Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:45:39 (787)

[13:45]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tek skýrt fram að ég var ekki að saka hæstv. fjmrh. um að vera að þvinga hér máli í gegn. Ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því að þingflokksformenn gerðu samkomulag og síðan er ekki staðið við það og við verðum að fá skýringar á því hvers vegna það gerist. Ég á sæti í hv. efh.- og viðskn. og hér eru nú þessi smámál sem var verið að ræða í gærkvöldi um bókhald og ársreikninga. Þetta eru engin smámál og það er eðlilegt að þau fái vandaða umfjöllun í þinginu og þau séu rædd á eðlilegan hátt en ekki keyrð í gegn eftir miðnætti á þriðjudagskvöldi. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð og það þarf að taka á því ef upplýsingar berast ekki til þingmanna og ráðherra um það samkomulag sem gert hefur verið um störf þingsins. Ég ítreka því að ég mótmæli þessum vinnubrögðum og hér verður að verða bót á.