Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:20:56 (467)

[17:20]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Örfá orð. Það er ljóst að nafnvextir húsbréfa hækka um 0,1%. Það mun þýða greiðslubyrði upp á 700 kr. á ári fyrir hverja milljón sem bréfin hljóða upp á. 3.500 kr. fyrir 5 millj. kr. bréf á ári í aukna greiðslubyrði. Ávöxtunarkrafa ræðst auðvitað af væntingum, rykkir eru slæmir fyrir þetta kerfi, greiðslumat mun draga úr eftirspurn eftir bréfunum að mati Húsnæðisstofnunar. Ég tel ekki ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af því að ávöxtunarkrafan fari mikið upp. Það sem sagt hefur verið á undanförnum dögum er að ekki sé óeðlilegt að vextir á skammtímapappírum, þó einkum í lengri enda skammtímapappíranna, geti hækkað vegna þess að þeir eru miklu lægri hér á landi en erlendis. Það á ekki að hafa þýðingu fyrir langtímamarkaðinn né heldur fyrir bankavexti því að almennt er talið að bankavextir gætu lækkað á næstunni ef eitthvað er.
    Þessi umræða fór öll fram við 1. umr. þessa máls en þessu vildi ég koma fram hér þegar því er haldið fram að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar sé brostin og til þess að leggja mat á hvaða breytingar gætu átt sér stað í þessu kerfi á næstunni.