Bókhald

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 23:49:50 (776)

[23:49]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvörpum til laga, annars vegar um ársreikninga og hins vegar um bókhald. Síðara frv. er á þskj. 72 og það fyrra á þskj. 73.
    Þessi frv. voru lögð fram á síðasta þingi og hafa verið til óformlegrar skoðunar í nefnd, a.m.k. á einum fundi nefndarinnar. Ég vil þakka fyrir það, virðulegi forseti, að fá að flytja framsöguræðu og koma þessum frumvörpum til nefndar því ég held að það sé brýnt að lögfesta lög annars vegar um ársreikning og hins vegar um bókhald.
    Frv. það sem hér liggur fyrir var lagt fram á Alþingi eins og ég sagði áðan, á síðasta þingi til kynningar, var ekki tekið til umræðu. Það er nú endurflutt með óverulegum breytingum. Frv. um bókhald, eins og frv. til laga um ársreikninga, var samið af nefnd sem fjmrh. skipaði með bréfi dags. 23. des. 1992 um að endurskoða lög um bókhald en núgildandi lög eru frá árinu 1968.
    Löngu er orðið tímabært að taka þau til gagngerrar endurskoðunar þar eð miklar breytingar hafa orðið á viðskiptaháttum frá árinu 1968 og ör þróun orðið við færslu bókhalds og færslu bókhaldsgagna frá því að lögin voru samþykkt. Núgildandi lög byggjast á því að bókhald sé handfært en með breytingunum frá 1978 var heimilað að færa lausblaðabókhald með vélum. Þróun viðskipta á undanförnum árum er æ meira í þá átt að þau fari um tölvur og jafnvel án þess að pappírar eða skjöl í almennum skilningi liggi til grundvallar. Enn fremur hafa orðið umtalsverðar breytingar á framsetningu ársreikninga enda er svo komið að ýmis almenn ákvæði sem þá voru útfærð í sérlögum, til að mynda hlutafélagalögum, nr. 32/1978, með síðari breytingum, og lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991. Þótt telja verði að þessi þróun hafi gert það löngu tímabært að endurskoða lögin knýr það þó mest á um endurskoðun þeirra að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, EES, gerir beinlínis ráð fyrir að íslensk löggjöf um ársreikninga og bókhald verði breytt.
    Sú leið var valin að flytja sérstakt frv. um ársreikninga stærri fyrirtækja en sá háttur hefur almennt verið hafður á í erlendri löggjöf.
    Frv. um bókhald skiptist í fjóra kafla. Í I. kafla er kveðið á um hverjir skuli vera bókhaldsskyldir, svo og hverjir skuli bera ábyrgð á því að ákvæðum laganna sé fylgt. Einnig eru ákvæði um færslu tvíhliða bókhalds sem aðalreglu og undanþágu frá því fyrir minni háttar starfsemi. Eðlilegt er að í lögunum um bókhald sé kveðið á um almenna skyldu til að halda bókhald og færa eða skrá í bókhaldsbækur allar upplýsingar um viðskipti og aðrar fjárreiður sem eðli máls samkvæmt ber að gera eigendum, félagsaðilum, lánardrottnum og/eða hinu opinbera grein fyrir í einu eða öðru formi. Í sérlögum er einnig að finna ýmis ákvæði um bókhald sem ætlað er að skýra nánar einstakar aðstæður tiltekinna aðila. Þannig er t.d. sérstaklega kveðið á um bókhald ríkisins í sérstökum lögum og í skattalögum er einnig að finna ýmis ákvæði er lúta að bókhaldi.
    Í II. kafla er kveðið á um færslu bókhalds, bókhaldsbækur, bókhaldsgögn og fylgiskjöl og geymslu þeirra hvort sem handfært er eða fært á tölvu eða á annan hátt. Fram kemur almenn umsögn um bókhaldið, tilgang þess og markmið. Gerðar eru skilgreindar kröfur til þeirra sem halda tvíhliða bókhald um skipulag og uppbyggingu þess svo og um notkun á tölvum og tengingar og skjalasendingar á milli þeirra. Samkvæmt frv. er notkun tölva og annarra hliðstæðra tækja jafnrétthá handfærðu bókhaldi. Í 6. gr. gildandi laga, eins og henni var breytt með lögum nr. 47/1978, er veitt heimild til að nota laus kort og blöð eða önnur hjálpargögn í stað innbundinna og löggiltra bóka með því skilyrði að gögn þessi séu hluti af skipulegu og öruggu kerfi. Notkun tölva við færslu bókhalds var að hefjast á þessum árum en er nú hin almenna regla.
