Ráðherraábyrgð

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 18:19:45 (554)

[18:19]
     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni að það er mjög óheppilegt í svona stóru máli að ræðutími sé jafnskammur og raun er á þannig að við þurfum að taka til máls oftar en ella ef við hefðum haft aðeins lengri tíma en þannig eru þingsköpin og ekki um það meira að segja.
    Varðandi umboðsmann Alþingis er það þannig að allshn. þingsins fær nú til athugunar öll álitamál frá umboðsmanni sem snerta meinbugi á lögum. Þeim er vísað af forsætisnefnd til allshn. þingsins sem fjallar um þau og hefur sent bréf til viðkomandi ráðuneyta og gert athuganir á þessum atriðum. Ég held að hvað þingið varðar fái þetta efnislega meðferð. Ritarar allshn. hafa sinnt þessum málum og gert nefndinni grein fyrir því í hverju álitaefnin eru fólgin og nefndin hefur síðan fjallað um það. M.a. mun hún gera það á fundi sínum á morgun út af erindum sem hafa borist. Ég held því að hér séu mál í þeim farvegi sem þau þurfa að vera. Við ræðum skýrslu umboðsmanns Alþingis árlega á þinginu og höfum tækifæri til að segja álit okkar á því sem þar hefur fram. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni að auðvitað á ekki að líta á það sem dóma heldur álit en getur orðið tilefni til ferkari aðgerða, samanber það sem gerðist í Danmörku þar sem Tamílamálið fór í þann farveg sem við vitum vegna álits frá umboðsmanni danska þingsins. Í Danmörku hafa þeir hins vegar sérstakt rannsóknardómarakerfi sem við höfum ekki og mál horfa ekki alveg eins við.
    Ég vil vitna í þá grein sem hv. þm. dreifði til okkar eftir hinn danska lögfræðing, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:
    ,,Þvert á móti má færa rök fyrir því að pólitísk ábyrgð ráðherra hafi aukist fremur sl. 10 ár en að dregið hafi úr henni. Myndun fastanefnda í þjóðþinginu í byrjun áttunda áratugarins og hið öfluga eftirlit með embættisfærslu ráðherra, sem þróað hefur verið í þessum nefndum, hefur ekki síst átt þátt í þessari aukningu. Hér við bætist mikilvægt eftirlit sem sjónvarp, útvarp og blöð beita með því að beina athyglinni að einstökum málum og mönnum, eftirlit og athygli sem a.m.k. hefur ekki dregið úr á síðustu árum. Þegar í nefndarálitinu um ráðherraábyrgð frá 1962 er bent á gildi þess að hafa þess konar eftirlit í huga ef ætlunin sé að meta hvernig pólitíska ábyrgðarkerfið virki í heild sinni.``
    Í þessari grein segir einmitt það sem snertir það sem hv. þm. var að ræða um. Getur það verið að þingnefndirnar sem slíkar geti gegnt veigameira hlutverki? Nú hef ég ekki setið á þingi nema á þessu kjörtímabili og veit því ekki hvernig þingið starfaði nákvæmlega áður af eigin reynslu þegar því var skipt í tvær deildir og nefndir störfuðu innan hvorrar deildar um sig. En ég fullyrði eftir setu í þremur þingnefndum á þessu kjörtímabili að þar hefur safnast fyrir mikil þekking og þar liggur núna fyrir meðal þeirra þingmanna sem þar hafa starfað mikil þekking á þeim málaflokkum sem teknir hafa verið til meðferðar. Ég held að sú skipan sem við höfum tekið upp með því að sameina þingið í eina málstofu og hafa nefndirnar, sem eru orðnar fastanefndir, muni leiða til þess sjálfkrafa sem hv. þm. var að velta fyrir sér. Hlutverk nefndanna til aðhalds á framkvæmdarvaldsins eykst.
