Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 20:30:32 (743)


[20:30]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér stendur nú yfir það sem við getum kallað annan hluta umræðunnar um ríkisfjármálin. Hér hefur farið fram 1. umr. um fjárlögin sem nú eru til meðferðar hjá fjárln. þingsins. Hér liggur lánsfjárlagafrv. fyrir og er rétt hafin umræða um það, en við eigum enn þá eftir að sjá það sem við getum kallað þriðja og fjórða hluta ríkisfjármálanna, þ.e. það sem snertir tekjuhliðina, og svo loksins það frv. sem gengið hefur undir nafninu ,,ráðstafanir í ríkisfjármálum`` eða ,,bandormurinn`` sem heldur hefur ekki litið dagsins ljós, enda erum við orðin vön því á þessu kjörtímabili að það frv. komi ekki fyrr en rétt undir jólin. En það má ljóst vera að fram undan eru bæði breytingar á skattalögunum og einnig ýmsar ráðstafanir sem hafa verið boðaðar og eru boðaðar í fjárlagafrv. og má nefna sem dæmi nýjan skatt á sjúklinga, gjöld á sjúklinga. Það er fyrirhugað að framlengja lagabreytingar sem gerðar voru á grunnskólalögunum og ollu miklum deilum á sínum tíma og varða fjölda nemenda í bekkjum. Og ekki kæmi mér á óvart þó að inn í bandorminn kæmi lagagrein sem snertir Háskóla Íslands þar sem honum verði veitt heimild til að takmarka nemendafjölda þó að háskólinn hafi reyndar alls ekki beðið um það þannig að það á margt eftir að koma fram sem skýrir myndina af ríkisfjármálunum.
    Sannleikurinn er sá að það er hvorki hægt að átta sig á fjárlögunum né lánsfjárlögunum fyrr en allt þetta er komið fram og myndin tekur á sig einhverja heild. Og þar kem ég einmitt að því máli sem hér er til umræðu í dag. Umræðan það sem af er hefur snúist að miklu leyti um vaxtamál og það er ekki að furða því að það er ýmislegt sem bendir til þess að það sé vaxandi þrýstingur á lánamarkaðnum, þrýstingur í þá veru að hækka vexti. Síðast núna í kvöld var viðtal á Stöð 2 við einn af fjármálasérfræðingum þjóðarinnar, Gunnar Helga Hálfdánarson, þar sem hann sagði að það væri greinilegt að það væru væntingar um vaxtahækkanir á markaðnum. Það er spenna sem m.a. kom fram í því í dag að Landsbankinn hækkaði vexti um hálft prósent. Og einmitt þessi spenna vekur þá spurningu hvernig vaxtaþróunin muni verða. Steingrímur Hermannsson, bankastjóri Seðlabankans, sem hér hefur nokkuð komið við umræðuna í dag, hefur lýst því yfir að það sé nokkur hætta á vaxtahækkun. Hann hefur líka lýst áhyggjum sínum yfir því að skuldastaða heimilanna sé orðin með þeim hætti að það geti valdið bankakreppu líkt og gerðist á Norðurlöndunum. Þetta kallar hæstv. forsrh. ,,efnahagslegt munnangur`` eins og hann sagði hér í dag og vill meina að menn séu að tala ógætilega. Það er auðvitað staðreynd að það er hægt að hafa áhrif á markaðinn með ýmiss konar spádómum og með ógætilegum orðum en ég hygg þó að Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsrh. og núv. seðlabankastjóri, viti um hvað hann er að tala.
    Því er ein meginspurningin sem við stöndum frammi fyrir í þessum lánsfjárlögum sú, hvort ríkisstjórninni tekst að halda vöxtum í skefjum, hvort hún þarf að beita til þess tiltækum ráðum, þ.e. einhvers konar handafli eða hvernig markaðurinn muni haga sér. Þar er ekki annað hægt en benda á það sem kemur fram í fjárlögunum að sú breyting sem verður á fjármagnsmarkaði hér um áramót þegar frelsið í fjármagnsflutningi mun aukast --- það er auðvitað ástæða til að ætla að það geti orðið til þess að auka þennan þrýsting enn þá meira á vaxtahækkanir í bankakerfinu og á lánsfjármarkaði. Þannig að allt er þetta nú heldur óljóst en í sjálfu sér mjög skiljanlegt að ríkisstjórnin og ráðherrarnir skuli hamra mjög á því að þeirra stefna muni standast og auðvitað er það skylda þeirra að reyna að halda vöxtunum í böndum.
