Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 14:20:04 (985)


[14:20]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Flestir eru þeirrar skoðunar að núgildandi lög um grunnskóla séu góð að mjög mörgu leyti. Að meginstofni eru þau frá árinu 1974. Þá var lögð geysilega mikil vinna í kynningu á þessum lögum, þau voru vandlega undirbúin og þau hafa reynst okkur, eins og ég sagði áðan, góð lög. Síðan þá hafa þau tekið nokkrum breytingum, oftast í þá veru að aðlaga þau ýmsum breytingum sem orðið hafa í þjóðlífi okkar og þróun sem orðið hefur í skólum og skólastarfinu, síðast var þeim breytt árið 1991.
    Þrátt fyrir þetta hefur ekki enn tekist að koma ákvæðum þessara laga að fullu í framkvæmd. Mest vegna niðurskurðar æ ofan í æ á undanförnum árum eins og reyndar kom fram í máli ráðherrans og hann segist vera að bæta úr eftir mætti þó að sumum finnist það ganga hálfbrösuglega.
    Verðugt verkefni núna væri kannski að byrja á því að uppfylla kröfur núgildandi laga og hefði verið æskilegt að kjörtímabilið hefði verið betur nýtt til þess í stað þess niðurskurðar sem beitt hefur verið í grunnskólanum.
    Meginhlutverk frv. er að aðlaga þessi lög breytingum þeim sem eiga að verða við flutning grunnskólans til sveitarfélaga. Í meginatriðum get ég tekið undir þá stefnu að flytja skólann en þá með þeim formerkjum sem nauðsynleg eru, að það er verið að flytja skólann sem stofnun, það er verið að flytja skólakerfið í heild en ekki bara verið að flytja launaþáttinn til sveitarfélaganna. Þau taka við ábyrgð á grunnskólanum og það verður að hafa í huga og skiptir verulegu máli.
    Það er mikil undirbúningsvinna fram undan þó að einhverju sé lokið og það virðist tilgangslítið að samþykkja þetta frv. ef þessi undirbúningsvinna hefur ekki komist lengra en nú virðist horfa í. Eða það má spyrja hvort þingmenn treysti sér til að samþykkja þetta frv. ef t.d. samningar hafa ekki tekist við kennara og þau mál eru í fullkominni óvissu eða þá aðra starfsmenn skólakerfisins og það má nefna mjög marga aðra óvissuþætti sem óleystir eru.
    Hæstv. menntmrh. hefur sýnt mikinn áhuga á því að þessi flutningur geti átt sér stað og það hefur verið áhugamál hans alllengi. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna þá að taka næstum hverja einustu grein laganna, breyta henni með einum eða öðrum hætti í stað þess að einbeita sér að því markmiði sem kannski var upphaflega sett, þ.e. að aðlaga þessi lög breyttum aðstæðum? Þetta vekur furðu margra og ég held að það sjái það hver í hendi sér að þetta verður ekki til þess að greiða fyrir framgangi þessara laga heldur þvert á móti verður til þess að tefja það að megintilgangur þeirra náist fram.
    Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann óskaði eftir því að sátt yrði um þetta frv., um þetta mál, og það næði fram að ganga. Víst væri það æskilegt þar sem líklegt er að hann telji þetta gott frv. en ég vil aðeins rifja upp hvernig upphaf þessa máls verður og það er ekki til þess að kalla á sátt um framhaldið. Skipan átján manna nefndarinnar, sem var einhliða skipuð af ráðherra, það má segja af flokksbræðrum eða já-bræðrum hans í skoðunum, er ekki til þess fallin að menn geti búið við sátt um þær niðurstöður sem þar fást. Nefndin er skipuð með þröngum pólitískum sjónarmiðum í stað þess að reyna að kalla eftir bæði sjónarmiðum annarra stjórnmálaflokka sem munu þurfa að fjalla um þetta mál á þingi og í þjóðlífi, auk þess sem ég dreg í efa að nægilegt samráð hafi verið haft eða nægilega margir af starfandi mönnum í skólakerfinu og úr kennslustofunni hafi verið í þessari 18 manna nefnd.
    En þetta upphaf er ekki til þess fallið að sátt náist. Þó vona ég að mörg atriði þessa frv. nái fram að ganga og sátt náist um það því að í þessari skýrslu, sem liggur frammi með frv., þ.e. skýrslu nefndar um mótun menntastefnu, eru ýmis atriði sem vel er hægt að taka undir og sama er að segja um frv. Það er eitt og annað þar sem kemur til móts við það sem er að gerast í skólunum og hefur verið að þróast á undanförnum árum.
