Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 15:33:44 (1158)


[15:33]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er að verða gamall kunningi, því miður liggur mér við að segja, þetta frv. eða tilraunir til að setja inn í jarðalögin íslensku einhver ákvæði sem tengjast mjög svo umræddu og umdeildu frelsi útlendinga til að kaupa hér upp fasteignir og jarðnæði þar með talið og er fylgifiskur samningagerðarinnar við Evrópusambandið um Evrópskt efnahagssvæði.

    Satt best að segja er það svo að þegar frá líður og maður veltir því fyrir sér þá eiginlega undrar mig alltaf meira og meira þessi umræða um girðingar. En e.t.v. er ástæðulaust annað en að taka því eins og það er. Það hefur greinilega tekið alllangan tíma að átta sig á því og kyngja þeirri umhugsunarverðu og ískyggilegu staðreynd, má kannski segja, að með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, svo ekki sé talað um ef við rötuðum alla leið inn í Evrópusambandið, er verið að afnema ríkisborgararéttinn í reynd gagnvart öllu samningssviðinu. Það er verið að afnema ríkisborgararéttinn í þeim skilningi að eftir tilkomu samningsins er óheimilt bæði að lögum og í framkvæmd að mismuna mönnum á grundvelli ríkisfangs. Ef menn hefðu frá upphafi nálgast umræðuna um þessa girðingagerð í íslenskri löggjöf á þessum forsendum þá held ég að það hefði einfaldað umræðuna. Þá hefðu menn ósköp einfaldlega staðið frammi fyrir því strax í byrjun og vitað að um slíkt væri ekki að ræða. Öll leit manna að girðingum af einum eða öðrum toga yrði fyrir fram dæmd vonlaus, væri árangurslaus vegna þess að fram hjá þessari jafnræðisreglu ríkisborgaranna á öllu samningssvæðinu mundu menn ekki komast.
    Þetta er niðurstaða annarra þjóða, bæði að lögum og í reynd, þ.e. menn hafa nú orðið yfirleitt viðurkennt að það þýðir ekki að ganga gegn þessum ákvæðum Rómarsáttmálans sem tryggja mönnum þetta frelsi á samningssvæðinu. Menn hafa í reynd orðið að sætta sig við það að hafi þeir haft uppi tilburði til að ganga gegn þeim þá hafa þeir tilburðir verið dæmdir ólöglegir. Þetta er niðurstaðan. Þetta er reynsla Íra, Grikkja, Dana og fleiri þjóða sem lent hafa í sambærilegum átökum við Brusselvaldið og dómstólinn í Lúxemborg.
    Í raun er það þess vegna vonum seinna að menn taki málið hér upp til þeirrar umræðu sem því ber að vera á og vel að merkja hefur verið í dag því nú virðist þessi staðreynd öllum orðin ljós. Við erum ekki að ræða um hluti sem geta mismunað íslenskum ríkisborgurum og erlendum. Við erum eingöngu að ræða um það hvort við ætlum að setja einhverjar þær takmarkanir í löggjöfina varðandi möguleika einstaklinga almennt til þess að kaupa jarðir eða stunda atvinnustarfsemi sem verða okkur eitthvert hald gagnvart því að útlendingar auki ekki umsvif sín umfram það sem við viljum. Enda viðurkennum við þá um leið og vitum að þær takmarkanir gilda jafnt gagnvart Íslendingum. Það er alveg stórkostleg framför í umræðunni, hæstv. forseti, að hún sé komin á þetta spor.
    En það var ekki í byrjun og hér stóð mikil umræða um það hvort við gætum sett einhverjar girðingar sem gagn væri að og það var jafnvel uppi um tíma fáfengileg umræða um ásakanir á báða bóga um að menn hefðu vanrækt það að setja slíkar girðingar í lög áður en samningurinn tók gildi. Nú er það augljóst öllum sem til þekkja að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði spyr ekki um aldur laga þegar hann ryður þeim úr vegi. Við höfum staðið í því þingmenn undanfarin missiri að breyta íslenskri löggjöf á fjölmörgum sviðum, ýmist ákvæðum frá því fyrir tiltölulega fáum árum en einnig áratuga --- og jafnvel aldagömlum ákvæðum sem hafa brotið í bága við hinn nýja rétt. Það var auðvitað sömuleiðis mjög fáfengileg umræða. Það er ósköp einfaldlega þannig að annað hvort samrýmast íslensk lög ákvæðum samningsins burt séð frá því hvenær þau voru sett eða þau gera það ekki. Ef þau gera það ekki þá erum við samningsbundin til að breyta þeim.
    Þetta tvennt held ég að sé nauðsynlegt að undirstrika í byrjun umræðunnar, hæstv. forseti. Þegar við göngum út frá þessari jafnræðisreglu þá eru málin orðin tiltölulega einföld og það er á grundvelli þeirrar niðurstöðu minnar í þessari greinargerð sem ég tók saman í kjölfar mikillar umræðu um málið fyrir um tveimur árum síðan að ég komst að þeirri niðurstöðu sem var mér ekkert ný, ég hafði allan tímann haft þá skoðun, að það hefði verið mikið slys að við Íslendingar náðum ekki inn í samninginn, að svo miklu leyti sem menn verða að búa við hann um skeið, varanlegum fyrirvara varðandi réttindi útlendinga til fjárfestingar í fasteignum og jörðum þar með talið. Það var meiri háttar slys og það er merkilegt að menn skyldu klúðra því þegar til að mynda Danir hafa þó þrátt fyrir allt vaðið í gegnum alla samningagerð sína við Evrópubandalagið með sumarbústaðaákvæðið sitt fræga, og þar með talið í gegnum Maastricht-breytingarnar. Nú er svo merkilega komið að þau hinna Norðurlandanna sem hugsanlega ganga í Evrópusambandið á næsta ári gera það án þeirra undanþága sem Danir hafa vegna þess að þeir hafa staðið í lappirnar í þessari