    En það sem ekki síður mun ráða því hvort þau lánsfjárlög sem hér liggja fyrir standast eru þær forsendur sem ríkisstjórnin hefur gefið sér fyrir ríkisfjármálunum og fyrir útkomu ríkissjóðs. Við röktum það hér í umræðum um fjárlög að við stjórnarandstæðingar teljum að forsendurnar séu að mörgu leyti mjög veikar. Ég held að við verðum að skoða þessar forsendur til að átta okkur á þessum lánsfjárlögum, skoða það hversu vel þær standast og reyna að átta okkur á því hvort útgjaldahlið fjárlaganna stenst annars vegar og tekjuhliðin hins vegar.
    Reynsla undanfarinna ára gefur ekki til kynna að það muni takast að halda fjárlagahallanum í skefjum. Ár eftir ár hafa fjárlögin verið afgreidd með halla og síðan fáum við hér til afgreiðslu aukafjárlög sem sýna það að hallinn er orðinn enn þá meiri. Það verður þó að segjast eins og er og viðurkenna það að hallinn jókst ekki eins mikið á þessu ári og við áttum von á í ljósi þess sem gerðist á árinu 1993 þegar hallinn fór upp úr öllum veðrum. Þess vegna gætum við vænst þess að hallinn aukist eitthvað, en vonandi ekki mjög mikið. En það er svo margt sem getur haft áhrif á hallann og því meiri halli, því meiri lánsfjárþörf hjá ríkinu.
    Við erum nýbúin að afgreiða hér aukalánsfjárlög þar sem verið var að mæta auknum halla og þurfti að fá rúmlega milljarð kr. að láni vegna þess hve útgjöldin fóru mikið fram úr áætlun. Því er spáð að útgjöldin fari tæplega 4 milljarða fram úr áætlun á þessu ári en þar á móti komu líka auknar tekjur þannig að aukafjárlögin eða það sem þurfti að fá til viðbótar er rúmlega milljarður kr. Eins og ég nefndi er engin ástæða til að halda það að ríkisstjórninni takist að halda betur um fjármál næsta árs. Vonandi tekur ný ríkisstjórn við. Það verða kosningar snemma árs og ný ríkisstjórn tekur við þannig að það er ómögulegt að segja svo sem hvaða áhrif það hefur, en vonandi tekst að halda fjármálunum í böndum. En það sem auðvitað gefur manni litlar vonir um það eru öll þessi sparnaðaráform sem sett eru í lög ár eftir ár og við stöndum sífellt frammi fyrir að takast ekki. Þar eru sparnaðaráformin í heilbrigðiskerfinu nærtækust, þar sem

nú er m.a. verið að biðja um 800 millj. kr. til viðbótar vegna þess að ekki tókst að spara eins og áætlað var í heilbrigðismálum. Og hvers vegna skyldu menn núna ná einhverjum slíkum sparnaði eða sértekjum eða aukatekjum sem ekki hefur tekist á fyrri árum?
    Aðeins til þess að fara yfir það hvað getur haft áhrif á lánsfjárþörf ríkisins og raskað stöðunni í ríkisfjármálum, þá er stóra spurningin sú hvernig tekjuöflun þjóðarinnar verður háttað og hvernig veiðar munu þróast hér við landið. Það verður að segjast eins og er að þróunin er mikið áhyggjuefni. Það er ekkert sem bendir til þess að það verði ekki enn eitt árið að skera niður veiðiheimildir hér við landið. Ég vil nefna það í því sambandi að í síðustu viku hitti ég útgerðarmenn úti í Vestmannaeyjum og mér kom það á óvart hvað þeir voru gríðarlega áhyggjufullir, áhyggjufullir yfir því hvað lítið veiðist innan landhelginnar sem segir okkur það að úthafsveiðarnar, hvort sem við erum að tala um veiðarnar í Smugunni eða Flæmska hattinum, hafa bjargað gríðarlega miklu þótt umdeildar séu. Og þá kemur sú spurning: Munu þær halda áfram? Hvaða áhrif hefur það á efnahagslífið ef veiðar í íslenskri landhelgi dragast enn saman og úthafsveiðarnar minnka eða jafnvel bregðast? Þar með eru þessar forsendur að miklu leyti úr sögunni. En við skulum vona það besta og vona að okkur takist að semja við Norðmenn og að úthafsveiðar verði með þeim hætti að ekki verði gengið á fiskstofnana þar en við erum auðvitað sjálf illa sek í því hvernig við höfum umgengist okkar auðlindir í kringum landið.
