Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:05:45 (893)

[15:05]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Á tímum mikilla breytinga er eitt ár langur tími. Framtíðarmöguleikar heilla atvinnugreina geta glatast á skemmri tíma ef samkeppni erlendis frá er opnuð án þess að leikreglur starfsstétta séu samræmdar í samkeppnislöndum. Íslensk garðyrkja og íslenskur landbúnaður stendur nú á þessum þröskuldi. GATT í gildi eftir átta mánuði og leikreglur enn ekki ljósar. Hagsmunir íslenskra garðyrkjubænda hafðir að engu í EES-samningum þar sem ríkisstjórninni varð það á að fórna drottningunni í stöðunni meðan aðrar EFTA-þjóðir færðu peðsfórn.
    Hæstv. landbrh., biðin er löng eftir svörum þegar atvinna manna er í húfi. Samband garðyrkjubænda hefur ítrekað átt fundi með alþingismönnum og ráðherrum og fyrir tæpu ári lögðu þeir fram lista um brýnar aðgerðir til að ná fram bættri samkeppnisstöðu til að geta staðist innflutningi snúning. Tíminn flýgur og fátt eitt hefur verið gert til að bæta samkeppnisstöðu garðyrkjubænda. Hér er þó um að ræða 500 ársstörf í beinni framleiðslu og varan, hvort hún kemur úr gróðurhúsunum eða moldinni, er á heimsmælikvarða, framleidd án eiturefna.
    Það er fullyrt að garðyrkja innan Evrópusambandsins njóti styrkja, allt að 25% á framleiðsluverðmæti. Hér eru engir styrkir og útflutningsuppbætur af lagðar þannig að hér verða bændur að keppa við kollega sína og standa höllum fæti. Hingað er fríverslun og um ríkisstyrktar vörur að ræða erlendis frá en okkar útflutningur sætir því að fá á sig 40% toll. Hefur ríkisstjórnin í hyggju að taka upp á ný útflutningsbætur í einhverju formi?
    Stéttarsambandsfundur var einhuga um að koma yrði til móts við garðyrkjuna með lækkun sjóðagjalda. Fyrir því eru pólitísk rök vegna EES og GATT. Hefur hæstv. landbrh. í hyggju að ná fram breytingu og lægri sjóðagjöldum?
    Hér rennur rafmagn ónotað til sjávar. Síðustu ár hefur verið hagvöxtur í gróðurhúsum. Bændur hafa lýst stöðvar sínar og lengt þar með framleiðslutímann. Jafnframt hafa verið byggðar öflugar geymslu og geymslutækni hefur lengt sölutímann. Frekari lækkun raforku mundi gjörbreyta stöðunni. Nú kaupa bændur raforku á 2,80 til 3 kr. á kílóvattstund og búa við rofáhættu, ekki síst í kuldatíð fyrir norðan í kjördæmi hæstv. ráðherra. Þá hleypur verðið kannski upp um einar 10 kr. á kílóvattstund. Telur hæstv. landbrh. líklegt að hægt sé að ná lægri samningum við Rarik og Landsvirkjun, t.d. 1,50 kr. á kílóvattstund eins og garðyrkjan hefur bent á?
    Samband garðyrkjubænda hefur margkrafist þess að lögum um innflutning á grænmeti, garðávöxtum og blómum verði framfylgt svo hollusta og heilbrigði vörunnar sé tryggð. Eitt mikilvægasta eftirlitsatriði í EES-samningunum er krafan um að upprunavottorð fylgi sendingum. Hér hefur það því miður reynst haldlítið í ýmsum vöruflokkum vegna pökkunarákvæðis sem heimila undanþágur ef sendingar eru smáar sem þær eru í flestum tilfellum vegna þess að þjóðin er ekki fjölmenn. Hefur þetta verið skoðað? Garðyrkjubændur hafa ítrekað farið fram á breytingu á innflutningstímabilum samkvæmt EES. Hefur hæstv. ráðherra gert tillögur til úrbóta?
    Ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis ákváðu á síðasta þingi að hætta að greiða mótframlag í lífeyrissjóð bænda gagnvart garðyrkjunni. Hér er um beina kjaraskerðingu að ræða og gróflega mismunun á milli

búgreina.
    Nú vill svo til að ríkisstjórnin hefur ákveðið að hér miðist GATT-aðlögun við eitt ár eða árið 1988. Þetta er afbrigðilegt ár. Þá var ljósvæðing varla hafin og innflutningur í toppi á öllum sviðum. Hver tók ákvörðun um að miða bara við eitt ár en ekki þrjú ár eins og heimilt er? Allar tölur tengdar innflutningi 1988 eru svo að auki afbrigðilegar eins og ég býst við að ráðherra þekki. Garðyrkja má ekki á ný lenda milli þils og veggjar þegar GATT tekur gildi. Svo er skuldastaðan önnur hlið og áhyggjuefni og mikil töp í gjaldþrotum.
    Hæstv. forseti. Kartaflan er í manneldisfræðum ein mikilvægasta neysluvaran. Nú ríkir kaos í búgreininni. Kartöflubændur hafa verið að tapa tökum í tíu ár og eru komnir út í horn og margir stefna í gjaldþrot. Best sést hvernig komið er þegar verslunin er farin að selja kílóið á 5 og 10 kr. þegar fyrir liggur að framleiðslukostnaður er 45--50 kr. á kíló. Í flestum löndum snúa samkeppnislög um að verja hagsmuni neytenda og smáframleiðenda fyrir ofurefli verslunar. Hér er þetta öfugt. Hér eiga kartöflubændur ekki lengur aðgang að afurðalánum. Menn með sveltandi fjölskyldur sem ekkert eiga víst troðast á markaðinum og verða fórnarlömb.
    Kartöflubændur fóru mjög illa út úr búvörulögum og framleiðslutakmörkunum í hefðbundnum búgreinum. Reglugerð um opinbert mat og dreifingu hefur ekki verið sett. Norðmenn, Bretar og flestar þjóðir skilja að atvinnugreinar verða að búa við frelsi innan skipulags. Þar er uppskera mæld á haustin og umframframleiðsla sett í skepnufóður eða spíraframleiðslu. (Forseti hringir.) Þar búa framleiðendur við hlutfallslegar afsetningarreglur og fá því afurðarlán. Þar gengur neytandinn að vörunni flokkaðri eftir stærð, útliti og þurrefnisinnihaldi. Neytandinn á nefnilega ekki alltaf tryggt að kartafla sé kartafla, þær eru misjafnar að gæðum.
    Hæstv. forseti. Ég er að ljúka máli mínu. (Forseti hringir.) Hvatinn til að bændur standi saman og búi við öryggi er afurðastöð. Glundroði er slæmur kostur fyrir neytendur og kartöfluræktina. Við Íslendingar höfum ekki efni á að tapa atvinnu úr landinu. Hér ríkir misskipting milli bænda og gjaldþrot greinarinnar kemur á fólkið í landinu í verri vöru og hærri vöxtum. (Forseti hringir.)
    Kartöflubændur með áratuga reynslu sem voru eignamenn fyrir nokkrum árum eru nú að tapa eignum sínum og búa við mikla óvissu. Ég vil því hér í lokin spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hyggist gagnvart þessari grein, sem er í svo mikilli neyð stödd, beita sér (Forseti hringir.) fyrir að ná samstöðu og að hún megi búa við atvinnuöryggi í framtíðinni.