    Ég hef reynt að skoða í þessu frv. þau atriði sem ég tel skipta mestu máli. Eins og ég gat um áðan eru býsna margar greinar frv. teknar upp og þeim meira eða minna breytt. Að sumu leyti er þar um að ræða ósamræmi sem ég mun koma betur að á eftir og að öðru leyti er um að ræða þætti sem ég tel að ekki séu til bóta.
    Þegar ég ber saman þá þætti sem jákvæðir eru og til bóta horfa og hina sem eru neikvæðir finnst

mér nú að þeir sem eru lakari séu fleiri en þeir sem jákvæðir eru, eða a.m.k. þurfi að vinna þá betur. Ef til vill er í sumum tilvikum hægt að laga greinar frv. með því að skilgreina betur og skýra og sömuleiðis er sums staðar þar sem stangast á ákvæði hvert við annað.
    En eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hefur verið tekið tillit til nokkurra þátta og breytt frá frumvarpsdrögunum sem send voru út og var allt heldur til bóta en það var svo sem ekki gífurlega margt sem þar var. Það má tala um kennarafundi í stað starfsmannafunda sem ég tel mjög til bóta. Það er að vísu ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að þar hafi engu verið breytt því breytingin er að áður sátu þar kennarar og fastráðnir kennarar, ef ég man rétt, en í frv. stendur að kennarafundi skuli sækja kennarar og aðrir sérfræðingar skóla.
    Hugtakið sértækir námsörðugleikar og fleiri breytingar er komið inn í 37. gr. ásamt aukinni áherslu á heimaskóla fyrir nemendur og eins fagna ég því að þar er ákveðið að setja reglugerð til þess að skýra þar þætti betur sem nauðsynlegt er að sé gert frá því sem lagagreinin kveður á um.
    Í þessu frv. er fallið frá 10 mánaða skóla sem ég held að sé til bóta, a.m.k. á þessu stigi málsins. Ég skal ekkert taka af um það að 10 mánaða skóli komi einhvern tímann til greina hér hjá okkur en að svo stöddu tel ég alls ekki að það sé tímabært og fagna því að frá því er horfið að sinni og tek undir það, eins og kennarar hafa reyndar gert, að ná má fram mun betri nýtingu skólaársins innan 9 mánaða skóla.
    Þá tek ég undir þau ákvæði í þessu lagafrv. sem fjallar um aukningu kennslumagns. Þarna er um að ræða góða og metnaðarfulla áætlun sem er öll af hinu góða ef peningar fylgja með þessu til sveitarfélaganna og það er nauðsynlegt að það sé skýrt tekið á því með tekjustofnum sem þau fá í þessu sambandi. En það verður að segjast eins og er að reynsla síðustu ára í rekstri ríkisins til þessa þáttar er ekki mjög góð til þess að maður trúi því að þetta muni nást fram.
    Það er ágætt að fá inn lögbundin ákvæði, fá þau inn í lög um könnunarpróf og greinandi kunnáttupróf sem ég held að sé mjög af hinu góða í skólastarfinu og mjög æskilegt að fá inn. Aftur á móti þar sem kveðið er á um samræmd próf og talað um að þau séu þrjú á skólatímanum í 4., 7. og 10. bekk, þá finnst mér það í meira lagi og leggst fyrir mitt leyti gegn þessum samræmdu prófum sem taka á upp í 4. bekk og það gera reyndar mjög margir samkvæmt könnun sem nýlega var gerð og meiri hluti leggst gegn þessu. Aftur á móti má hugsa sér 7. bekkjar próf, sem er í rauninni hliðstætt við gamla barnaprófið, að þar komi upp könnun af þessu tagi sem kannski væri þó ekki með nákvæmlega sama móti eins og samræmd próf sem nú eru í 10. bekk. En það er að mínu mati hlutur sem er rétt að skoða. En ég vara samt við því að oftúlka samræmd próf, gildi þeirra, einkunnir sem þau gefa og að nota þær of mikið til samanburðar. Ég held að það sé margt sem skekkir þá mynd og það sé ekki rétt að nota þetta í of þröngum skilningi og á það hafa reyndar þeir sem þessu stýra í Rannsóknastofnun uppeldismála lagt mjög mikla áherslu, að þessi próf séu ekki notuð til að bera saman einstaka skóla, að ég tala nú ekki um einstaka nemendur. Það er mjög margt sem kemur til greina og þarf að hafa í huga við þau atriði.