    Annað atriði sem getur raskað öllum þessum forsendum er komandi kjarasamningar. Það er margítrekað í fjárlagafrv. að kjarasamningar verði að vera hófsamir og það segir t.d. á bls. 239 í fjárlagafrv. þar sem verið er að tala um markmið fjárlaganna og markmið ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Það er því afar mikilvægt að niðurstaða komandi kjarasamninga samrýmist því jafnvægi sem náðst hefur í efnahagsmálum að undanförnu.``
    Kjarasamningarnir koma víða við sögu í fjárlagafrv., vonir um að þeir verði hófsamlegir, en ég veit ekki hvaða ástæðu menn hafa svo sem til þess að halda að kjarasamningar verði það og það verði ekki samið um einhverjar verulegar kjarabætur. Ég fæ ekki betur séð en það sé allverulegur þrýstingur á vinnumarkaðinum og mín tilfinning er sú eftir að hafa talað við fólk, ekki bara á Reykjavíkursvæðinu heldur líka úti á landi, að heimilin séu einfaldlega að þrotum komin. Fólk er búið að tæma alla sína sjóði og nú er krafan sú að launin verði hækkuð þannig að það er auðvitað spurningin hvort sú forsenda sem menn gefa sér í ríkisfjármálunum að kjarasamningar verði hófsamir standist.
    Ef kjarasamningar takast og laun hækka eitthvað og ef efnahagsbatinn, sem ríkisstjórnin boðar, skilar sér þá vaknar spurningin hvaða áhrif það hefur á einkaneyslu og þar af leiðandi aukinn innflutning til landsins og hvernig það hefur áhrif á viðskiptajöfnuðinn. Allt hefur þetta áhrif á skuldastöðu landsins og erlendar lántökur.
    Þá er það þessi stóra spurning um skuldir heimilanna sem gerð er grein fyrir í lánsfjárlagafrv. Það er gríðarlegt áhyggjuefni hve skuldir heimilanna hafa aukist mikið á undanförnum árum. Við ræddum í vor skýrslu um skuldir heimilanna og ég minnist þess að mér þótti afar athyglisverð sú staðreynd hve skuldirnar vega þungt á láglaunaheimilum. Þær vega afar þungt á láglaunaheimilum og þegar fólk hefur lítil laun og er skuldugt þá leiðir það auðvitað til vanskila sem aftur færir okkur að vanskilunum í húsbréfakerfinu sem eins og við vitum hafa aukist alveg gríðarlega og valda miklum áhyggjum þar sem u.þ.b. fjórða hvert skuldabréf er í fjögurra mánaða vanskilum.
    Ég minni aftur á það sem ég var að vitna í Steingrím Hermannsson bankastjóra Seðlabankans þar sem hann var að velta því fyrir sér hvort þessi gríðarlega skuldastaða heimilanna geti leitt til bankakreppu líkt og gerðist á Norðurlöndunum. Nú þekki ég ekki þá þróun sem þar átti sér stað nægilega til þess að meta það en þessar gríðarlegu skuldir vekja ugg og eins og hér segir í grg. með frv. til lánsfjárlaga, með leyfi forseta:
    ,,Ef litið er á heildarskuldir heimilanna lætur nærri að hver fjögurra manna fjölskylda hafi skuldað um 4,3 millj. kr. í lok júní 1994. Til samanburðar var þessi fjárhæð um 3 millj. kr. í árslok 1990 á sama verðlagi.``
    Þetta er auðvitað mikil aukning á skuldunum og hefur áhrif á lánsfjármarkaðinn þegar mikil eftirspurn er eftir lánum til einkaneyslu eða til húsnæðiskaupa. Þessi þróun hefur áhrif á það hvort lánsfjárfrumvarpið stenst.
