Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:20:09 (519)

[15:20]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta og sjálfsagt ekki síðasta sem mannaráðningamál útvarpsins koma til umfjöllunar á Alþingi. Aldrei hefur verið gerð sú krafa til Ríkisútvarpsins að það væri hlutlaus fjölmiðill heldur að Ríkisútvarpið gætti óhlutdrægni. Að halda því fram að það sé hægt að taka ákvörðun um að útrýma stjórnmálaumræðu úr ríkisfjölmiðlunum einhverjum mánuðum fyrir kosningar er út í hött. Það eru fjölmörg dagskráratriði í útvarpi, t.d. eins og beint útvarp, dægurmálaútvarp o.fl., þar sem haft er beint samband við kjósendur og vitaskuld láta kjósendur í ljósi skoðun sína og það oft ótæpilega í slíkum umræðuþáttum. Ætla menn að fella þá niður það sem eftir er til kosninga? Og alla aðra þætti þar sem vera kynni að einhver einstaklingur mundi grípa til þess ráðs að láta í ljósi skoðun sína á mönnum og málefnum? Ég sé ekki hvernig á að framkvæma það og ég sé heldur ekki að það sé æskilegt að sú stefna yrði framkvæmd að stjórnmál yrðu gerð útlæg úr ríkisfjölmiðlunum þó að kosningar séu í nánd.
    Þeir einstaklingar sem hér er aðallega talað um sem pistlahöfunda hafa rætt mjög tæpitungulaust um menn og málefni. Við alþýðuflokksmenn höfum ekki farið varhluta af þeirri umræðu. Hún hefur oft verið mjög persónuleg í okkar garð en það er hins vegar ekkert við því að segja. Menn hafa fullan rétt í þessu þjóðfélagi til að hafa sína skoðun, e.t.v. mættu menn stundum orða hana eilítið kurteislegar en þeir hafa gert en það verður að vera þeirra mál.
    Mér finnst það skjóta harla skökku við að það sé notað sem ástæða fyrir uppsögn pistlahöfundar að hann hafi brotið af sér einhvern tímann í vor og það sé talið líklegt að hann muni gera það aftur. Hafi viðkomandi aðili brotið af sér að áliti stjórnenda útvarpsins þá átti auðvitað að segja honum upp starfi eða endurráða hann ekki vegna þess afbrots. En að láta nægja að gefa einhverja áminningu og segja svo manninum upp nokkrum vikum síðar vegna þess að stjórnendur telji líklegt að hann muni brjóta af sér í annað sinn --- ef dómskerfi okkar Íslendinga mundi nú starfa þannig þá held ég að margar umræður yrðu hér á Alþingi okkar Íslendinga um þau málefni. Það er jafnfráleitt að láta sér detta það í hug að hafa þá starfsreglu að af því að Sigurður Sigurðarson sé grunaður um að hann muni e.t.v. brjóta af sér þá sé rétt að segja Jóni Jónssyni upp. Það er nú enn vitlausari regla ef hægt er að orða reglur í þessu sambandi. En ég ítreka að við búum í frjálsu þjóðfélagi þar sem hver og einn hefur rétt til að hafa skoðun. Íslenska Ríkisútvarpið getur ekki starfað eftir einhverjum öðrum leikreglum. Og það er gjörsamlega út í hött að halda að menn geti útrýmt stjórnmálaumræðu úr stærsta fjölmiðli þjóðarinnar þó svo kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna séu í vændum.