    Frv. felur ekki í sér breytingar á meginreglum bókhalds heldur er því ætlað að taka mið af þeirri þróun og möguleikum sem opnast hafa með tölvunotkun og settar eru fram kröfur til tölva og hugbúnaðar.
    Lagt er til að bókhaldsfærslur sem byggjast á skjalasendingum milli tölva verði jafnréttháar öðrum færslum enda uppfylli þær allar kröfur um öryggi og áreiðanleika sem gerðar eru til pappírsskjala. Gert

er ráð fyrir að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um pappírslaus viðskipti og geymslu gagna í rafrænu formi.
    Í reglugerð verður væntanlega kveðið nánar á um frágang bóka og prentaðra lista sem koma í stað innbundinna bóka í handfærðu bókhaldi, sbr. reglugerð nr. 417/1982, um bókhald.
    Í III. kafla eru ákvæði um ársreikninginn og skýringar með honum, svo og um skoðunarmenn ársreikninga og hlutverk þeirra.
    Samhliða frv. er lagt fram frv. til laga um ársreikninga sem ég mun víkja hér betur að á eftir. Það er samið með hliðsjón af tilskipunum Evrópusambandsins. Þau félög, sjóðir og stofnanir, svo og bókhaldsskyldir einstaklingar sem ekki falla undir ákvæði væntanlegra ársreikningalaga, skulu gera ársreikninga sína í samræmi við ákvæði þessa frv. en þeim er þó heimilt að fara eftir væntanlegum ársreikningalögum sem ég ræði hér frekar á eftir.
    Bókhaldsskyldir aðilar skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár og undirrita hann. Lagt er til að lengdur verði frestur til að fullgera og undirrita ársreikninga úr fimm mánuðum í sex eftir lok reikningsárs. Með hliðsjón af ákvæðum skattalaga um skilafrest á skattframtölum er þó ljóst að ársreikningar skattskyldra aðila þurfa að vera tilbúnir fyrr.
    Í 32.--35. gr. er að finna ákvæði sem ekki hafa hingað til verið í bókhaldslögum þótt sambærileg ákvæði sé að finna í öðrum lögum svo sem hlutafélagalögum. Þau fjalla um kosningu eða ráðningu skoðunarmanna ársreikninga ef þeir eru á annað borð kosnir eða ráðnir samkvæmt samþykktum félaga en það er ekki gert að lagaskyldu. Hlutverk þeirra er skilgreint í 34. gr. Yfirleitt má segja að starfssvið skoðunarmanna, eða endurskoðenda eins og þeir eru oft nefndir í samþykktum félaga, sé ekki skilgreint þar. Með skoðunarmanni er átt við þann sem ekki hefur hlotið löggildingu til endurskoðunarstarfa. Það er kannski breyting sem hefur verið að eiga sér stað hjá endurskoðendum og þeim sem fjalla um bókhald hingað til.
    Í IV. kafla eru ákvæði um heimild ráðherra til þess að setja reglugerð og fleira.
    Vík ég þá að hinu frv. sem er frv. til laga um ársreikninga. Frv. var samið af sömu nefndinni og ég gat um áðan. Umtalsverðar breytingar hafa orðið á framsetningu ársreikninga enda er svo komið að ýmis almenn ákvæði um þá eru útfærð í sérlögum, t.d. í hlutafélagalögum, nr. 32/1978, með síðari breytingum, og lögum um samvinnufélög frá 1991.