    Þróunin í húsbréfakerfinu mun líka hafa mikil áhrif og það vaknar sú spurning hvort sú áætlun sem gert er ráð fyrir í frv. upp á að húsbréfakerfið láni andvirði 13 milljarða kr. stenst. Þetta ár fór nokkuð fram úr áætlunum, um 2 milljarða kr., og ef efnahagsástandið er virkilega að batna og vonandi þar með hagur heimilanna þá er spurning hvaða áhrif það hefur í húsbréfakerfinu. Verður þá ekki aukin eftirspurn eftir húsbréfum?
    Svo ég nefni nokkra þætti sem hafa áhrif á efnahagslífið er það t.d. verð á útflutningsvörum, hvernig það mun þróast. Mun það hækka eða lækka? Útgjöldin í heilbrigðiskerfinu hafa náttúrlega alveg gríðarleg áhrif á stöðu ríkissjóðs og þar með hallann. Atvinnuleysið --- tekst að halda því í böndum, verður það um 4,8% á ársgrundvelli eins og Þjóðhagsstofnun spáir eða verður það meira eða minna? Allt þetta hefur mikil áhrif.
    Staða fyrirtækjanna í landinu hefur líka sín áhrif og hún er auðvitað gríðarlega mismunandi. Þó að skatttekjur ríkissjóðs bendi til þess að fjöldi fyrirtækja hafi bætt sinn hag þá er það staðreynd að fyrirtækin hafa verið að taka til hjá sér og þau hafa verið að sameinast, þau hafa verið að reyna að bæta stöðu sína en þar kemur á móti að fjárfesting er sáralítil. Fjárfesting til vaxtar og til nýjunga, til atvinnusköpunar er sáralítil. Einnig í sumum hlutum landsins, ég nefni Vestfirði sérstaklega sem dæmi, þar vitum við að staða margra fyrirtækja er afar slæm og verði meiri samdráttur í afla þá hefur það mikil áhrif á tekjur fyrirtækjanna, hugsanlega gjaldþrot, hugsanlega tap á fjármunum o.s.frv.
    Þá má nefna erlendar skuldir. Það kemur fram í fjárlagafrv. og í lánsfjárlögunum að það er heldur verið að greiða niður skuldirnar en þær eru samt sem áður verulega miklar og menn hafa bent á það hér, m.a. formaður Alþfl., hve erlendar skuldir þjóðarinnar séu miklar og greiðslubyrðin þung. Það þarf ekki mikið að gerast í efnahagslífinu til þess að við þurfum að leita í auknum mæli eftir erlendum lánum og þar með auknum skuldum.
    Síðast en ekki síst þá hefur tekjuöflun ríkisins, hin almenna tekjuöflun, skattar og gjöld af ýmsu tagi mikil áhrif á útkomuna úr öllu dæminu. Þannig að það eru mörg atriði sem eru óljós í þessu dæmi öllu saman og það þarf ekki mikið út af að bregða til þess að þessi áætlun hrynji og lánsfjáreftirspurnin aukist verulega af hálfu ríkisins.
    Ég ætla þá að víkja að sjálfu frv. Þar er fyrst að nefna að sú heildarupphæð sem þetta frv. er upp á er töluvert lægri en á árinu 1994 sem sýnir að lánsfjárþörfin hefur minnkað. Á árinu 1994 voru lánsfjárlögin upp á 27 milljarða 750 millj. kr. Síðan kemur þar til viðbótar það sem við vorum að samþykkja eða er til meðferðar í þinginu en áætlun næsta árs, 1995, gerir ráð fyrir lántöku upp á 21 milljarð 250 millj. kr. Þetta er auðvitað töluverð minnkun.
