Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 15:56:48 (595)

[15:56]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt atriði sem kom fram hjá hv. þm. sem ég vildi gjarnan nota tækifærið til þess að svara örlítið og það varðar sjúkrahús Vestmannaeyja. Það er rétt að hæstaréttardómur hefur fallið. Það ber að taka það fram að frá árunum fyrir 1990 var rekstur sjúkrahússins á ábyrgð bæjarfélagsins. Hæstaréttardómurinn er felldur aðeins á sjúkrahúsið sem slíkt. Ég veit ekki betur en það sé búið að borga frá 1990 eða frá þeim tíma sem ríkið tók yfir. ( KÁ: Ekki eyri.) Þá er a.m.k. verið að ganga frá því þessa dagana og ríkið hefur ekki mótmælt því að þurfa að greiða þá upphæð sem komið hefur til álita eftir að ríkið tók sjúkrahúsið yfir og ber ábyrgð á rekstrinum en telur hins vegar að frá því að bærinn sá um reksturinn sé eðlilegt að bærinn beri ábyrgð á greiðslunum eða þá a.m.k. ásamt ríkinu. Viðræður hafa farið fram um það mál á milli aðila en niðurstaða ekki fengist. Ég veit ekki betur, og það er nú aðalatriði málsins af því að það kom fram í máli hv. þm. að engin greiðsla hefði borist, en þessa dagana sé verið að ganga frá slíkri greiðslu sem snertir tímabilið frá 1990. Ég hélt satt að segja að þessi upphæð í fjáraukalögunum væri einmitt greiðsluheimild til þess að greiða a.m.k. þann hluta skuldarinnar vegna dómsins sem Hæstiréttur felldi.