    Þótt telja verði að þessi þróun hafi gert það löngu tímabært að endurskoða lögin knýr það þó mest á um endurskoðun þeirra að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gerir beinlínis ráð fyrir að íslenskri löggjöf um bókhald og ársreikninga verði breytt. Þannig er í 77. gr. samningsins um EES kveðið á um samræmingu ákveðinna atriða í löggjöf er varða félagarétt og eru þessi atriði talin upp í XXII. viðauka. Í honum er að finna níu tilskipanir en þar af fjalla fjórar um bókhald, ársreikninga og skyld atriði. Fjórða tilskipun fjallar um ársreikninga félaga af tiltekinni tegund svo sem hlutafélaga og tiltekinna sameignarfélaga og samlagsfélaga í eigu hlutafélaga. Sjöunda tilskipun um samstæðureikninga, sú áttunda um löggildingu endurskoðenda og sú ellefta um ársreikninga útibúa.
    Ég vona að ég lesi þetta nægilega hægt þannig að hv. þingmenn nái rækilega efni þess sem hér er sagt.
    Að athuguðu máli taldi nefndin heppilegast að semja tvö lagafrv. og fylgja þar með fordæmi Dana. Annars vegar er samið frv. til laga um bókhald sem hefur að geyma ákvæði um bókhaldsskyldu, bókfærslu, bókhaldsskjöl og geymslu þessara gagna, auk almennra ákvæða um ársreikninga og endurskoðun þeirra, og hins vegar frv. til laga um ársreikninga sem hefur að geyma ákvæði um ársreikninga tiltekinna lögaðila, svo sem hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð, samvinnufélaga, samlaga og tiltekinna sameignarfélaga og samlagsfélaga. Um sameignarfélög og samlagsfélög, sem falla utan gildissviðs væntanlegra ársreikningslaga, munu þá gilda ákvæði laga um bókhald að því er gerð ársreikninga varðar. Jafnframt hvílir á þeim félögum, sem gera skulu ársreikninga eins og lagt er til í frv. þessu, kvöð um endurskoðun og áritun löggiltra endurskoðenda á ársreikninga eða áritun skoðunarmanna á ársreikninga minni félaga, svo og opinbera birtingu ársreikninga hjá viðkomandi félagaskrá.
    Samkvæmt fjórðu tilskipun skal í hverju ríki vera stofnun sem taka skal við ársreikningum félaga og hafa með höndum eftirlit með því að ákvæði laganna um gerð og birtingu ársreikninga séu virt. Hér á landi er starfrækt hlutafélagaskrá samkvæmt hlutafélagalögum og samvinnufélagaskrá samkvæmt samvinnufélagalögum. Hlutverk þeirra hefur einkum verið að safna saman og geyma upplýsingar um stofnun félaga og starfsemi þeirra, svo og að taka við ársreikningum stærri félaga og geyma þá. Sambærilegar stofnanir, sem taka til landsins alls, eru ekki til vegna annarra félagaforma. Önnur félög skulu tilkynna um stofnun og starfsemi sína til firmaskrár. Þeim félögum er að gildandi lögum óskylt að leggja fram ársreikninga sína en samkvæmt þessu frv., sem m.a. byggist á ákvæðum fjórðu tilskipunar, verða þau skyld til að leggja ársreikningana fram. Að áliti nefndarinnar er heppilegra að allt eftirlit með ársreikningum verði á hendi sömu stofnunar, m.a. til að samræmis verði gætt.
    Þá leggur nefndin til að þau ákvæði í lögum um hlutafélög og lögum um samvinnufélög, er fjalla um ársreikninga og endurskoðun þeirra, verði felld niður og eingöngu verði um þetta fjallað í lögum um ársreikninga nema um sé að ræða sérstök eða sértæk ákvæði sem eingöngu varða einstök félagaform.
    Með tilliti til þessa þarf að gera nokkrar breytingar á frv. um hlutafélög sem fram hefur verið lagt af viðskrh.

    Með fjórðu tilskipun eru aðildarríki EES hvött til að samræma lög um uppsetningu og efni ársreikninga. Bent er á nauðsyn samræmingar vegna þess að þessi félög starfa oft í fleiri en einu ríki. Enn fremur er talin þörf á að gera lágmarkskröfur til félaga sem eiga í samkeppni og ákveða í hve miklum mæli upplýsingar um fjármál þeirra skulu aðgengilegar almenningi.
