Húsnæðisaðstaða Fjölbrautaskólans við Ármúla

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:58:13 (449)

[15:58]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt sem kemur fram í orðum hv. fyrirspyrjanda að aðstaða nemenda og kennara þessa skóla er óviðunandi. Fjölbrautaskólinn við Ármúla mun hafa liðlega 3.800 fermetra húsnæði auk leiguhúsnæðis sem er svo sem ekki til frambúðar. Nemendur eru hátt á áttunda hundrað þannig að það er ljóst að þröngt er setinn bekkurinn en það má þó segja að húsnæðið sem skólinn hefur til umráða er í allgóðu ástandi að flestu leyti.
    Hugmyndir um að ljúka byggingu skólans hafa verið uppi um alllangt skeið og þær hugmyndir eiga sér raunar mjög langa sögu. T.d. var árið 1983, fyrir 11 árum, gerð er tillaga að nýrri álmu. Eftir það hafa orðið breytingar á lóðamörkum og lóð skólans hefur nokkuð verið skert. Stjórnendur skólans hafa oftar en

einu sinni vakið máls á húsnæðisvandræðum skólans, bæði við menntmrn. og við Reykjavíkurborg, og málið oft rætt og athugað. Fjárveitingar til viðbyggingar munu hafa verið á fjárlögum 1990 og 1991, að vísu engar stórar upphæðir, 2 millj. og 5 millj. hvort árið, en þær fjárveitingar munu í báðum tilvikum hafa verið notaðar til viðhalds á skólamannvirkjum Ármúlaskólans.
    Ég held að það sé ekki hægt að kenna alfarið áhugaleysi ráðuneytisins á þessum árum um að viðbygging hefur aldrei komist á rekspöl, heldur hinu að önnur verkefni hafa jafnan þótt brýnni í samstarfi ríkis og Reykjavíkurborgar við uppbyggingu framhaldsskólanna. Á næsta ári er gert ráð fyrir 5 millj. kr. til endurbóta og breytinga á húsnæði skólans með það fyrir augum að bæta nýtingu þess en engar ákvarðanir hafa verið teknar um raunverulega viðbyggingu hliðstæða þeirri sem hefur verið ætluð til þess að ljúka byggingu skólans.