Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 15:32:36 (697)

[15:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örfá atriði. Í fyrsta lagi þá er mjög eðlileg skýring á því þótt fram komi að greiðsluheimildir í fjáraukalögum séu það rúmar að þær séu ekki allar nýttar á yfirstandandi ári. Það er ekkert athugavert við það að stofnanir fái greiðsluheimildir í fárlögum eða fjáraukalögunum en nýti ekki allar heimildir. Það er síðan leiðrétt í síðustu fjáraukalögunum sem koma eftir jólin eins og hv. þm. veit og þess vegna er varhugavert að draga þá ályktun af fjáraukalagafrv. sem sumir hafa gert hér á árum áður að leggja heimildirnar saman og segja síðan: Þetta er hallinn. Hann kemur ekki í ljós fyrr en endanlega er gert upp.
    Í öðru lagi eru vaxtatekjurnar meiri í ár en gert var ráð fyrir vegna þess að innheimta opinberra gjalda hefur gengið betur og að hluta til eru það dráttarvextir. Þó er munurinn ekki meiri en svo að við erum með vaxtatekjur liðlega það sem var í fyrra. En við höfum gert ráð fyrir að þær yrðu heldur minni í ár vegna þess að vextir hafa lækkað.
    Í þriðja lagi var spurst fyrir um það sem kemur fram á bls. 28 og 36. Það er rétt til getið hjá hv. þm. að 215 millj. eftirstöðvar í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins renna til Hafrannsóknastofnunar og koma nánast í staðinn fyrir það gjald sem stofnunin hafði áður en gengur nú til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins eins og kom fram í lögum sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi. Ég vona að þessar athugasemdir mínar, sem ég nota hér tækifærið í andsvari að koma til skila, skýri a.m.k. eða komi sem svör við fyrirspurnum hv. þm.