    En hér kemur inn nýtt hugtak sem er skólanámsskrárgerð. Það ber að fagna því líka. Skólanámsskrárgerð er sagt nýtt hugtak. Það er nýtt í lögunum en ekki nýtt í skólastarfinu því að það er búið að vera allmörg undanfarin ár í vinnslu. Það má nefna nám sem kallað var starfsleikninám sem hefur stuðlað mjög að þróun í þessu auk þess sem á vegum fræðslustjóraembætta og ráðuneytis hefur verið aðstoðað við gerð skólanámsskrárgerða á undanförnum árum. En þetta er komið inn í lög. Þetta starf á að auka og það er vel. En maður veltir strax fyrir sér: Hvernig verður með þá vinnu sem fylgir auknu samstarfi kennara, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, sem fylgir aukinni vinnu við skólanámsskrárgerð, sem fylgir aukningu kennsludaga? Einhvers staðar hefur verið nefnt að áætlað sé að aukning kennsludaga kosti 4% hækkun launa. Ég hef fyrir satt að samtök kennara telja þetta stórlega vanmetið og eru þeirrar skoðunar að 12% væru miklu nær lagi en 4%. Þá er á það að líta að hver 10% í hækkun launa kennara nemur eftir því sem ég best veit nálægt 450 millj. kr. Þarna er því um að ræða allmiklar upphæðir sem menn velta fyrir sér hvort hafi verið teknar að fullu inn við mat á kostnaði.
    Það er komið inn ákvæði þarna um að sérstök stofnun annist námsgögn hjá ríkinu. Ég fagna því að Námsgagnastofnun, ef hér er átt við hana, skuli vera áfram en vil eindregið mælast til þess að ekki sé verið að sniðganga þessa stofnun sem hefur reynst okkur vel og í stað orðanna: ,,sérstök stofnun`` verði hreinlega sagt Námsgagnastofnun. Það er sú stofnun sem nú starfar og á að mínu viti að starfa áfram. Hún hefur skilað góðu verki og það ber að styðja það áfram á vegum ríkisins en endilega að kalla hlutina sínu rétta nafni og ekki fara fram hjá þeim með þessum hætti.
    Það er talað um aukin áhrif foreldra og það er vel. Annað sem ég tel til bóta og eru kannski ekki allir sammála um er að ákvæði um grunnskólaráð fellur út. Ég var alla tíð á móti þessu ákvæði um grunnskólaráð sem ég tel að hafi verið allt of stórt, umsvifamikið og þungt í vöfum. Ég fagna því þess vegna að það fer út. Ég held að það hafi ekki verið mjög gott stjórntæki. Hins vegar set ég spurningarmerki við það af hverju samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga, sem var í eldri lögunum, er ekki inni núna. Hafi einhvern tíma verið virkilega ástæða til að þessi samstarfsnefnd væri starfandi er það einmitt eftir þennan flutning. Þess vegna legg ég áherslu á að samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga af einhverju tagi verði komið inn í þetta frv. Það er hægt að hugsa sér ýmsar leiðir til þess, en það er nauðsynlegt að þarna sé fullt samráð. Ég sé ekkert sem mælir á móti því að þessi samstarfsnefnd komi með svipuðum hætti inn í frv.

    Á undanförnum vikum hafa verið ásakanir um það að grunnskólinn standi sig ekki, hann uppfylli ekki kröfurnar og þar sé slaklega unnið. Margir hafa mótmælt þessum fullyrðingum sem ósönnum og varasömum. Það kann vel að vera að þarna sé tekið nokkuð mikið upp í sig. Samt held ég að nauðsynlegt sé að taka þessar yfirlýsingar alvarlega og skoða mjög vandlega hvort þær eiga við einhver rök að styðjast og þá hver, hvort það geti verið að grunnskólinn hafi vegna fjársveltis ekki getað staðið undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar og hvort rétt sé að hann sé hlægilega ódýr eins og einhver hefur haldið fram. Ég tel fulla ástæðu til að þessi atriði séu skoðuð mjög ítarlega.
