Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 22:55:29 (764)

[22:55]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mig langar að minnast á örfá atriði í lok umræðunnar. Fyrst vil ég ræða um örfá atriði sem komu fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Hv. þm. sagði að vandamál væri í uppsiglingu vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Mér fannst það satt að segja hóflega til orða tekið því öllum hefur verið ljóst á undanförnum árum að til þess hlyti að koma að greiða þyrfti lán sem tekin voru vegna byggingar stöðvarinnar.
    Ef málið er skoðað af fullu raunsæi verður auðvitað að lengja í lánum stöðvarinnar og ég fæ ekki séð að málið verði endanlega leyst nema að litið verði til lendingargjaldanna og flugstöðin talin til þeirra framkvæmda sem teknar eru inn á flugmálaáætlun á hverjum tíma. Þetta getur þó ekki gerst nema á einhverjum áratugum. Frá mínum sjónarhóli, sem er persónuleg skoðun, teldi ég eðlilegt að færa flugstöðina undir samgrn. til þess að svo geti orðið og gengið eðlilega fyrir sig.
    Varðandi Landsvirkjun skal tekið fram að ég kann eigi aðrar skýringar á því sem er í frv. en þær að Landsvirkjun hefur sjálf samið áætlanir sem koma fram í frv.
    Hv. þm. Svavar Gestsson, sem flutti ræðu fyrr í kvöld, varpaði til mín nokkrum fyrirspurnum og mun ég leitast við að svara þeim.
    Fyrst vil ég byrja á að segja frá því að ég svaraði í dag þeirri fyrirspurn hvað ég segði um orð hæstv. félmrh. um fyrirkomulag útboða eða sölu á húsnæðisbréfum og sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það svar. Það má lesa í þingtíðindum enda gefst nægur tími til þess síðar að ræða um þau mál.
    Hv. þm. ræddi nokkuð um það sem hefur verið til umræðu að undanförnu og þó einkum og sér í lagi orð eins af seðlabankastjórunum sem í dag flutti ræðu á þingi BSRB og tók sér í munn, ef fréttir reynast réttar, að svo gæti farið að bankakerfið stæði frammi fyrir sams konar erfiðleikum og á Norðurlöndum. Af því tilefni vil ég eingöngu segja að ekkert bendir til þess hér á landi að svo gerist. Bankarnir hafa þvert á móti á undanförnum árum verið sjálfir að takast á við töpuð útlán og orðið nokkuð vel ágengt. Ég tek fram að sem betur fer hagar málum þannig hér á landi að veðsetning einkahúsnæðis í bankakerfinu og húsnæðiskerfinu reyndar líka er með þeim hætti að lítil hætta er á töpuðum útlánum. Í því sambandi má kannski rifja upp að gert er ráð fyrir því að töpuð útlán í húsbréfakerfinu verði á næsta ári 0,25%. Skuldir heimilanna hafa aukist og það er rétt sem kemur fram í lánsfjárlagafrv. að á það er bent að hver fjögurra manna fjölskylda skuldar nú um 4,3 millj. kr. en ástæða er til þess að benda á að í textanum segir jafnframt orðrétt og hv. þm. las það ekki, en best er að halda því til haga:
    ,,Svo virðist sem lækkun vaxta á lánsfjármarkaði á sl. hausti hafi örvað eftirspurn heimila eftir lánsfé og kemur það glöggt fram m.a. í eftirspurn eftir húsbréfalánum.``
    Þetta kemur glögglega fram og má gera ráð fyrir því að útgáfa húsbréfa verði talsvert meiri á þessu ári, jafnvel 4 milljörðum meiri en á sl. ári en útgáfa þessa árs var hafin fyrir áramót eða í desember sl.
    Ég vek hins vegar athygli á því að seðlabankastjórinn, sem ræddi um bankakerfið í dag, og ég vil

helst ekki hafa mikið eftir honum því ég var ekki viðstaddur og heyrði ekki þessar fréttir, er sami bankastjórinn og hefur haldið því fram að hægt sé að lækka vexti í bankakerfinu. Ég er honum sammála um það.
    Í framhaldi af þessu ræddi hv. þm. Svavar Gestsson, um greiðsluaðlögunarkerfi. Ég get aðeins sagt það á þessari stundu að í félmrn. er verið að vinna að málinu. Engar endanlegar niðurstöður liggja fyrir sem lagðar hafa verið fyrir ríkisstjórnina. Málið var á sínum tíma til skoðunar þegar gjaldþrotalögin voru samin og í þeim eru reyndar nokkur ákvæði sem koma að gagni en eru lítið notuð. Þetta mál þarf að sjálfsögðu að kanna en gæta þess þá að jafnræðisreglan sé virt.
