Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 21:45:47 (662)

[21:45]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Fátæktin er fastagestur á þúsundum heimila um þessar mundir. Samt töluðu ráðherrarnir af þvílíkum hroka og þvílíkri sjálfumgleði hér áðan og þvílíkri lítilsvirðingu fyrir þessum fjölskyldum að aldrei hefur heyrst annað eins. Aldrei heyrst annað eins. Nauðungaruppboð hafa aldrei verið fleiri en núna. Atvinnuleysi aldrei verið meira. Spilling í stjórnarfari aldrei hrikalegri en nú þar sem fréttir berast mánaðarlega a.m.k. um spillingu í embættisfærslu og í meðferð fjármuna. Þessi ríkisstjórn hefði auðvitað fyrir löngu átt að vera búin að segja af sér. Það viðurkenndi Davíð Oddsson í raun og veru sl. sumar er hann hugðist efna til kosninga í haust á þessu ári.
    Það eru hinar almennu stjórnmálaforsendur sem ráða úrslitum, fyrir utan allt annað sem hefur verið nefnt hér í kvöld. Það er það hvernig þessi ríkisstjórn hefur með stefnu sinni fært framtíðina í fjötra, framtíð íslensku þjóðarinnar í fjötra. Í fyrsta lagi með því að skuldir ríkissjóðs hafa vaxið um 40 milljarða kr. í hennar tíð og verða í lok þessa kjörtímabils, ef svo heldur fram sem horfir, 160--170 milljarðar kr. Þrátt fyrir allan bægslaganginn, svokallaðan niðurskurð á sumum sviðum, hefur komið í ljós að það er aukning á kostnaði ríkisins, t.d. að því er varðar kaup á lyfjum. En hið alvarlegasta er þó kannski það að þessi ríkisstjórn hefur skorið niður framlög til menntamála um 2,1 milljarð frá árinu 1991 til ársins 1995. Það er hætt við að þessi hrikalegi niðurskurður komi niður á lífskjörum á Íslandi á komandi árum af því að menntamál eru undirstaða efnahagsmála í landinu sem jafnvel forstjóri Vinnuveitendasambandsins er farinn að skilja. Þessi veruleiki blasir við.
    Háskóli Íslands er nú kominn á það stig að það er talið vafasamt að erlendir háskólar geti tekið við okkar stúdentum. Ríkisstjórn sem þannig fórnar framtíðinni og eykur skuldir ríkissjóðs og sker niður skólakerfið á að víkja þannig að unnt verði að kjósa um ný fjárlög og nýja framtíð strax í haust eins og Davíð Oddsson vildi reyndar gera fyrir nokkrum mánuðum.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. forsrh.)
    Hæstv. forsrh. vildi gera fyrir nokkrum mánuðum. --- Þessa athugasemd forseta kann ég ekki að meta en mun ræða það við annað tækifæri. --- Ráðherrarnir þora ekki að horfast í augu við veruleikann af því að einstakir þingmenn eru með klígjuna í hálsinum af tilhugsuninni einni um að styðja ýmsa ráðherra. Allir þekkja viðhorf hv. þm. Egils og Eggerts. Allir vita að forsrh. hæstv. sjálfur vantreystir hæstv. utanrrh. Ríkisstjórnin hæstv. er öll maðketin að innan af vantrausti hvers ráðherra á öðrum.
    Sú frávísunartillaga sem hér hefur verið flutt af hæstv. forsrh. er fráleit. Hún er í fyrsta lagi, hæstv. forseti, alvarlegt vantraust á forseta Alþingis, till. um vantraust á forseta Alþingis, sem hafði metið vantrauststillöguna gilda. Þessi tillaga er tillaga um vantraust á forsn., sem hafði engar athugasemdir gert við vantrauststillöguna.
    Ég tel, hæstv. forseti, að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að vísa þessari tillögu frá sé til marks um þá hrikalega veiku stöðu sem núv. ríkisstjórn stendur frammi fyrir. Það er ekkert sem sameinar þessa ríkisstjórn nema eitt. Það er óttinn, það er óttinn, og svo þessi tillaga sem hér liggur fyrir, þessi litla tillaga. En það verður lítið skjól í henni á þeim kosningavetri sem fram undan er, þessu fíkjublaði sem hæstv. forsrh. fleygði inn á borð þingmanna núna áðan.