    Tilskipunin gerir ráð fyrir að aðferðir við mat á eignum og skuldum verði samræmdar milli aðildarlandanna til að tryggja að í ársreikningum komi fram sambærilegar og jafngildar upplýsingar. Samkvæmt frv. skulu ársreikningar endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum en lágmarkskröfur um menntun og hæfi þeirra eru gerðar í áttundu tilskipun. Lög nr. 67/1976, um löggilta endurskoðendur, eru í samræmi við kröfur þessarar tilskipunar. Einungis má létta þessari endurskoðunarskyldu af litlum félögum.
    Í frv. eru ekki gerðar tillögur um breytingar á viðurlagaákvæðum við bókhaldsbrotum en til umræðu er að samræma refsingar við efnahagsbrot. Stefnt er að því að kynna hv. efh.- og viðskn. tillögur þessu varðandi og verður það þá óháð því að breyting verði gerð á frv. áður en það kemur til frekari umfjöllunar Alþingis.
    Þetta vil ég sérstaklega segja hér vegna þess að ég tel að það þurfi að skoða viðurlagakaflana í frv. og reyndar öðrum skyldum, þar á meðal í skattalögum, til þess að ná fram heildrænni stefnu um viðurlög við svokölluðum hvítflibbabrotum.
    Frv. þetta skiptist í tíu kafla og verður hér stiklað á helstu atriðum þess ef tími gefst til.
    Í I. kafla er að finna almenn ákvæði, svo sem um gildissvið og skilgreiningar. Í samræmi við fjórðu tilskipun nær frumvarpið til allra hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaða ábyrgð en enn fremur til gagnkvæmra vátryggingafélaga og ábyrgðarfélaga, samvinnufélaga og -sambanda, en það er umfram ákvæði tilskipunarinnar. Talið er eðlilegt að láta síðastnefndu félagaformin fylgja sömu reglum um gerð og birtingu ársreikninga og hlutafélög enda núgildandi lög um þau um margt eðlislík. Stærðarmörk þeirra félaga sem ber að fara að ákvæði laganna eru skýrð í 2. gr. frv. Tvenns konar stærðarmörk er um að ræða, bæði um gerð og birtingu ársreikninga, skýringar með þeim og skýrslu stjórnar. Lagt er til að öll félög, sem falla undir 1. gr. skuli semja ársreikninga á samræmdan hátt án styttingar. Er það í samræmi við viðteknar venjur hér á landi en í núgildandi lögum er ekki kveðið á um mismunandi skyldu félaga til að semja ársreikninga. Í tilskipuninni er að finna margs konar undanþágur og frávik sem ekki þykir ástæða til að lögfesta hér. Þannig er ekki lagt til að félögum verði heimilað að semja ársreikninga sína með mismunandi hætti eftir stærð. Telja verður eðlilegt að samræmdar reglur gildi ávallt um gerð ársreikninga með þeirri einu undantekningu sem lýtur að birtingu samandreginnar útgáfu í vissum tilvikum.
    Lagt er til að lítil félög, þ.e. þau sem hafa velt innan við 412 millj. kr. megi semja samandreginn rekstrarreikning og leggja fram einfaldara reikningsyfirlit og styttan efnahagsreikning. Önnur fyrirtæki yfir fyrrnefndum stærðarmörkum skulu birta ítarlegra yfirlit um rekstur og efnahag.
    Í stað þess að telja upp í frv. þá liði, sem fram skulu koma í efnahagsreikningi og rekstrarreikningi, er lagt til að fjmrh. gefi út reglugerð um uppsetninguna. Í fjórðu tilskipun er tilgreint hvernig efnahagsreikningar og rekstrarreikningar skuli settir fram og er vakin athygli á að uppröðun liða er þar mjög frábrugðin því sem tíðkast hefur hér á landi. Þar eð ætla má að áhersluatriði í þessum efnum kunni að vera breytingum undirorpin er ekki lagt til að lögfesta uppsetningu þessa heldur talið eðlilegt að mæla fyrir um hana í reglugerð. Með þeim hætti er unnt að bregðast fljótt við breytingum og þróun sem verður á reikningsskilum. Við setningu reglugerðar er eðlilegt að hafa samráð við reikningsskilaráð sem starfar samkvæmt lögum.