    Hv. þm. beindi til mín fyrirspurnum varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna. Af því tilefni tek ég fram að gert er ráð fyrir því að Lánasjóður ísl. námsmanna fái aukið fjármagn, meira fjármagn eða minna eftir atvikum, eftir þeim fjölda sem sækir um lánin þannig að talan í fjárlagafrv. miðast við þær áætlanir sem fyrir liggja.
    Ég vek einnig athygli á því að það verður aukning útlána um að mig minnir 240 millj. á næsta ári samkvæmt fjárlaga- og lánsfjárlagafrumvörpum.
    Hv. þm. rifjaði upp það sem stendur í fjárlagafrv. um Lánasjóð ísl. námsmanna og það er rétt að nú fer fram samstarf fjmrn., menntmrn., Ríkisendurskoðunar og Lánasjóðs ísl. námsmanna og leitað hefur verið aðstoðar Hagfræðistofnunar. Nokkurn tíma tekur að fá niðurstöðu í málinu en ég hygg að hún geti legið fyrir áður en fjárlög og lánsfjárlög verða samþykkt á hinu háa Alþingi fyrir jól.
    Varðandi þá spurningu sem sneri að ríkisábyrgðargjaldinu er það ekki nýtt. Ríkisábyrgðargjaldið hefur verið til staðar og ég hygg að það sé rétt hjá hv. þm. að það sé u.þ.b. 100 millj. sem fari í þetta gjald. Umsvif sjóðsins eru mjög mikil eins og kemur reyndar fram í fjárlagafrv. þar sem útstreymi á næsta ári verður 6,6 milljarðar kr.
    Í athugasemdum með fjárlagafrv. er sagt að unnið sé að lækkun lántökukostnaðar sjóðsins. Í því sambandi vil ég að fram komi að þar á meðal eru viðræður á milli ráðuneytanna með aðild lánasjóðsins um það hvernig haga skuli þessu tiltekna gjaldi og hvort lækka megi lántökukostnaðinn. Engar endanlegar niðurstöður eru heldur í málinu en málið er til umræðu á milli ráðuneytanna.
    Hv. þm. ræddi síðan um Iðnlánasjóð og spurðist fyrir um stöðu hans með tilliti til draga að frv. sem lágu fyrir á sínum tíma. Ég vil taka fram að lánsfjárlagafrv. snýst aðeins um lánsheimildir Iðnlánasjóðs en ekki um stöðu Iðnlánasjóðs í sjálfu sér. Hv. þm. spurði mig hins vegar um það hvað ríkisstjórnin hygðist gera í þessum efnum og er skemmst frá því að segja að þetta mál hefur ekki verið til umfjöllunar um nokkurn tíma á vettvangi ríkisstjórnarinnar.
    Vegna fyrirspurnar hv. þm. um það hver eigi sjóðinn eða peningana í sjóðnum hefur það margoft verið rannsakað og eru til um það ritgerðir en ég held að enginn vafi sé á því að ríkið á peningana og ríkið á reyndar fleiri sjóði formlega sem kallaðir eru fjárfestingarlánasjóðir atvinnulífsins. Hitt kann að vera rétt að siðferðilega megi segja að eignin sé þeirra sem hafa lagt sjóðnum til fé, annaðhvort í formi vaxta eða með lögbundnum framlögum.
    Á sínum tíma átti ég sæti í nefnd sem rannsakaði þetta mál og niðurstaða okkar varð, eftir að hafa kynnt okkur sjónarmið nokkurra lögmanna, að enginn vafi væri á eignarheimildum hvað þennan sjóð varðaði. Þó er það umdeilt. Ég tek það fram. En það breytir því ekki að ýmsir fulltrúar iðnaðarins hafa talið að þeir ættu a.m.k. siðferðilegan rétt til sjóðsins eða hluta sjóðsins. Það var einmitt rætt um það á sínum tíma þegar Jón Sigurðsson var iðnrh. Þessu þarf að skipa með lögum og er ógerningur að gera það án þess að fram komi frv. Eins og ég sagði áðan þá hefur það mál ekki verið rætt nýlega á milli stjórnarflokkanna og verður hv. þm. að leita svara hjá hæstv. iðnrh. um málið og gefst áreiðanlega tækifæri til þess síðar enda er hv. þm. að því er ég best veit formaður í hv. iðnn. þingsins. (Gripið fram í.) Vonandi verður hæstv. ráðherra ekki mjög lengi úti að aka og kemst vonandi í hús og í annan síma og jafnvel nær hv. þm. til þess að ræða þessi mál.
    Vík ég þá máli mínu að þeim þætti ræðu hv. þm. sem fjallaði um byggingu íþróttahúss vegna heimsmeistarakeppninnar í handbolta. Af því tilefni vil ég segja nokkur orð.
