Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 15:43:51 (593)

[15:43]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vegna ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundar Bjarnasonar, þakka honum fyrir þá athugasemd eða ábendingu sem kom fram hjá honum um beiðni um auknar fjárheimildir til Sólheima í Grímsnesi upp á tæpar 7 millj. kr. Þessi beiðni kom mjög mikið á óvart í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram í fjárln. og hér í hliðarsölum þingsins fyrir afgreiðslu fjárlaga þessa árs og ég sakna þess satt að segja að sjá ekki hér hv. 12. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrv. félmrh., sem barðist af öllu afli gegn því að Sólheimar í Grímsnesi fengju viðbótarfjárveitingu.
    Meiri hluti fjárln. tók upp brtt. við fjárlagafrv. og hækkaði fjárveitingu til Sólheima í Grímsnesi í fullkominni andstöðu við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og það hefði verið fróðlegt í þessari umræðu að fá hv. þm. til að gera grein fyrir afstöðu sinni núna þegar það liggur fyrir í þessu fjáraukalagafrv. að Ríkisendurskoðun hefur komist að þeirri niðurstöðu að félmrn. hafi haft rangt fyrir sér svo að nemi þessari upphæð, 7 millj., sem gerð er tillaga um að hækka framlag til Sólheima í Grímsnesi. Þetta er mjög merkilegt og rifjar upp þær athyglisverðu umræður sem fóru fram um Sólheima í Grímsnesi að undirlagi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sl. haust og sakna ég sárlega að hafa hana ekki, virðulegan þm., hér í þingsölum við þessa umræðu.