    Í frv. eru takmarkanir á fjölda í námshópum felldar út. Könnun hefur sýnt að um 80% landsmanna eru andvíg þessu. Hæstv. ráðherra sagði að hann væri andvígur þessu. Hann lýsti því yfir að hann mundi ekki leggjast gegn breytingu á þessu. Ég er að velta fyrir mér þar sem þetta er búið að vera svo lengi í umræðunni og skoðanir bæði kennara og almennings hafa komið mjög skýrt fram af hverju þetta er enn þá í frv. Ég fagna yfirlýsingu ráðherra og hvet til þess að þetta verði lagfært hið bráðasta og vonast til að það verði gert. Þegar frumvörp um grunnskóla eru til umræðu á Alþingi er oftar rætt um peninga, hvernig eigi að skipta þeim, oft og tíðum um starfskjör, launakjör starfsmanna, en við megum ekki gleyma því að grunnskólinn er fyrir nemendur fyrst og síðast. Þetta ákvæði tel ég vera nauðsynlegt að setja til varnar þeim nemendum sem grunnskólann stunda. Eins og margir vita er litið svo á að þetta ákvæði í núgildandi lögum sé frekar sett inn sem viðmiðun í fjármagni en til varnar nemendum, en reynslan hefur þó sýnt að hvort tveggja er í gildi.
    Ég gat áðan um könnunarpróf. Það var talað um samræmd próf og það hefur verið talað um úttekt á skólastarfinu. Þetta er gott og blessað en kostar geysilega mikla peninga og ég spyr enn og aftur: Getur verið að ekki hafi verið nægilega áætlað í fjármálakaflanum fyrir því að vinna úr þessum könnunarprófum, til að undirbúa þau og búa til, til að vinna úr samræmdum prófum og ekki síst til að stuðla að þeirri úttekt sem á að fara fram á skólastarfinu? En það þýðir að yfir 40 grunnskólar á hverju einasta ári verða í úttekt ráðuneytis.
    Það hefur verið talað um það að hérna sé um að ræða mikla dreifstýringu á skólakerfinu. Þessi dreifstýring birtist ekki í störfum ráðuneytis og á þessu stigi verður kannski ekki hjá því komist að ræða aðeins um hlutverk fræðsluskrifstofu og þær breytingar sem urðu á stjórn grunnskólans við það að fræðsluskrifstofur komu til árið 1974. Það var talið mikið heillaspor og voru flestir sammála um það að með því móti væri verið að færa vald og áhrif út um landið. Það væri verið að dreifa áhrifum ráðuneytisins og störfum út í öll umdæmi landsins. Við þessa breytingu verður ákveðinn þáttur stjórnunar skólans í sveitarfélögunum og þá út um landið. Hins vegar mun þáttur ráðuneytis aftur færast hingað suður til höfuðstöðvanna. Ég sé ekkert í þessum frumvörpum og hef ekki heyrt nein áform um að störf ráðuneytis muni minnka við þessar breytingar eins og sumir hafa talið heldur sýnist mér að það séu býsna mörg verkefni sem ráðuneytið mun taka að sér í sambandi við t.d. við matið á skólastarfinu, sem ég var að nefna, eftirlitið, sem reyndar þyrfti að skilgreina miklu betur í þessum lögum. Hvernig á þetta eftirlit á að fara fram? Hvernig á að sinna því? Verða eftirlitsmenn á vegum ráðuneytisins? Verða þeir staðsettir í Reykjavík? Verða skrifstofur ráðuneytisins einhvers staðar úti um landið? Ekkert kemur fram um það í þessu frv.
    Það eru ýmis svona atriði sem ég held að sé nauðsynlegt að fá betur skýrð og komu ekki fram í framsögu hæstv. ráðherra áðan. Hér er ráðuneytinu falið geysilega mikið starf sem ég tel afturför ef allt á að færast suður til Reykjavíkur aftur miðað við það sem gerðist fyrir 20 árum með stofnun fræðsluskrifstofa og þeirri dreifingu á valdi og umsvifum ráðuneytis sem þá fór fram.