    Ákvæði II. kafla fjallar um einstaka liði efnahagsreiknings og rekstrarreiknings.
    Í þessum kafla er að finna skilgreiningar á ýmsum atriðum sem eiga að tryggja að tilteknir liðir efnahagsreiknings og rekstrarreiknings séu sambærilegir. Óefnisleg réttindi, svo sem fiskveiðikvóta og rannsóknar- og þróunarkostnað, skal aðeins færa til eignar ef þeirra er aflað gegn greiðslu. Tekjur skal færa þegar til þeirra er unnið og krafa hefur myndast á viðskiptaaðila, án tillits til þess hvort þær hafi verið innheimtar eða ekki. Með hliðstæðum hætti ber að færa gjöld þegar til þeirra er stofnað. Heimilað er í samræmi við fjórðu tilskipun að færa til gjalda og skulda fjárhæðir sem ætlað er að mæta útgjöldum vegna skýrt skilgreindra skuldbindinga sem eru sennilega eða örugglega áfallnar á reikningsskiladegi en óvissar að því er fjárhæð varðar eða hvenær þær falla til greiðslu, svo sem lífeyris- og eftirlaunaskuldbindingar og skattskuldbindingar.
    Í III. kafla er fjallað um matsreglur einstakra liða ársreiknings. Eru ekki gerðar verulegar efnisbreytingar frá gildandi ákvæðum um ársreikninga í lögum um hlutafélög eða samvinnufélög en um ýmis atriði er þó kveðið skýrar á en áður.
    Rétt þykir að nefna sérstaklega að í 25. gr. eru ákvæði um hvernig taka megi tillit til áhrifa almennra verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag. Þar er heimilað að leiðrétta liði ársreiknings, þar með talið eigið fé, vegna áhrifa verðbólgu og skuli þá slíkar leiðréttingar bæði taka til rekstrarreiknings og efnahagsreiknings. Samkvæmt fjórðu tilskipun er það meginreglan að reikningsskil skuli grundvallast á að skrá eignir við upphaflegu kostnaðarverði, sbr. 32. gr. hennar. Þó er gefinn kostur á að leiðrétta reikningsskil fyrir áhrifum verðbólgu, án þess að það sé skýrt nákvæmlega.
    Í frv. er lagt til að heimilt verði að taka tillit til áhrifa verðbólgu í samræmi við viðteknar reikningsskilavenjur hér á landi.

    Nái frv. þetta fram að ganga er nauðsynlegt að tilkynna framkvæmdastjórn ESB að íslensk stjórnvöld hyggist nýta sér fyrrgreinda heimild um verðbólgureikningsskil.
    Í IV. kafla er fjallað um skýringar sem fylgja skulu ársreikningi og teljast hluti hans.
    Í þeim skal veita frekari upplýsingar um einstaka liði ársreikningsins og önnur þau atriði sem nauðsynleg eru við mat á fjárhagsstöðu viðkomandi aðila.
    Ákvæði V. kafla fjalla um skýrslu stjórnar. Í henni skal upplýsa um atriði sem mikilvæg teljast við mat á fjárhagslegri stöðu félags og afkomu þess á reikningsárinu. Um er að ræða hliðstæð ákvæði og í núgildandi lögum um hlutafélög og samvinnufélög.
    Í VI. kafla er fjallað um samstæðureikningsskil og er þar byggt á sjöundu tilskipuninni. Ákvæði þessa kafla eru mun ítarlegri en nú er að finna í lögum um hlutafélög og samvinnufélög.
    Í inngangi að sjöundu tilskipuninni eru aðildarríkin hvött til að samræma lög um uppsetningu og efni samstæðureikninga til að unnt sé að veita samræmdar fjárhagslegar upplýsingar um félagasamstæður. Með samræmingu er ætlunin að tryggja að upplýsingar, sem félög birta, séu sambærilegar og jafngildar.