    Ef litið er á einstaka liði þá kemur röðin fyrst að Lánasjóði ísl. námsmanna og þar er þessi sérkennilega pólitík á ferð hjá ríkinu að fyrst er skorið niður ríkisframlagið til sjóðsins um 50 millj. kr. en síðan er sjóðnum vísað út á lánamarkaðinn þar sem honum er ætlað að taka að láni 4 milljarða og 30 millj. kr. á árinu 1995. Er það um 390 millj. kr. hærri fjárhæð en á yfirstandandi ári segir í frv., með leyfi forseta. Þannig að það er verið að vísa sjóðnum í æ ríkara mæli út á lánamarkaðinn sem þýðir það að stærra og stærra hlutfall af því fé sem fer í gegnum hann fer til afborgana af lánum og fer í það að borga vexti. Ég hef oft gagnrýnt þessa pólitík ríkisins og tel þetta ekki skynsamlegt.
    Það er að finna eins konar hótun í fjárlagafrv. að standist ekki þessar áætlanir þá þurfi hugsanlega að breyta útlánareglum sjóðsins og þeim lánskjörum sem hann býður upp á. Ég skil það þannig að þetta sé hótun um hækkun vaxta og reyndar guð má vita hvað sem kann ekki góðri lukku að stýra því eins og lánasjóðurinn er núna þá verður greiðslubyrðin af hans lánum veruleg og á eftir að hafa miklar afleiðingar á komandi árum.
    Hér er Þróunarsjóður sjávarútvegsins kominn á blað í fyrsta sinn og það er gert ráð fyrir lántökum til hans upp á 2 milljarða 280 millj. kr. Við vitum að sjálfsögðu ekkert um það hvernig þessi sjóður mun þróast. Stofnun hans var gagnrýnd mjög harðlega hér á þingi í fyrra en mér dettur í hug að menn ættu að kynna sér þróunarsjóðinn sem þeir settu á fót í Færeyjum. Hann var settur á fót í nákvæmlega sama skyni og þessi til þess að úrelda fiskiskip og frystihús en mál þróuðust þannig að mönnum tókst alveg snilldarlega að gera út á þennan sjóð og ná út úr honum gífurlegum peningum en flotinn bara stækkaði og stækkaði og ástandið í Færeyjum er nú eins og raun ber vitni. Þar átti þróunarsjóðurinn nokkurn hlut að máli. Það er afar fróðlegt að lesa um það hvernig sá sjóður varð til og hvernig hann var notaður og um það hefur Eðvarð T. Jónsson skrifað greinar í sjómannablaðið Ægi.
    Þá er hér næst Flugstöð Leifs Eiríkssonar og vegna hennar þarf að taka lán upp á 1.980 millj. kr. Ég spyr mig að því, hæstv. fjmrh., hvernig í ósköpunum þetta dæmi á að ganga upp. Ég fæ ekki betur séð en hér sé í uppsiglingu mikið vandamál fyrir ríkissjóð því að á bls. 358 í fjárlögunum segir um flugstöðina, með leyfi forseta:
    ,,Rekstrarstaða flugstöðvarinnar hefur versnað mjög frá fjárlögum 1994. Tekjur eru áætlaðar 384 millj. kr. en gjöld 507 millj. kr. og halli mun því nema 123 millj. kr. borið saman við 58 millj. kr. á fjárlögum 1994. Mestu ræður þar um að vaxtagreiðslur eru taldar munu nema 229 millj. kr. og hækka um 48 millj. kr. milli ára.`` Ég spyr: Hvernig í ósköpunum á þetta dæmi að ganga upp? Það segir reyndar hér að utanrrn. ætli að skoða þetta dæmi allt, en á næstu árum munu falla í gjalddaga nokkur stór lán, segir hér í fjárlagafrv. Samtals nema afborganir 1.965 millj. kr. en á móti er gert ráð fyrir nýjum lántökum að fjárhæð 1.980 millj. kr. Hér er sem sagt verið að taka lán til þess að borga eldri lán og ég spyr: Hvernig í ósköpunum á flugstöðin að standa undir þessu? Ég minnist þess að kvennalistakonur gagnrýndu á sínum tíma stærð flugstöðvarinnar og það gríðarlega fjármagn sem hún tók til sín og ég er ansi hrædd um það að Flugstöð Leifs Eiríkssonar eigi eftir að verða baggi á ríkissjóði um ókomin ár.
