Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:50:53 (640)

[13:50]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Íslensk bændastétt er löngu hætt að kippa sér upp við einhliða áróður af því tagi sem birtist í sjónvarpinu á dögunum. Landbúnaðurinn hefur við þessum áróðri farið að eins og hermaðurinn ungi sem kvartaði undan því við móður sína að sverðið væri of stutt í stríðinu. Móðirin svaraði: Gakktu feti framar. Landbúnaðurinn lætur vondan áróður sem vind um eyrun þjóta í dag, en vinnur þeim mun betur sína heimavinnu. Bændur hafa verið að hagræða og lækka verð til neytenda. Þeir hafa í gegnum afurðastöðvar í mjólk og kjöti og frábært iðnaðarfólk sett okkar vörur í fremstu röð í heiminum. Markmiðið er heilbrigðir framleiðsluhættir, hollar afurðir. Heimurinn er nefnilega að rísa gegn vondum og óhollum afurðum. Því eiga nú íslenskir bændur sóknarfæri á sérmörkuðum þar sem neytandinn borgar hærra verð fyrir hreinar vörur.
    Það er ljóst að bændur eru að hagræða og munu hagræða og neytendur sjá lægra verð en áður var. Þetta er fagnaðarefni og þessa vinnu verður að vinna. Hitt er svo önnur saga eins og hér hefur komið fram að það er hafin hrina fyrir því að berja Ísland inn í EB. Hagfræðistofnun háskólans gengur þar í broddi fylkingar. Alþfl., ungir sjálfstæðismenn, Neytendasamtökin og ríkissjónvarpið með Ingimar Ingimarsson staddan í fyrirheitna landinu með fréttaþætti.
    Ríkisstjórnin fól Hagfræðistofnun háskólans að vinna skýrslu um hver áhrif inngöngu í EB væru. Það er furðuleg skýrsla. Þar kemur t.d. fram um niðurstöðu á eggjaverði. Þar segir að eggjaverð muni lækka um 40%. Það þýðir að neysla á Íslandi muni aukast um 3.385% eða færast úr 10 kg á mann yfir í 400 kg á ári. Hv. þm. Egill Jónsson yrði að spæna í sig 20 kg á dag.

    ( Forseti (SalÞ) : Tíminn er búinn.)
    Ég held að menn verði að átta sig á því, hæstv. forseti, að það er skaði að þjóðin skuli sitja uppi með háskólastofnun sem leyfir prófessorum að vinna með þessum hætti. Þvílík vísindi. Þvílíkt jarðsamband. Þvílíkir ofvitar sem þar starfa.
    ( Forseti (SalÞ) : Tíminn er búinn, hv. þm.)
    Þvílíkt átak, hæstv. forseti, fyrir aðra æðstu stofnun þessarar þjóðar.
    ( Forseti (SalÞ) : Tíminn er löngu búinn.)
    Þess vegna stöndum við með íslenskum landbúnaði. Landbúnaðurinn og neytendur eiga samleið í dag og vinna saman að sameiginlegum markmiðum.