    Í fyrsta lagi var í upphafi ætlunin að halda hér heimsmeistaramót árið 1993. Það var ekki samþykkt og Svíar fengu það mót. Í undirbúningi þess móts lögðu menn nokkuð á sig til kynningar á Íslandi og þeim möguleikum sem hér var upp á að bjóða.
    Árið 1991 um haustið komu forráðamenn Handknattleikssambandsins til mín og jafnframt forráðamenn Kópavogskaupstaðar að þeirra frumkvæði og ræddu við mig um þessi mál. Kom þá í ljós að forustumenn Handknattleikssambandsins töldu sig geta a.m.k. reynt að ná til sín mótinu árið 1995 án þess að byggt væri nýtt hús. Sömuleiðis tjáðu mér fulltrúar Kópavogskaupstaðar að þeir teldu að upphaflegar áætlanir um byggingu fjölnota húss í Kópavogi væri langt frá því að geta staðist og nefndu til sögunnar upphæðir sem voru margfaldar miðað við það sem menn höfðu áður álitið.
    Það var sameiginleg niðurstaða ríkisvaldsins og þessara tveggja aðila að ganga frá málum með þeim hætti að Handknattleikssambandið fékk ákveðna fjármuni, að mig minnir 20 millj. vegna útlagðs kostnaðar vegna undirbúnings mótsins og þar sem í samningi við Kópavogskaupstað stóð að ríkið mundi borga hluta af undirbúningskostnaðinum ef ekkert yrði af mótinu þótti eðlilegt að semja við Kópavogskaupstað að mig minnir um 10 millj. kr. Þessi mál komu hér fyrir á þinginu enda þurfti atbeina Alþingis til skömmu fyrir jól 1991.

    Ég tek það fram að það voru engin fyrirheit að því er ég best veit frá Reykjavíkurborg á þeim tíma um að byggt yrði hús á vegum Reykjavíkurborgar þá. Ég vil taka það mjög skýrt fram vegna ræðu hv. þm. sem gaf það í skyn að þáverandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, hefði lagt gífurlega mikið á sig til að koma þessum málum í kring að engir fjármunir voru á fjárlögum vegna þessa máls. Allt sem gert hafði verið var í formi samnings og loforða en engir fjármunir höfðu verið lagðir til hliðar þannig að það er dálítið ýkt svo ekki sé meira sagt að menn hafi lagt mjög mikið á sig til þessa verkefnis.
    Þetta vil ég að komi hér skýrt fram vegna þess að svo var að skilja á hv. þm. að hann og þeir sem sátu í þeirri ríkisstjórn, þar á meðal hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem þá var fjmrh. og skrifaði undir samninginn, hefðu lagt gífurlega mikið á sig til þess að koma þessu móti fyrir hér á landi. Það sem þeir lögðu á sig var að skrifa undir samning sem nýir valdhafar í Kópavogi töldu algjörlega óásættanlegan enda var skrifað undir samninginn örskömmu fyrir kosningar og sumir segja, það eru ekki mín orð, að það hafi verið kosningaherbragð til þess að hafa áhrif á úrslitin í Kópavogi. Sel ég það ekki dýrara en ég keypti.
    Þá kem ég að þætti Reykjavíkurborgar hinum nýrri. Það er ljóst að Handknattleikssambandið fékk leyfi til að halda keppnina hér á landi upp á núverandi húsakynni. Það liggur fyrir og er skjalfest og hefur aldrei verið neitað. Hins vegar munu frambjóðendur í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar af báðum listum hafa gefið a.m.k. vísbendingar í þá átt að þeir væru tilbúnir til þess að fara í framkvæmdir sem gætu komið að gagni vegna heimsmeistarakeppninnar. Það var þess vegna sem Handknattleikssambandið fór til Reykjavíkurborgar eftir kosningar og spurðist fyrir um það hvort hugsanlegt væri að byggja hús. Leitað var til Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Niðurstaða hennar var mjög skýr. Það væri enginn tími til að byggja varanlegt hús en hins vegar væri vel hugsanlegt að byggja bráðabirgðahúsnæði.
    Til að gera langa sögu stutta þá ákvað borgarstjórinn í Reykjavík, sjálfsagt fyrir tilstuðlan meiri hlutans að stinga upp á því að það væri ekki hægt að byggja bráðabirgðahúsnæði heldur yrðu menn að horfa til lengri tíma og ekki kæmi til greina að Reykjavíkurborg byggði húsið nema að hálfu því aðrir yrðu að koma að málinu. Nú skal það tekið fram mjög skýrt og greinilega að Reykjavíkurborg á og rekur Laugardalshöllina og það er auðvitað ekki lengur á verksviði ríkisins að byggja eða taka þátt í byggingu íþróttahúsa með viðkomandi sveitarstjórnum. Það er liðin tíð. Á sínum tíma var Laugardalshöllin byggð af Reykjavíkurborg og íþróttahreyfingunni þannig að það er ekkert nýtt að íþróttahreyfingin komi að byggingu Laugardalshallarinnar, það er þvert á móti sú regla sem viðhöfð var á sínum tíma.