    Það er óhjákvæmilegt að ræða um þennan flutning þó að hann komi óbeint fram í frv. Eins og ég gat um áðan og kemur fram í umsögn þá er frv. fyrst og fremst samið vegna þessarar tilfærslu. Menn velta fyrir sér hvernig þeirri stoðþjónustu verði háttað sem byggð hefur verið upp í kringum fræðsluskrifstofur og verið hefur að þróast á undanförnum 20 árum og er orðinn mjög veigamikill og mjög nauðsynlegur þáttur í skólastarfinu. Hvernig verður þessu háttað? Það koma engin svör frá ráðuneyti, segja menn. Við getum ekki farið að segja sveitarfélögunum hvernig þau eiga að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin. Er það nú svo? Er hægt að ætlast til þess að ráðuneytið afhendi jafnmikilvæga, viðkvæma og nauðsynlega þjónustu og stoðþjónustu frá fræðsluskrifstofunum yfir til sveitarfélaganna án þess að hafa hugmynd um hvort eða hvernig henni verður framfylgt þar? Er ekki nauðsynlegt að fyrir þessa yfirtöku geri ráðuneytið þá kröfu til sveitarfélaga eða samtaka sveitarfélaga að einhver rammi liggi fyrir um hvernig fyrirkomulag verður á þessu? Það gengur ekki að láta reka á reiðanum fram undir það að verið er að biðja menn um að samþykkja frv. til laga um þessa breytingu án þess að jafnstórt atriði og þarna um ræðir sé með nokkru móti komið inn í umræðuna eða menn viti nokkuð hvað um það verður. Það er í rauninni ekki hægt að una við þetta.
    Það er rætt um að hugsanlega muni sveitarfélög sameinast um þessa þjónustu. En það veit enginn hvort þau gera það eða hvort einhver sveitarfélög í hverju umdæmi muni taka sig út úr og ákveða að hafa þessa þjónustu á eigin vegum og hin minni, eins og tekið er fram í lögunum, verða þá að sjá um þetta með aðkeyptri þjónustu eða öðrum þætti. Þá er kannski rétt að menn átti sig á því að það hefur verið mjög einkennileg þróun í launamálum á undanförnum árum sem lýsir sér í því að aðkeypt þjónusta er ekki lengur keypt með því að fá launaðan starfsmann sem vinnur. Nei, aðkeypt þjónusta er í vaxandi mæli verktakastarfsemi. Og þar gilda allt önnur lögmál. Í mörgum greinum verktakastarfsemi eru engir taxtar til heldur ræður framboð og eftirspurn. Lítil sveitarfélög sem þurfa að kaupa sér sérfræðiþjónustu með verktakatöxtum verða að reiða fram geysilega stórar fjárhæðir. Ég fullyrði það að margir starfsmenn sem fara á stúfana sem verktakar taka í verktakalaun á einni viku álíka tekjur og þeir hafa haft fyrir mánuðinn miðað við þau launakjör sem ríkið ákveður þeim við sín störf og fyrir þessu er hægt að leggja fram mörg dæmi. Ég tel að þessi þróun sé afskaplega slæm og hún geti verið innlegg í þetta mál vegna aðstöðuminni sveitarfélaga ef ekki verður sköpuð samstaða um að gera þetta.
    Þetta mál hefur allt saman dregist úr hömlu að vinna. Undirbúningur þessa frv. hefur tekið tvö og hálft ár. Átján manna nefndin hefur verið tvö og hálft ár að koma fram með þessa skýrslu og þetta frv. Nú er allt að verða komið í eindaga. Það var gerð samþykkt hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga fyrir tveimur mánuðum á landsþingi þeirra á Akureyri þar sem þeir höfðu skýra fyrirvara á þeirri afstöðu sinni að taka að fullu við rekstri grunnskóla. Þeir segja, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í fyrsta lagi að fullt samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga varðandi flutning verkefna og tekjustofna til sveitarfélaganna til að standa undir öllum þeim aukna kostnaði er yfirtökunni fylgir þannig að grunnskólanám allra barna í landinu verði tryggt.
    Í öðru lagi að vanda sveitarfélaga sem yfirtaka hlutfallslega háan grunnskólakostnað miðað við tekjur verði mætt með jöfnunaraðgerð.
    Í þriðja lagi að fullt samkomulag náist milli ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga kennara um kjara- og réttindamál kennara, þar með talin meðferð lífeyrisréttinda. Niðurstaða þarf að nást í þessum málum fyrir áramót svo yfirtaka sveitarfélaga geti átt sér stað á næsta ári.``
    Hvar standa svo þessi mál núna 1. nóv. 1994?
    Hæstv. ráðherra lýsti því yfir í lok ræðu sinnar að starfshópur sem á að vinna að þessum málum og hefði líklega átt að vera búið að skipa fyrir löngu hefur ekki verið skipaður enn þá. Spyrja má af hverju? Af hverju hefur hann ekki verið skipaður fyrr þar sem öllum er ljóst að þessi mál eru að falla á tíma? Hvernig standa mál varðandi yfirlýsingar Sambands ísl. sveitarfélaga um tímamörk núna 1. nóv. 1994 þegar tveir mánuðir eru þangað til uppfylla þarf þessi skilyrði?