    Markmiðið með samræmingu samstæðureikninga er að vernda hagsmuni sem tengjast hlutafélögum og öðrum þeim félögum sem falla undir þetta frv. Það felur í sér þá meginreglu að semja skuli samstæðureikninga þegar félag fer með meirihlutavald í öðru félagi.
    Virðulegi forseti. Ég fer bráðum að ljúka máli mínu þó ég eigi alllangan tíma eftir.
    Í VII. kafla er fjallað um endurskoðun ársreikninga. Ákvæðin eru hliðstæð og í núgildandi lögum um hlutafélög og samvinnufélög en þó nokkru ítarlegri.
    Í 57. gr. kemur fram að kjósa skuli á aðalfundi eða almennum félagsfundi einn eða fleiri löggilta endurskoðendur eða skoðunarmenn og varamenn þeirra. Í frv. er gerður skýr greinarmunur á löggiltum endurskoðanda og skoðunarmanni eins og ég hef áður vikið að í ræðu minni.
    Í VIII. kafla er fjallað um birtingu ársreikninga þeirra félaga sem falla undir frv. þetta.
    Samkvæmt lögum um hlutafélög ber þeim að senda hlutafélagaskrá ársreikninga sína ef engar hömlur eru lagðar á viðskipti með hlutabréf þeirra. Einnig ber samvinnufélögum með B-deild stofnsjóðs að senda samvinnufélagaskrá ársreikninga sína. Í þessu frv. er lagt til að öll félög, sem það tekur til, þar með talin erlend útibú hér á landi, skuli senda félagaskrá ársreikninga sína eigi síðar en mánuði eftir samþykkt þeirra og eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs.
    Lagt er til að félagaskrá geri úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum og samstæðureikningum til að sannreyna að innsend gögn séu í samræmi við ákvæði laga og að félagaskrá geti í því sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga hjá hverju félagi.
    Í IX. kafla er fjallað um reikningsskilaráð. Ákvæðin eru tekin óbreytt upp úr gildandi lögum um bókhald.
    Í X. kafla er fjallað um ýmis ákvæði, þar á meðal um heimild ráðherra til að setja reglugerð um margvísleg framkvæmdaratriði. Meðal annars er lagt til að uppsetning efnahagsreiknings og rekstrarreiknings verði ákveðin með reglugerð. Uppsetning þessara reikninga er fastákveðin í ákvæðum fjórðu tilskipunar en talið er heppilegra að hafa slíka uppsetningu í reglugerð en í lögum.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. jan. 1995 ef mögulegt er og taki þannig til allra ársreikninga og samstæðureikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst eftir þann tíma. Með þessu ákvæði er komið í veg fyrir að lögin verði afturvirk.
    Gert er ráð fyrir að ákvæði laga um hlutafélög og samvinnufélög sem fjalla almennt um ársreikninga og endurskoðun verði felld úr gildi og ákvæði frv. þessa taki við. Með þessum hætti verður löggjöf um þessi efni einfaldari og skýrari og síður hætta á misræmi.
    Ég vil nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, til að þakka nefndarmönnum sem áttu sæti í nefndinni sem útbjó þessi frumvörp kærlega fyrir þeirra þátt í þessu mikla starfi sem er sérhæft starf manna sem hafa unnið að þessum málum og eru með fremstu mönnum í sinni röð. Nöfn þeirra koma fram í athugasemdum við lagafrv.
    Að svo mæltu vil ég ítreka þakkir mínar til virðulegs forseta fyrir að fá að mæla fyrir þessu frv. í kvöld. Ég vonast til þess að fjmrn. megi eiga gott samstarf við hv. efh.- og viðskn. um þetta mál sem er í eðli sínu ekki pólitískt en er bráðnauðsynlegt að rætt verði og komist í umræðuna og verði að lögum á yfirstandandi þingi þannig að reikningsskil, bókhald og ársreikningar íslenskra fyrirtækja verði færð með sama hætti og tíðkast í öðrum Evrópuríkjum.
    Að svo mæltu legg ég til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.