Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:32:38 (733)


[18:32]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mitt andsvar er af öðrum toga. Þingmaðurinn fór nokkuð mikinn hér í upphafi ræðu sinnar með gagnrýni á forsetadæmið og gagnrýni á Alþfl., forustu hans, og fyrir að standa ekki við gefin fyrirheit. Það er vissulega rétt að ég lýsti því yfir að ég mundi gera mitt til þess að ráðherrar Alþfl. væru viðstaddir umræður um efnahagsmál. Við ræddum það hér á fundi, hv. þm., í umræðunni um fjárlög. Vissulega er mikil ástæða til þess. En ég vil að það komi fram hér vegna þessara hörðu ummæla að það er ekki gengið frá því fyrir fram og það veit þingmaðurinn við þingflokksformenn hvaða mál fara á dagskrá eða hver verði viðstaddur. Það er staðreynd. Hins vegar hefur félmrh. verið viðstaddur umræðuna í dag og ég er næsta viss um að hefði það ekki verið þá hefði verið talið mikilvægast að hann mætti hér.
    Hins vegar vil ég líka geta þess að í upphafi hverrar viku er sett fram vikudagskrá í þinginu. Staðreyndin er sú að hún breytist mjög oft vegna þess að þetta þing okkar er þannig að það er ekki hægt að vera með áætlanagerð. Við vitum aldrei hvenær umræðu lýkur, ekki einu sinni þó það sé kvöldfundur, hvort við ljúkum málinu sem er á dagskrá og það er það sem er öðruvísi hjá okkur en í öðrum þjóðþingum. Ég ætla ekkert að afsaka að það sé ekki hægt að afstýra ferð ráðherra þannig að þeir geti verið við umræðu en ég vil bara benda á að það er erfitt að gera áætlanir fram í tímann. Næsta þriðjudag verður e.t.v. fyrirhugað að setja mikilvæg mál á dagskrá og við vitum ekkert hvort þessari umræðu verði lokið og vegna þess sem hefur verið fyrirhugað í þessari viku að jafnvel yrði að vera framhald á umræðu um efnahagsmál næsta þriðjudag. Þannig er þetta hjá okkur.