Tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:53:59 (820)

[15:53]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram komi í máli hæstv. landbrh. þá er hér lagahreinsun á ferð. En mig langaði samt að fá fram ákveðnar upplýsingar ef ráðherrann hefur þær handbærar. Ég gef mér að það að þessi rannsóknastöð hafi lokið starfi sínu eða hætt starfi 1990 sé í tengslum við þann mikla samdrátt sem orðið hefur í íslenskum landbúnaði. En mig langaði samt til þess að fá að vita það hvort þar með hafi rannsóknum sem þar voru stundaðar verið lokið eða hvort aðrir hafa tekið við þeim verkefnum sem þarna voru stunduð.
    Í öðru lagi langar mig að fá að vita hvað Reykhólahreppur greiddi fyrir þessar eignir og hvort þær greiðslur hafi runnið beint í ríkissjóð eða hvort þarna hafi verið eitthvað annað í spilinu. Nú veit ég ekki hvort hæstv. landbrh. geti upplýst okkur um það hvað Reykhólahreppur gerir við þessar eignir, það er náttúrlega eins og hér kemur fram að það eru fjós og hlaða og íbúðarhús. Við í landbn. vorum nú í heimsókn í sumar á þessum slóðum og það er einmitt frekar skortur á íbúðarhúsnæði en hitt þannig að ég reikna með að hreppurinn geti nýtt húsnæðið. En það væri fróðlegt að fá nánar að vita um það hvað af þessum eignum hefur orðið.
    Það var fróðlegt að heyra hljóðið í bændum á þessu svæði þó það komi þessu máli svo sem ekki við en það var afar athyglisvert að það er mikið af ungum bændum í Reykhólasveit, ungir og bjartsýnir bændur, og það var svolítið annað hljóð í þeim en þeim bændum sem við hittum á öðrum svæðum í Vestur-Húnavatnssýslu og í Strandasýslu og Dalasýslu þar sem meðalaldur bænda er miklu hærri. Þannig að sem betur fer þá eru menn þarna í landbúnaðinum að gera ýmislegt. Þeir eru að prófa sig áfram í ýmsum hliðargreinum.
    Að lokum, virðulegi forseti, vegna þess að hér er minnst á Fóðuriðjuna í Ólafsdal þá væri fróðlegt að fá það einnig fram hjá hæstv. landbrh. hvernig málum er háttað á þeirri gömlu bújörð og þeim gamla bændaskóla sem þar var. Ég veit að húsið er nýtt en hefur landbrn. eitthvað með þá jörð að segja? Ég veit það einfaldlega ekki og þætti vænt um að fá að vita það hvernig málum er þar háttað.