    Það er ekkert komið í höfn með lífeyrismál kennara þrátt fyrir skýrslur þar sem gerðar hafa verið tillögur um þau. Það er alls ekki ljóst að sveitarfélög séu tilbúin að taka við æviráðningarsamningum kennara. Margir forsvarsmenn sveitarfélaga hafa lýst því yfir að það komi ekki til greina. Hvar standa menn þá? Ef það gerist ekki þá vitum við að ríkisstarfsmenn, kennararnir, eiga rétt á biðlaunum í 6--12 mánuði ef þeir fá ekki sömu kjör annars staðar. Ég hef grun um að ef allir starfandi skipaðir kennarar með full réttindi í þessum efnum þyrftu að fara á biðlaun þá væri það eitthvað á þriðja milljarð, líklega hálfur þriðji milljarður sem þyrfti að bæta þar við.
    Einn hópur hefur ekki verið nefndur í þessari umræðu. Það er starfsfólk á fræðsluskrifstofum. Þetta eru ekki starfsmenn skólanna heldur ríkisins. Þetta eru starfsmenn stofnana sem á að leggja niður 1. ágúst 1995. Það hefur ekki verið rætt við þetta fólk eða samtök þeirra. Það hefur ekkert verið gert. Þau hafa ekki hugmynd um hver staða þeirra er. Þau vita ekkert annað en það að þau heyra hvarvetna í þjóðfélaginu, bæði frá yfirboðurum sínum í ráðuneytinu, héðan af þingi og annars staðar að áformin eru að leggja störf þeirra niður eftir tæpt ár og þau hafa ekki hugmynd um hvað um þau verður. Það er ekkert ákvæði í þessum lögum og það er ekkert ákvæði né neinar klásúlur í þeim samningum sem hafa verið í athugunum. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur ekkert verið hugsað til þessa fólks og hver þeirra réttur er? Á ekkert að ræða við það? Á þetta fólk bara að taka örlögum sínum og þeim dómi sem það mun hljóta? Mér finnst að það hefði þurft að ræða við þetta fólk og þó fyrr hefði verið.
    Hér er búið að ræða um helstu almennu atriði sem snerta þetta frv. Nauðsynlegt væri að fara dálítið ítarlega yfir flestar greinar frv. Hérna verður þó tæpast tími til að gera það svo viðhlítandi sé en þó eru ýmis atriði sem ég hlýt að renna yfir og ræða hvert fyrir sig, t.d. 1. gr. frv. Þar stendur: ,,Sveitarfélögum er skylt að halda skóla`` o.s.frv., var áður ,,ríki og sveitarfélögum``. Auðvitað er það grundvallaratriði að áður en hægt er að samþykkja lög með þessu upphafi þá verða þau atriði sem ég hef drepið á að vera orðin nokkuð klár þannig að menn viti hvar þeir standa. Þá þarf að vera komið fjármagn, það þurfa að vera komnir samningar og í það stoðkerfi sem fræðsluskrifstofur og skólarnir hafa haft verða að vera komin einhver hrein skil hvernig verður. Maður veltir fyrir sér ákvæði um einsetningu skóla sem er svo sem ekki nýtt, en geta sveitarfélögin uppfyllt þetta ákvæði innan tímamarka? Hafa þau fjármagn til þess? Ég leyfi mér nú að efast um að það muni lánast. Það á kannski fyrst og fremst við um stærstu sveitarfélögin. Mörg hinna minni hafa fyrir löngu uppfyllt þetta ákvæði.
    Það var eitt sem ég rakst á í frv. þegar ég fór að fara yfir það: --- ,,Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma.`` Þetta er ágætis ákvæði en í skýringum stendur að þetta leggi þó ekki þær skyldur á herðar sveitarfélaga að útbúa aðstöðu fyrir málsverði. Það skýtur svolítið skökku við og svo virðist sem þessi málsgrein geti falið það í sér að nemendur komi með brauðsneiðina sína og mjólkurfernuna og þá sé búið að uppfylla þetta ákvæði. Þetta finnst mér einföldun og væri gott að fá betri skýringar á þessu. Í greinargerðinni er sem sagt rætt um að það eigi ekki að gera þessar kröfur til sveitarstjórna.
