Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:44:23 (906)


[15:44]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það var út af fyrir sig spennandi fyrir hæstv. landbrh. að lesa það svar sem hann var með í höndunum þó hann gerði það ekki sköruglega. Ég hélt reyndar lengi vel að hann hefði fengið vitlaust blað í hendur því hann var ekki að svara því sem spurt var um. Það alvarlega við þetta er það að garðyrkjubændur geta ekki frekar en aðrar greinar landbúnaðarins vænst neinnar málsvarnar úr landbrn. Hagsmunir landbúnaðarins voru bornir fyrir borð bæði í EES-samningum og GATT-samningum og af því eru menn nú að súpa seyðið.
    Barátta ráðherrans við meindýr í gróðurhúsum er út af fyrir sig góðra gjalda verð en hún dugir ekki til þess að bjarga atvinnugreininni.
    Ég hef mikla samúð með kartöflubændum. Ég hef ekkert síður samúð með ríkissjóði. Það er dýrt fyrir hann að láta Bónus selja kartöflur á 5 eða 8 krónur, eða hvað það nú er, vegna þess að ríkissjóður verður þá að blæða virðisaukaskatti í þetta púkk. En garðyrkjubændur geta reyndar að hluta til sjálfum sér um kennt vegna þess að þeir hafa ekki staðið saman um sín mál. Þeir hafa látið einstaka verslunaraðila pína sig til þess að klóra augun hver úr öðrum þannig að það er svo sem ekkert von á góðu. En það sem upp úr stendur er það að eins og annars staðar hefur landbrh. vanrækt að standa á verði fyrir stéttina.