Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:24:13 (407)


[15:24]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þá er varaformaður fjárln. búinn að tjá sig um málið þannig að það er greinilega gullöld og gleðitíð fram undan hjá ríkissjóði að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóð og við sem erum áhugamenn um það að þessi sjóður standi vel og um endurbætur á honum fögnum sinnaskiptum Sjálfstfl. í þessu máli. Ég beitti mér fyrir því og flutti um það tillögu á árinu 1982 að ríkissjóður ábyrgðist skuldbindingar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sjálfstfl. var þá mjög tregur í þeim efnum og hefur oft verið síðan en ég heyri að sjálfstæðismenn eru að fallast á þau sjónarmið sem þar voru sett fram. Ég fagna því að sjálfsögðu og einnig því sem kom fram hér áðan að hv. þm. telja nauðsynlegt að beita sjóðnum einmitt til endurmenntunar og fullorðinsfræðslu og í tengslum við endurmenntunar- og fullorðinsfræðslukerfið.
    Þá er því til að svara að sem betur fer eru hv. flm. ekki einir á ferðinni í þessu efni vegna þess að ég flutti í hittiðfyrra frv. til laga sem gerði einmitt ráð fyrir þeim möguleika að þessum sjóði væri beitt í tengslum við skólakerfið og í tengslum við Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt ef menn meina eitthvað í alvöru með þessu máli eins og hv. fyrri flm. gerir örugglega, ég dreg það ekkert í efa, þá eigi menn að tengja þetta saman. Menn eigi að reyna að horfa á það í samfellu, annars vegar framhaldsnám sem stundað er t.d. í iðnskólum og menn fá lán út á og hins vegar þann veruleika að fólk

er atvinnulaust. Nú er þetta dæmi þannig eins og menn þekkja að fólk sem er atvinnulaust á á hættu að missa atvinnuleysisbætur ef það fer í framhaldsnám eins og staðan er í dag.
    Við höfum um árabil eftir að atvinnuleysið hélt innreið sína reynt að fá þessari ósvinnu breytt. Það hefur ekki tekist en ég fagna því mjög ef það er hægt að gera það og ég veit að hv. 5. þm. Norðurl. e. þekkir það af mínum störfum að ég spyr ekki hver flytur heldur spyr ég hvert er málið og hef þar á meðal veitt málum hans brautargengi í þessari stofnun án þess að hann hafi nokkra ástæðu til að kvarta undan því.
    Hitt er hins vegar nokkuð athyglisvert að bæði hann og hv. þm., ég tala nú ekki um varaformann fjárln., sem voru í gær að flytja frv. um að skera Atvinnuleysistryggingasjóð niður um mörg hundruð millj. kr. skuli núna allt í einu í dag hafa þennan mikla áhuga á því að bæta við verkefni hjá sjóðnum. Ég vænti þess fastlega að þess sjáist stað í tillögum við 2. umr. fjárlaga um meiri peninga Atvinnuleysistryggingasjóðs í þetta verkefni. Og flytji þeir ekki þá tillögu í sameiningu, þeir hv. fóstbræður sem talað hafa, mun ég flytja þá tillögu fyrir þá og þá reynir á það hvernig menn greiða atkvæði.