Héraðsskólinn að Núpi

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 10:45:19 (604)

[10:45]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég hafði raunar búist við að þetta mál yrði á dagskrá síðar í dag. Þetta er till. til þál. um málefni Héraðsskólans á Núpi. Á sínum tíma var skipuð nefnd til að gera tillögur um málefni Héraðsskólans í Reykjanesi. Sú nefnd lauk störfum og skilaði sínum tillögum til menntmrh. Síðan er alllangt og hefur ekkert verið gert með þessar tillögur. Það er ástæðan fyrir því að ég er ekki meðflm. á þessari þáltill. að ég sé út af fyrir sig ekki tilgang með því að vera að skipa nefndir, skila tillögum og síðan er ekkert gert með málið. Eins og kemur fram í greinargerð þá hefur ekki verið stundað nám við Héraðsskólann á Núpi síðan 1992, og reyndar blandast inn í Héraðsskólinn í Reykjanesi en þar var lögð niður kennsla 1991. Þarna eru miklar byggingar og að mörgu leyti góðar og vandaðar sem liggja undir stórskemmdum vegna skorts á viðhaldi og notin fyrir þær eru afskaplega takmörkuð. Það er reyndar saga héraðsskólanna allra að það hafa orðið geysilega miklar breytingar á afstöðu fólks og breytingar á menntakerfi og það má kannski rekja þetta aftur til breytinga á grunnskólalögum 1974. Frá þeim tíma fer vegur héraðskólanna hnignandi sem kannski er eðlilegur hlutur vegna þess að nám í heimabyggð með stofnun heildstæðs grunnskóla verður staðreynd.
    Það eru ekki not fyrir þessa héraðsskóla í núverandi mynd eins og málið stendur núna og á fyrirspurn sem Jóna Valgerður Kristjánsdóttir bar fram á síðasta þingi kemur fram að þrír héraðsskólar störfuðu á landinu í fyrravetur og svipað ástand mun vera núna. Þetta er mikill munur á eða var fyrir 20 árum eða svo þar sem samanlagður nemendafjöldi þessara skóla er rétt innan við 250. Þetta er mikill munur eða var fyrir 20 árum eða svo þegar nemendafjöldi í héraðsskólum skipti mörgum hundruðum og var í hverjum þeirra yfirleitt á annað hundrað nemendur og mikið og blómlegt starf í skólunum. Það sem hefur gerst síðan er að grunnskólanám hefur færst að verulegu leyti í heimabyggðir í smærri kauptún og þorp en áður var og starfsgrundvöllur héraðsskólanna er því allt annar og nánast horfinn.
    En mér finnst vera aðalatriðið í þessu máli að þarna á ríkið miklar og dýrar húseignir sem það notar ekki og fæst kannski ekki svo auðveldlega til annarra nota fyrir utan að þær hafa verið notaðar til hótelreksturs sl. sumar að Núpi og lengur á Reykjanesi. Þetta er afskaplega góð starfsemi en dugar engan veginn til að hægt sé að halda þessum húseignum við. Eins og gat um áðan þá liggja þær undir skemmdum.
    Eðlilegast væri þar sem svo virðist sem ríkið finni engan starfsgrundvöll fyrir þessar eignir sínar, finni enga starfsemi sem hentar að hafa þarna þá held ég að það væri heiðarlegast af ríkinu að afhenda þessar eignir þeim sem þarna búa.
    Ísafjarðarkaupstaður á lönd undir Héraðsskólanum í Reykjanesi og hann á raunar forkaupsrétt að þeim byggingum og mannvirkjum sem þar standa. Eðlilegt væri kannski að ríkissjóður afhenti Ísafjarðarkaupstað Héraðsskólann í Reykjanesi til afnota og án kvaða til þess reksturs sem þeir fyndu grundvöll fyrir þar. Líkast til væri það héraðsnefnd Ísafjarðarsýslu sem væri réttur aðili til að taka við Héraðsskólanum á Núpi.
    Vandamálið við þetta er hins vegar það að eins og ég gat um áðan þá skortir stórlega á viðhald á þessum húsum svo það er í rauninni ekki á nokkurs færi, hvorki Ísafjarðarkaupstaðar né héraðsnefndar, að taka við þessum byggingum eins og þær eru núna með þeim geysilegu þörfum sem fyrirsjáanlegar eru í eðlilegu viðhaldi til að koma þeim í það ástand sem vert er.
    En ég held að þessi hugmynd sé allrar athygli verð og henni er hér með komið á framfæri við þá sem þar um ráða.