    Það er eitt sem mér finnst koma mjög víða fram í þessu lagafrv. sem ég tel að verði að gjalda mikinn varhug við. Það er hið mjög þunga vægi sem skólanefndir fá í stjórnum grunnskóla. Það er mjög

víða sem skólanefndir taka við hlutverki fræðsluskrifstofu eða fræðslustjóra sem í núgildandi lögum er úrskurðaraðili, hann og hans starfsfólk, sérfræðinga til að taka við málum og leysa þau. Núna hefur í mjög mörgum tilvikum skólanefnd verið falið þetta sérfræðihlutverk. Ég tel nauðsynlegt að það sé skoðað alveg sérstaklega hvort skólanefndir, jafnvel þótt fúsar séu og viljugar til að takast þetta ábyrgðarstarf á hendur, séu alltaf til þess hæfar. Ég leyfi mér að efast um það þar sem hér er um að ræða fagmennsku í skólum sem hæstv. ráðherrann gat um áðan að væri nauðsynlegt að auka. Hann tók það sérstaklega fram að fagmennsku yrði að auka í skólum, hjá kennurum, við ákvarðanatöku og hvarvetna. Þarna er atriði sem ég held að þurfi nauðsynlega að taka inn í nákvæmlega það sem rætt var um áðan. Ég efast um að þarna séu fagleg sjónarmið í fyrirrúmi.
    Þetta frv. felur í sér aukin völd til skólastjóra. Það kann að vera að mörgu leyti mjög æskilegt að það sé, eins og oft hefur verið rætt um, einn skipstjóri á skútunni. Hins vegar finnst mér vera gengið fulllangt þar sem í núgildandi lögum er skólastjóra þó gert að hafa samráð við ýmsa aðila en það er fellt út í frv. Ég held að það mundi nú ekki fela í sér neina hættu þó skólastjórar hefðu samráð við ýmsa aðila innan skólans. Þeir hefðu eftir sem áður valdið í sínum höndum en aðrir væru búnir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri sem ég held að væri mjög til bóta.
    Síðar er sagt að kennararáð sé skólastjóra til ráðuneytis. En maður veltir fyrir sér til hvers það ráðuneyti sé ef hann þarf ekki að hafa samráð við ráðið og hvort þessi grein sé svo sem til nokkurs.
    Ég hef getið um það áður að ég tel að ekki sé tekið nægilega á hvernig hlutverk ráðuneytis hvað snertir eftirlit og að fylgjast með starfi skólanna eigi að fara fram og þyrfti það að vera mun betur skilgreint. Ég heyrði það í ræðu hæstv. ráðherra að samtök foreldra hafa lagst gegn því að foreldra- og kennarafélög væru starfandi. Það kom mér nokkuð á óvart því eftir því sem ég hef heyrt hefur það form alla vega mjög víða gefist afskaplega vel. Mér þykir miður að sá möguleiki skuli ekki vera opinn áfram að foreldra- og kennarafélög séu starfandi en ég efast svo sem ekkert um að þessi tilmæli hafa vafalaust komið fram. ( Menntmrh.: Það er misskilningur að ég hafi sagt það.) Þá hef ég heyrt rangt, ég taldi mig hafa heyrt það.
    En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um annað atriði varðandi fræðsluskrifstofur sem hefur ekki komið fram heldur. Hvað með eignir fræðsluskrifstofa? Geta sveitarfélög eða samtök þeirra tekið við þeim á sama hátt og öðru húsnæði grunnskólans eða á sama hátt og þau eiga að taka við skólabúðum og ýmsu öðru? Það hefur ekkert komið fram um það. Þarna er þó um að ræða átta fræðsluskrifstofur sem umtalsverðar eignir tilheyra.
    Ég verð að hlaupa nokkuð yfir þar sem tíminn er orðinn nokkuð knappur. Mér finnst 28. gr., sem er afskaplega stutt, nokkuð óskýr. 28. gr. fjallar um jólaleyfi og páskaleyfi nemenda. Það eru engin ákvæði önnur um leyfi nemenda. Engin um að sett verði reglugerð eða skóladagatal varðandi þetta. Það er ekkert talað um hverjir eru aðrir frídagar. Nú þekkjum við að víða á heimavistarskólum hefur verið kennt á helgidögum þjóðkirkjunnar og ýmsum venjulegum frídögum, svo sem 1. maí, 1. des., sumardagurinn fyrsti hefur verið notaður til kennslu, og fjöldamargir aðrir dagar þar sem langt hefur verið að aka börnum heim. Er að vænta breytinga í þessu? Ég hefði viljað heyra aðeins um það.
