Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:19:39 (895)


[15:19]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að vekja máls á stöðu garðyrkjunnar hér á Alþingi því þar blasa við okkur verulega stór og mikil vandamál. Hann fór hér yfir spurningar sem hann beindi til ráðherra og ráðherra á e.t.v. eftir að koma og svara þeim öllum á eftir, en þetta eru spurningar sem við fengum sendar frá Samtökum garðyrkjubænda fyrir stuttu síðan. Þar rekja þeir ástæðurnar fyrir því hvernig komið er og þar má bæta ýmsu við eins og t.d. því að það hefur orðið mikið tap vegna krafna á blóma- og matvöruverslanir sem farið hafa á hausinn og ekki getað greitt sitt til garðyrkjubænda og hefur það bitnað illa á þeim. Tilboð ríkisstjórnarinnar, GATT-tilboðið, sem hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi áðan og þegar garðyrkjubændur fóru í það að rafvæða hjá sér þá voru verulega háir vextir og á þeim lenti mikill fjármagnskostnaður. Allt þetta, ásamt því sem Guðni taldi upp áðan, hefur síðan orðið til þess að mat eigna hefur verið lækkað um 30% á síðasta ári og þar með veðhæfni þeirra að sama skapi.
    Mér finnst það hins vegar mjög slæmt að eftir því sem mér skilst þá var það stofnlánadeildin sem gaf þar fordæmi. Stofnlánadeildin gaf það fordæmi að lækka mat eigna um 30%. Þetta þýðir um 300 millj. kr. tap fyrir garðyrkjubændur á einu ári og þarna er auðvitað um hreina eignaupptöku að ræða. Fjölskyldur sem við vitum um og hafa til okkar leitað og eru á leið undir hamarinn geta því eiginlega hvorki hætt né haldið áfram og það er það alvarlegasta í þessu máli. Það er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Við vitum að einhverjar garðyrkjustöðvar verður að leggja af, það er ljóst af þeim pappírum og þeim gögnum sem við höfum fengið, en við þurfum að hjálpa þessu fólki til þess að komast standandi í gegnum þetta og halda sjálfsvirðingunni og síðan að gera rekstrarskilyrði garðyrkjunnar, fyrir þá sem eftir eru, þannig að við sé unað.