    En í greininni sem hann lagði fyrir okkur og vill að við leggjum til grundvallar þegar við ræðum þetta mál segir m.a. að auki, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vandamálið hvað varðar pólitíska ábyrgð virðist ekki vera hvort ábyrgðin hafi minnkað heldur frekar hvort eftirlit þjóðþingsins með ráðherrum og ríkisstjórn er orðið það umfangsmikið að það gefi ástæðu til efasemda um hver sé rétt verkaskipting milli þjóðþings og ríkisstjórnar með tilliti til grundvallarréttarpólitískra sjónarmiða. Stjórnskipulega eru engin takmörk fyrir því hve mikið þjóðþingið getur skipt sér af stjórnsýslunni.``
    Þarna segir þessi danski lögfræðingur að eins og oft vill verða þegar menn fara inn á nýjar brautir ganga þeir kannski lengra en góðu hófi gegnir í fyrstu og finna svo hið eðlilega jafnvægi. Það virðist mega lesa úr þessu að það sé kannski ekki komið í Danmörku að mati þessa lögfræðings. En ég held að hér sé þróunin svipuð og verið hefur í Danmörku, að fastanefndir þingsins muni láta meira að sér kveða varðandi eftirlit með framkvæmdarvaldinu og það sé þegar komið fram, t.d. í yfirferð fastanefndanna yfir fjárlagatillögur og annað slíkt, og þar gefist tækifæri til þess að veita framkvæmdarvaldinu það eftirlit og það aðhald sem okkur ber.
    Varðandi það hvort setja eigi sérstaka stjórn yfir Ríkisendurskoðun sem taki að sér að meta mál held ég í fyrsta lagi að Ríkisendurskoðun þurfi að hafa frjálsar hendur, hún þarf að geta skipt sér af málum milliliðalaust og hlutast til um málefni því að hennar starf er eftirlitsstarf þar sem hún á að geta hlutast til um mál. En manni finnst, og ég tek undir það með hv. tillögumanni að Ríkisendurskoðun virki stundum eins og þvottavél. Það nægi að ýta á takkann til að hún fari í gang. Þar eins og annars staðar þurfa að vera ,,objektivar`` reglur um málsmeðferðina, það þarf að taka á málum með einhverjum ,,objektivum`` hætti, það þarf að gera grein fyrir því öðruvísi en í samtölum við fjölmiðla og það þarf að liggja fyrir eitthvert skjal um það hvers vegna Ríkisendurskoðun telur sér skylt að taka málið fyrir eða hvers vegna hún telur sér það ekki skylt. Hún á að hafa þetta mat. Ég held að það mat eigi ekki að vera í höndum þingnefndar, ég held að það eigi að ganga þannig frá málum innan Ríkisendurskoðunar að þar sé þekkingin fyrir hendi til þess að vega þetta og meta og menn eigi að hafa þar heimild til þess að leggja fram rökstudda niðurstöðu, bæði sem mælir með því að þeir taki mál að sér og einnig að þeir hafni máli og þeir geri það skriflega þannig að menn geti metið það en sé ekki hlaupið í fjölmiðla strax með slíkar yfirlýsingar.
    Þetta finnst mér eftir að hafa fylgst með þessum uppákomum, ef ég má orða það svo varðandi þá virðulegu stofnun sem Ríkisendurskoðun er. Mér finnst hún kannski missa svolítið af sínum virðuleika ef ekki er gætt skipulegri starfsreglna varðandi upptöku mála innan þeirrar stofnunar.
    Hin siðferðilega ábyrgð. Við erum hér að tala um það sem við köllum siðferðilega ábyrgð en er það ekki í raun og veru það sem menn kalla pólitíska ábyrgð. Það er hin pólitíska ábyrgð. Við erum ekki hér sem einhverjir siðgæðisverðir í þess orðs merkingu. Við erum hér sem stjórnmálamenn og við eigum að taka á málum frá pólitískum sjónarhóli og eigum að geta varið þau frá pólitískum sjónarhóli um leið og við krefjumst þess að farið sé eftir þeim lögum sem við erum að setja og eigum að geta veitt aðhald til þess að það sé gert.
    Ég held, herra forseti, að fámennið í salnum sýni því miður að áhugi þingmanna á þessu máli er kannski ekki eins mikill og efni standa til því að hér er verið að fjalla um þau mál sem eru hvað viðkvæmust í hinu pólitíska starfi okkar og nauðsynlegt að við stöndum þannig að því að við verðum ekki sökuð um það að gæta ekki laga og réttar á þessu sviði og þeirra reglna sem hæfilegar eru.