    Mig langar til að spyrja um viðmiðanir varðandi kennararáð. Í 14. gr. er kveðið á um kennslumagn í stöðugildum til að setja megi á fót kennararáð við skóla. Aftur á móti er í 23. gr. talað um að tólf starfsmenn komi inn í stað tíu kennara áður til að komi, ef ég man rétt, aðstoðarskólastjóri --- er það ekki svo? ( Gripið fram í: Jú.) Jú. Þarna finnst mér vera misræmi og spyr: Af hverju er ekki notuð sama viðmiðun til að koma þessum tveimur þáttum á?
    Mér finnst mjög skrýtið að sérkennarar eru hvergi nefndir í frv. og sálfræðingar tæpast. Einkum og sér í lagi er það merkilegt með sérkennara þar sem fjöldamargir kennarar hafa verið að mennta sig á mörgum undanförnum árum til þess að hljóta starfsheitið sérkennari. Síðan kemur hér frv. að nýjum lögum þar sem þetta eftirsótta starfsheiti er ekki lengur til og ekkert notað. Ég spyr um ástæður fyrir þessu.
    Virðulegi forseti. Ég hef fjallað um ýmsa þætti þessa frv. og ég vænti þess að það muni taka ýmsum breytingum í meðförum þingsins. Væntanlega verða þær breytingar flestar eða helst allar til bóta.
    Meginatriði sem ég vil ítreka aftur er að ég tel eftirlitsskyldu ríkisins ekki skilgreinda nægilega vel eins og ég hef komið að áður. Mér finnst samstarfsvettvangur ríkisins og sveitarfélaganna vera of óljós og legg áherslu á að ríkið geri þá kröfu til sveitarfélaga að þau séu búin að gera grein fyrir hvernig þau ætli að sinna ýmsum þáttum skólastarfsins áður en af yfirfærslunni verður. Ég vek aftur athygli á því að starfsemi ráðuneytis verður miðstýrð eins og var fyrir 20 árum fyrir setningu laganna 1974 og það tel ég afturför. Mér finnst þetta frv. að sumu leyti stefna að vaxandi námsaðgreiningu og tel að það þurfi að gæta sín vel í þeim efnum. Ég leggst gegn því að samræmd próf verði tekin upp í 4. bekk. Aftur á móti fagna ég könnunarprófum, ég fagna greinandi prófum sem komið er á og tel það kannski æskilegasta stjórntækið sem við höfum í skólakerfinu.
    Ég vara enn við því að skólanefnd fái of mikið faglegt hlutverk eins og sagt hefur verið. Hún á nú að sinna meira innra starfi skólanna. Ef hún á að gera það verður líka að gera kröfur til að hún sé skipuð fólki sem hæft er til að gera það og hefur þekkingu til að fara með það. Stoðkerfi sem byggt hefur verið upp í kringum skólana, m.a. með starfi fræðsluskrifstofa, er í uppnámi og ekki með nokkru móti tryggt hvernig það verður í framkvæmd og það tel ég óviðunandi. Engin ákvæði eru um fjölda nemenda í námshópum en ég treysti að því verði breytt í samræmi við fyrri yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Það er ljóst að fjármagn er vanáætlað til þess að framkvæma þessi lög ef frv. verður samþykkt, einkum það sem snýr að kjaramálum kennara og endurmenntun eins og ráðherrann hefur reyndar lagt áherslu á að þurfi að bæta og ég fagna því.
    Ég minni á nauðsyn þess að dönskukennsla verði ekki afgangsstærð í skólunum. Þetta kemur að vísu ekki fram í frv. heldur í nefnd um mótun menntastefnu þar sem rætt er um að danskan verði ekki kjarnagrein en ég minni á nauðsyn þess að við störfum á norrænum grundvelli og við þurfum á norrænu tungumáli að halda í grunnskólum okkar.
    Að lokum ítreka ég að ég hef ekki lagst gegn færslu grunnskólans til sveitarfélaga að uppfylltum vissum skilyrðum en ég tel alveg nauðsynlegt að þau skilyrði séu uppfyllt áður en af þessari yfirfærslu verður. Hins vegar virðist auðsætt að svo langur vegur er að því marki að ekki verður unnt að ljúka þeirri vinnu í tæka tíð. Því legg ég eindregið til að tilfærslu grunnskólans verði frestað á meðan sú vinna fer fram sem nauðsynleg er áður en af henni getur orðið.