Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:50:37 (446)

[15:50]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Af þátttöku í umræðum um þessa fyrirspurn finnst mér ljóst að mjög verulegur er áhugi á málinu á hv. Alþingi. Ef marka má þau sjónarmið sem hér hafa komið fram er hvorki hægt að lesa úr því stuðning við sjónarmið nefndarinnar né heldur það sem ég þóttist heyra hjá hæstv. ráðherra að hann styddi niðurstöðu nefndarinnar. Mér finnst það alvörumál og umhugsunarefni sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að þetta væri ekki atriði sem yrði kveðið á um í lögum. Út af fyrir sig er það sjálfsagt skynsamlegt en í staðinn yrði þetta sett í aðalnámsskrá, sem sagt á valdi ráðherra og það finnst mér ekki eðlilegt. Ég tel eðlilegt að Alþingi hafi álit á þessu máli og geti tjáð sig um það.
    Ég gat þess í upphafi að ég væri fylgjandi því að halda núverandi stöðu mála en ég tek fram að ég tel mikla og brýna nauðsyn á því að efla dönskukennslu í grunnskólum. Ég held að þar séu verulegar brotalamir og ég skil út af fyrir sig þau sjónarmið sem hafa verið færð fram. Takist það ekki er kannski eðlilegt að menn fari að hugsa sinn gang en það held ég að sé samt verkefnið.
    Ég bendi á það að Kennarasamband íslands og Hið íslenska kennarafélag hafa sent umsögn til nefndarinnar. Ég fékk aðgang að henni um þetta efni og þar telja þau orðrétt, með leyfi forseta, að: ,,umræða um kjarnagreinar þurfi lengri tíma. Uppi eru skiptar skoðanir um gildi þeirra yfir höfuð og einnig um það hverjar þær skuli vera. Kennarafélögin eru andvíg þeim áformum um mótun nefndar um menntastefnu að hefja enskukennslu á undan dönskukennslu án undangengins samráðs við fagfélög kennara og víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu. Verði Norðurlandamálunum ýtt til hliðar til þess að auka svigrúm ensku í íslenskum skólum er hætta á að vegið sé að rótum íslenskrar menningar.``
    Þetta er hluti af áliti kennarafélaganna um þetta efni. Nú er vafalaust ýmsu háð hvernig skoðanir eru í þessum efnum og hér kunna einnig að vera tilfinningaleg atriði. Ég tel mjög mikilvægt að við séum mæltir á Norðurlandamál og ég tel að það þurfi að auka valfrelsi, a.m.k. á efri stigum náms í þeim efnum, og mér hefur alltaf fundist danska vera fallegt mál, eitthvert fallegasta erlenda málið sem ég heyri.