Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 13:58:23 (835)

[13:58]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú alveg vitað mál að í umræðum um þetta mál kom fram að ég hafði efasemdir um það hvort hér væri verið að ganga á skjön við stjórnarskrá eða ekki. Ég sagði þar skýrt þá. Ég hélt því ekki fram að það væri stjórnarskrárbrot. Hv. þm. Páll Pétursson taldi að það væri alveg ljóst að það þyrfti að breyta stjórnarskránni og þetta liggur alveg ljóst fyrir. Ég og hv. þm. Páll Pétursson erum alveg sammála um það að við teljum ekki ástæðu til að segja upp samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég veit ekki betur en að hv. þm. hafi tjáð sig um það hér. Hins vegar teljum við að það þurfi ýmsar breytingar að gera á honum og ég vænti þess að um það sé full samstaða hér.
    Það voru ekki algerlega sömu skoðanir uppi um þetta mál í flokki hv. þm. sem hér var að spyrja. Það er alveg ljóst að við vorum ekki alveg samstiga í þessu máli en ég vil taka það skýrt fram að við erum þar í dag og það er skoðanafrelsi í Framsfl. og hefur alltaf verið og mun alltaf verða svo.