Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:42:05 (440)

[15:42]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er verið að ræða hefur komið áður á dagskrá eins og síðasti ræðumaður gat um. Ég tel engu að síður nauðsynlegt að það komi fram hér og nú að ég tel mjög sterk og veigamikil rök hníga að því að danska sé fyrsta erlenda tungumálið sem við kennum nemendum okkar. Rökin eru menningarlegs og sögulegs eðlis og veita dönskunni sem skandinavísku tungumáli sérstöðu í tungumálanámi. Ástæðuna fyrir því að við veljum til þess dönsku en ekki önnur skandinavísk tungumál er einnig hægt að rökstyðja með mjög einföldum og skýrum hætti. Að öðru leyti tek ég heils hugar undir álit nefndar um mótun menntastefnu að full ástæða er til þess að skoða hvernig megi bæta dönskukennslu í íslenskum skólum.