Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 14:02:43 (1148)


[14:02]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til að taka af öll tvímæli og leiðrétta misskilning sem hér hefur verið endurtekin þá er í yfirlýsingu formanns Sambands sveitarfélaga og framkvæmdastjóra annars vegar og fjmrh. hins vegar ásamt með þáv. félmrh. getið um það að sú nefnd sem skilaði áliti ekki fyrir margt löngu gerði það og í framhaldi af því yrði gengið frá samkomulagi milli ríkisstjórnar og Sambands ísl. sveitarfélaga um aðgerðir sem tryggja að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti sinnt hlutverki sínu. Það er nákvæmlega þetta sem er verið að gera þessa dagana. Það er verið að ræða við forsvarsmenn sveitarfélaganna um það

hvernig jöfnunarsjóður geti sinnt þessu hlutverki sínu. Það er því í fullu samræmi við þá yfirlýsingu sem aðilar urðu ásáttir um fyrir ári síðan.
    Til viðbótar því vil ég árétta að endurskoðun laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga er í undirbúningi í mínu ráðuneyti og sérstaklega vegna þeirrar niðurstöðu sem sú nefnd, sem ég gerði hér að umtalsefni og var að mestu skipuð fulltrúum sveitarfélaga, kom fram með. Þar eru ýmsar ábendingar sem að gagni mættu koma sem gerðu meðlagsgreiðendum auðveldara en ella að standa skil á sínum greiðslum. En ég vil þó undirstrika til að fyrirbyggja allan misskilning í þessu sambandi að hvorki þær hugmyndir né nokkrar aðrar hugmyndir lúta ekki að því að lækka á einn eða annan hátt greiðslur til framfærenda, þ.e. meðlagsþiggjenda. Það er ekki uppi á borðum neitt í þá veru.
    Virðulegi forseti. Hér eru þessi mál í þeim farvegi sem við mátti búast og ég gat um í bréfi sem sent var til sveitarfélaga í morgun frá félmrn. Málin eru í farvegi og ég árétta það og vonast til þess að við náum það farsælli niðurstöðu í viðræðum við sveitarfélög með aðild fjmrn.