    Þá vil ég aðeins nefna Landsvirkjun. Ég var mikið að velta því fyrir mér í fyrra hvernig staða Landsvirkjunar væri. Þá var samþykkt í lánsfjárlögum lánsfjárheimild upp á 5,9 milljarða kr. Núna er beðið um lánsfjárheimild upp á 3 milljarða. Það sem sagt er þarna veruleg lækkun milli ára, en jafnframt er áætlað að taka 1.400 millj. kr. út úr rekstri Landsvirkjunar til greiðslu afborgana á næsta ári og mér þætti fróðlegt að vita hvaðan úr rekstrinum á að taka þetta eða hvernig á að taka 1.400 millj. út úr rekstrinum. Ef ég man rétt þá námu skuldir Landsvirkjunar um 55 milljörðum kr. í fyrra, það voru þær tölur sem komu út úr ársfundi Landsvirkjunar. Og maður spyr sig auðvitað: Hvað þýðir þetta? Nú hefur ekkert gerst í orkusölumálum um árabil og við vitum að það er mikil umframorka hér í kerfinu. Hvernig á þessi stofnun að

standa undir þessu? Ég vil beina þeirri spurningu til fjmrh., þetta ætti kannski frekar heima hjá hæstv. iðnrh. sem er á fundi austur á Hornafirði, ef við vitum rétt, en mér þætti fróðlegt að vita hvort menn hafi skoðað það í alvöru hvernig Landsvirkjun getur staðið undir öllum þessum lánum og afborgunum á næstu árum. Það gefur auga leið að það er ekki endalaust hægt að taka ný lán til að borga eldri lán. Einhvern veginn verða menn að borga þetta niður. Og hvernig lítur þetta dæmi út ef menn horfa til næstu ára?
    Aðeins um húsbréfadeildina hjá Byggingarsjóði ríkisins. Eins og ég nefndi áðan er gert ráð fyrir 13 milljörðum kr. í húsbréfakerfið. Það segir hér að það eigi að setja nýjar reglur um greiðslumat og það eigi að hækka ábyrgðargjaldið en spurningin er hvort þetta dugar til. Við höfum rætt húsbréfakerfið mikið á undanförnum vikum og ég get tekið undir það að ég held að það sé full þörf á því að endurskoða greiðslumatið. Ég þekki sjálf dæmi um það að fólk hafi fengið greiðslumat sem nær ekki nokkurri átt. Það er greinilega verið að taka á þessum málum en samt sem áður vaknar sú spurning hvort þessar tölur standast.
    Enn einu sinni ætla ég að nefna hérna Byggingarsjóð ríkisins. Ég held að það sé löngu tímabært að menn stokki upp þessa sjóði hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Byggingarsjóður ríkisins hefur afar litlu hlutverki að gegna. Hann er auðvitað með mikil útistandandi lán eða útistandandi kröfur, en hlutverk hans sem slíks er orðið afar lítið og ég held að það hefði fyrir löngu átt að vera búið að sameina Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna og það er auðvitað spurningin hvort ekki væri hægt að spara verulega með því að stokka þetta kerfi upp í Húsnæðisstofnuninni.
    Aðeins um Byggingarsjóð verkamanna. Honum er ætluð 6,3 milljarða kr. lántaka. Þetta er töluvert lægri upphæð heldur en í fyrra, enda á að fækka íbúðum um 100 og þá vaknar sú spurning hvort verkalýðshreyfingin muni sætta sig við þessa fækkun. Verður þetta kannski eitt af því sem samið verður um í komandi kjarasamningum? Þar af leiðandi er það spurning hvort þetta stenst. Ég vil skjóta því hér inn að mér er sagt að félagslega íbúðakerfið hafi átt alveg ótrúlega stóran þátt í því á undanförnum árum að halda byggingariðnaðinum gangandi því að félagslegar byggingar hafa verið býsna stór þáttur í nýbyggingum á undanförnum árum þegar samdráttur hefur verið í bæði byggingu atvinnuhúsnæðis og byggingu einbýlishúsa. Og þegar menn eru að gagnrýna félagslegar íbúðir þá mættu þeir gjarnan hafa það í huga að þrátt fyrir allt hefur ríkið verið að halda uppi vinnu með því fjármagni sem farið hefur í félagslega húsnæðiskerfið og þar af leiðandi er það mjög mikilvægt. En vissulega er ástæða til þess að skoða það núna hvernig því fjármagni er varið. Ég nefni það hér að það kom fram á fundi í efh.- og viðskn. fyrir nokkru að svo virðist sem eftirspurnin eftir félagslegu húsnæði sé að minnka úti á landsbyggðinni, en við vitum það að hér í Reykjavík er alveg gríðarleg þörf fyrir félagslegt húsnæði, ekki síst fyrir þann hóp sem lendir milli stafs og hurðar í þessu kerfi öllu saman.