    Það var útilokað, og það verða hv. þm. að virða, fyrir ríkisvaldið eftir að hafa gert samning við Kópavogskaupstað um það að ekki yrði byggt vegna keppninnar 1995 þá var ekki hægt að fara í næsta sveitarfélag og bjóða fram aðstoð við það. Það eru ekki vinnubrögð sem ég tel vera sæmandi. Það var horfið frá byggingu á íþróttahúsi og auðvitað getur ríkisvaldið ekki sagt við eitt sveitarfélag við ætlum ekki að taka þátt í byggingunni þar og það sé niðurstaðan og fara svo í næsta sveitarfélag og segja við skulum byggja hér þegar fyrir liggur að ekki þarf að byggja neitt hús. Það held ég að sé mönnum ekki til sóma að standa með slíkum hætti að þessum málum.
    Þegar síðan forustumenn íþróttahreyfingarinnar leituðu hófanna um þetta mál hjá mér á sínum tíma sagði ég að það væri útilokað að ríkið gæti komið að byggingu hússins en það væri hugsanlegt að veita ríkisábyrgð ef nægileg trygging fengist frá íþróttahreyfingunni. Frá samningum hefur verið gengið og ég held að allir séu sæmilega sáttir.
    Það þarf auðvitað ekkert að bjóða upp húsið. Ég hygg að í framtíðinni sé auðvelt fyrir ríkisvaldið að gera samninga við Reykjavíkurborg um makaskipti þar sem ég efast ekki um að Reykjavíkurborg, ef þessi hluti húsnæðisins lendir hjá ríkinu, þá geti ríki og Reykjavíkurborg gert makaskipti því það er sífellt verið að færa eignir á milli ríkis og Reykjavíkurborgar og gæti þá ríkið afhent Reykjavíkurborg þennan húshluta og fengið aðrar í staðinn. Um það vil ég ekkert fullyrða á þessari stundu enda liggur málið ekki þannig fyrir nú.
    Þetta segi ég einfaldlega til þess að skýra það út að það er ekkert nauðsynlegt að bjóða upp húsið þótt ábyrgðin falli. Það er síður en svo. ( Gripið fram í: Það voru góð tíðindi.)
    Hv. þm. sem er vel kunnugur innviðum Reykjavíkurborgar nú um stundir gerir síðan að tillögu sinni að þessari ábyrgð verði breytt í framlag. Auðvitað getur hv. þm. flutt slíka tillögu og a.m.k. viðrað það við þingmenn hvort ástæða sé til þess. En ég hef nú rakið aðdraganda málsins og ég tel að ríkisvaldið hafi staðið að þessu máli með fyllilega eðlilegum hætti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ég hef ekki mikið verið að æsa mig í blöðum vegna þessa máls einfaldlega vegna þess að ég hef talið að ríkisvaldið hafi fyllilega staðið við sitt. Það var ekki að mínu frumkvæði sem gerður var samningur við HSÍ. Það var ekki að mínu frumkvæði að gerður var samningur við Kópavog. Ég kom að þessum málum með þeim hætti að full samstaða varð um niðurstöðuna og ég tel að það hafi verið stórkostlegt lán, satt best að segja, að horfið var frá húsbyggingunni í Kópavogi. Ég tel það vera stórkostlegt lán því það hús var ólán frá upphafi eins og ég held að flestir séu nú sammála um, jafnvel þó að menn hafi haft aðra skoðun á sínum tíma.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar sem kjósandi í Reykjavík að borgarstjórnin í Reykjavík geti tekið þetta mál upp sem slíkt og byggt hús því það er auðvitað Reykjavíkurborg sem á að reka sín íþróttahús og eiga í Reykjavík. En það væri ekki gott ef ríkið hefði komið inn með verulega fjármuni til byggingar þessa húss því þá hefði myndast sams konar krafa hjá öðrum sveitarfélögum í landinu. Reykjavík er ekkert sérstakt sveitarfélag fram yfir önnur og er eðlilegt að slík krafa komi upp frá öðrum sveitarfélögum.
    Ég vona, virðulegi forseti, að ég hafi skýrt hér helstu atriði sem komu fram í fyrirspurnum og óskum hv. þm. um að fá skýringar á vissum atriðum í lánsfjárlagafrv. og vonast til þess að með þessum hætti megi innan tíðar ljúka þessari umræðu og málið geti farið til hv. nefndar.