Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 16:21:07 (456)


[16:21]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 92 um frv. til lánsfjáraukalaga fyrir árið 1994 frá meiri hluta efh.- og viðskn.
    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu frá fjmrn. Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri, Þórhallur Arason skrifstofustjóri og Jón Ragnar Blöndal deildarstjóri, Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn., Grétar J. Guðmundsson rekstrarstjóri og Sigurður Geirsson, forstöðumaður verðbréfadeildar hjá Húsnæðisstofnun, og frá Seðlabanka Íslands Eiríkur Guðnason bankastjóri.
    Útgáfa húsbréfa hefur verið mun meiri á þessu ári en gert var ráð fyrir. Líklegustu ástæðurnar eru taldar hagstæðir vextir og lítil afföll af bréfunum. Nú er svo komið að það fjármagn sem áætlað var til útgáfu húsbréfa í lánsfjárlögum fyrir árið 1994 er uppurið og hafa viðskipti með fasteignir nánast stöðvast af þessum sökum.
    Meiri hluta nefndarinnar er ljós nauðsyn þess að leyst verði úr þessum vanda sem fyrst. Þá gerir meiri hlutinn ekki athugasemdir við 1. gr. frv. um auknar lántökur ríkissjóðs. Meiri hlutinn mælir því með samþykkt frv.
    Undir þetta nefndarálit rita Rannveig Guðmundsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Ingi Björn Albertsson, Hjálmar Jónsson og Árni R. Árnason.