    Aðeins um Byggðastofnun. Þar er nú ekki mikil breyting frá því sem verið hefur, en henni er ætlað að taka lán upp á einn milljarð kr. En það sem mig hefði langað að vita --- nú er forsrh. fjarri góðu gamni og ég ætla ekki að fara að kalla á hann, ég er orðin heldur leið á þessu að vera alltaf að reyna að fá ráðherra hér til umræðna, þeir láta aldrei sjá sig --- en það væri fróðlegt að vita hvar hugmyndir um nýtt hlutverk Byggðastofnunar eða endurskoðun á hlutverki Byggðastofnunar eru staddar. Það er verið að selja hús Byggðastofnunar við Rauðarárstíginn. Þar á utanrrn. að taka við en hvað á að verða um Byggðastofnun? Er ætlunin að flytja Byggðastofnun til Akureyrar eins og tillögur hafa komið fram um eða hvað hugsa menn sér? Ég minnist þess að í fyrra spurði ég hæstv. forsrh. um framtíð Byggðastofnunar og hann sagði þá að það væri verið að skoða hlutverk hennar en mér vitanlega hefur ekkert komið út úr því. Ég ætti náttúrlega að beina til hans formlegri fyrirspurn.
    Ég er alveg að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Ég á bara eftir að nefna hérna Ferðamálasjóðinn. Honum er heimiluð lántaka upp á 150 millj. kr. og ef ég man rétt þá er það nákvæmlega sama upphæðin og á þessu ári, en þarna er þessi yndislega stjórnviska á ferðinni að lögbundin framlög til Ferðamálasjóðs eru skorin niður ár eftir ár en honum vísað út á lánamarkaðinn þrátt fyrir það að hlutverk Ferðamálasjóðs og þörfin fyrir aðgerðir og átak í ferðamálum sé kannski aldrei jafnbrýn og nú þegar möguleikar í ferðaþjónustu eru vaxandi.
    Ég hef svo sem enga skoðun á því að Íþróttasamband Íslands ætlar að taka 40 millj. kr. lán og fá til þess ábyrgð ríkissjóðs til að stækka Íþróttahöllina í Laugardal. Við vitum að þetta var mikið vandræðamál, hvernig standa ætti að heimsmeistarakeppninni, en ég veit ekki til þess að íþróttahreyfingin sé mjög rík og ekki veit ég hvernig hún ætlar að standa að þessari fjármögnun og að því að borga þessi lán, en það er auðvitað hennar mál og við verðum að vona að henni takist það. Og það er reyndar annað mál hvernig búið er að íþróttastarfi hér í landinu.
    En að lokum, virðulegi forseti, þá er niðurstaða mín sú að það sé engin ástæða til þess að halda að þetta frv. til lánsfjárlaga standist betur en þau sem við höfum séð á þessu kjörtímabili. Forsendurnar sem allur ríkisfjármálapakkinn byggist á eru býsna veikar. Það getur brugðið til beggja vona. Það getur orðið efnahagsbati eins og ýmis teikn eru um, en það getur líka orðið þróun til hins verra. Framtíðin mun skera úr um það, en þar mun stefna ríkisstjórnarinnar á næsta ári og ný ríkisstjórn hafa veruleg áhrif. En allt eru þetta framtíðarspurningar og við munum sjá þegar þar að kemur hver niðurstaðan verður.