagn sem þeir ávaxta til skamms tíma. ( Gripið fram í: Hvaða ráðherra ber ábyrgð á þessu?) Ég er að segja að það er nýlega sem búið er að losa um það að hægt væri að ávaxta þetta með öðrum hætti heldur en í Seðlabankanum. Þetta var bundið í lög að þetta væri í Seðlabankanum og þetta er 47 millj. sem komu inn á síðasta ári með þessum hætti í ávöxtun af þessum peningum úr Seðlabankanum. Ef ávöxtun af þessum peningum væri eðlileg þá er ég viss um að við værum ekki að tala um 40--50 millj. heldur kannski 70--80 millj. sem er nokkru meira en sú fjárhæð sem við erum að tala um sem kemur vegna þessa ábyrgðargjalds.
    Ég vil líka minna á að það hefur komið fram í fjölmiðlum hjá formanni húsnæðismálastjórnar að miðað við tölur síðasta gjalddaga benda þær til þess að vanskil sé heldur að minnka á nýjan leik sem betur fer. Er ástæða núna, hæstv. ráðherra, miðað við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu, miðað við þær aðstæður sem eru á mörgum heimilum í landinu, þó að við séum ekki að tala um háa fjárhæð hér eins og hér hefur verið nefnt að fara út í þessa vaxtahækkun, þar sem Húsnæðisstofnun fær 10 millj. fyrir? Er það ástæða? Og hvaða áhrif mun þetta hafa? Hefur það verið skoðað? Ég man eftir því, hæstv. ráðherra, að það var allt kapp lagt á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að sprengja ekki þennan 5% vaxtamúr sem var frá því í nóvember sl. Það mátti aldrei taka nein húsnæðisútboð ef boðið var hærra en 5%, 5,1%. Því var alltaf hafnað. En þegar kemur að lántakendunum, sem eiga að greiða, þá er allt í lagi með þennan vaxtamúr. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Nú hefur komið fram að Húsnæðisstofnun hefur orðið að taka 7 milljarða að endurláni hjá fjmrn. og ég vil spyrja, á hvaða kjörum er það? Er einhver sérstök þóknun af þessu sem tekin er, á hvaða kjörum er það? Er það yfir 5%? Á hvaða kjörum eru þessir 7 milljarðar endurlánaðir til Húsnæðisstofnunar?
    Svo má spyrja líka þegar við erum að ræða um það að það er alveg ljóst og liggur fyrir að við erum að tala um að þetta er að meginhluta til vegna greiðsluerfiðleikalánanna sem voru mjög erfið vegna þess að við vorum að fjármagna tvö kerfi samtímis og vegna þess að tekjur hjá fólki hafa minnkað, það hefur orðið að búa við atvinnuleysi. Þegar ríkisstjórnin leggur svona mikla áherslu á að hækka þetta úr 0,25 í 0,35, er hún að búast við þessu viðvarandi, þessari stöðu á heimilunum, að fólk geti ekki staðið á skilum með sín lán?     Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi hér eina leið sem hæstv. félmrh. hefur líka gert sem er að lengja lánstímann í húsbréfakerfinu úr 25 í 40 eða 43 ár. Ég er ekki viss um að það sé sú leið sem muni skila sér til fólksins vegna þess að ef sú leið yrði farin þá spyr maður um markaðshæfni slíkra bréfa sem yrðu til 40 ára vegna þess að þetta verður að parast á móti, fasteignabréf og húsbréf. Og þá spyr ég, ef á að lengja lánstímann með þessum hætti, þýðir það ekki hærri ávöxtunarkröfu? Og hvert er þá virði slíkra bréfa? Hvaða áhrif hefur það á verð eigna ef t.d. þeir sem eru í nýbyggingu þurfa að selja slík bréf á markaðinn? Ég er ekki að hafna þessari leið en ég spyr um þessi áhrif. Er þetta eitthvað sem getur skilað sér til fólksins?
    Það hefur verið farið hér út í skuldbreytingar og ég vil mótmæla því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði að það hefði ekkert verið gert í þessum efnum. Ríkisstjórnin beitti sér fyrir því í samráði við Húsnæðisstofnun og lánastofnanir að það yrði farið út í skuldbreytingar hjá fólki sem býr við atvinnuleysi og veikindi. Ég spyr hvort það þurfi ekki að víkka út þá heimild miðað við núverandi aðstæður. Og ég held líka að ein leiðin til þess að draga úr greiðsluerfiðleikum sé að skoða það sem margoft hefur verið talað um og m.a. ályktað um á landsfundi Sjálfstfl. að hækka lánshlutfall fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð upp í 80 eða 90% af verði íbúðar. Það var það sem landsfundur Sjálfstfl. hefur ályktað um og ég held að það mundi skila sér vel ef hægt væri að skoða það vel að fara upp í eitthvað hærra í lánshlutfalli, a.m.k. fyrir þá sem eru að byggja og kaupa sína fyrstu íbúð.
    Ég vil líka nefna varðandi greiðslumat af því að það hefur verið hér til umræðu. Ég held að það megi vissulega yfirfara þetta greiðslumat en þegar skoðað er meðalgreiðslumatið vegna fyrstu íbúðar kaupenda, sem fólk hefur fengið, þá hefur það ekki nýtt alveg það mat sem það hefur fengið. Meðalgreiðslumatið vegna fyrstu íbúðar er 5,9 millj. en það er 10% lægra sem fólk hefur nýtt sér eða um 5,3 að meðaltali heldur en leyft hefur verið þannig að það hefur ekki farið upp í fullt það sem það hefur þó haft heimild fyrir. Sama gildir um þá sem eru að kaupa sína aðra íbúð að meðalgreiðslumatið þar hefur verið 9,3 millj. en það sem fólk hefur nýtt sér er um 7,7 millj. eða 17% lægra en greiðslumatið. En ég er ekki þar með að segja að það séu ekki gallar á greiðslumatinu sem ástæða er til að skoða.
    Svo í lokin, af því að minn ræðutími er að verða búinn, vil ég vara við því sem mér finnst ekki

bara koma fram hjá hæstv. fjmrh. og sem ég hef verið í eilífum ágreining við fjmrh. út af sem er ríkisábyrgðin á húsbréfum. Ég heyrði ekki betur en framsóknarmenn t.d. séu að taka undir þetta og að hluta til heyrðist mér jafnvel Kvennalistinn vera að taka undir þetta. Hér liggur fyrir skýrsla þar sem hefur verið farið yfir þessi mál um kosti og galla að afnema ríkisábyrgð á húsbréfum sem í voru fulltrúar fjmrn., félmrn. og Húsnæðisstofnunar. Fulltrúar Húsnæðisstofnunar og félmrn. vara við því ef það á að fara að afnema hér ríkisábyrgð á húsbréfum. Og hér er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Án ríkisábyrgðar yrðu vextir hærri. Þeir yrðu mismunandi eftir landshlutum og jafnvel gæti sú þróun átt sér stað að láglaunafólk yrði krafið um hærri vexti en þeir sem hærri tekjur hafa. Þess vegna er ríkisábyrgð á húsbréfum hornsteinn jafnréttis í húsnæðismálum.`` Og það er einnig talað um að þetta gæti haft veruleg áhrif úti á landi þar sem væri hugsanlega hægt að fara inn í banka og krafist mismunandi veðhæfni á eigum þannig að ég vil vara menn við og biðja þá um að skoða þessi mál mjög ítarlega áður en menn tjá sig um það og gefa þar með hæstv. fjmrh. byr undir báða vængi um að hér sé kominn einhver meiri hluti fyrir því að afnema ríkisábyrgð á húsbréfum.