samningagerð og m.a. tekist að verja talsvert stöðu sína gagnvart stórum og sterkum nágrönnum sem þeir hafa óttast að mundu ásælast jarðnæði í Danmörku.
    Deila um hvort það að þessi fyrirvari félli út eins og fjölmargir aðrir fyrirvarar sé á ábyrgð fyrri eða núverandi ríkisstjórnar er náttúrlega fáfengileg. Staðreynd málsins er einfaldlega sú, það liggur ljóst fyrir, að fyrri ríkisstjórn hélt til streitu kröfunni um þessar undanþágur. Hæstv. utanrrh., sem þá var og er enn, því miður, Jón Baldvin Hannibalsson, fékk aldrei heimild til þess í fyrri ríkisstjórn að falla frá þeim fyrirvörum sem Íslendingar höfðu haldið inni í samningunum. Þá heimild fékk hann hins vegar á sérstökum aukafundi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar 5. maí 1991. Það liggur fyrir opinberlega að þá var afgreitt samningsumboð til handa utanrrh. og í því fólst að falla frá öllum fyrirvörum nema þessum eina sem snýr að sjávarútvegi í stað þess að fá inn hið almenna öryggisákvæði í 127. gr. samningsins eða hvað það nú er.
    Þetta er rétt að rifja upp af því að enn eru uppi svolitlir tilburðir til að barna söguna eitthvað í þessum efnum eins og til að mynda hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich áðan.
    Þá þarf vonandi ekki að eyða lengri tíma í það.
    Aðeins til að ræða síðan það sem sett er á blað í frv. þessu. Er í því eitthvert það hald, skiptir það einhverju því máli að við viljum standa í því að setja takmarkanir af þessu tagi í lög sem augljóslega koma talsvert við möguleika okkar Íslendinga sjálfra til nýtingar á landi eða afnot til að mynda þéttbýlisbúa af jarðnæði? Ég sé ekki að það þjóni miklum tilgangi nema það a.m.k. uppfylli þau markmið sem við erum að tala um, að verja okkur að einhverju leyti fyrir hugsanlegri ásókn útlendinga á þessu sviði. Ég óttast að því miður reynist þetta næsta haldlítið. Ég segi ekki haldlaust en næsta haldlítið. Þar vil ég nefna sérstaklega að ákvæðið í fyrsta lagi um búsetu manna á jörðunum eftir að þeir hafa keypt þær næstu fimm ár eða svo er að sjálfsögðu eftirákvöð. Það er þannig að þú getur ekki stoppað af einn einasta kaupsamning á grundvelli þessa ákvæðis því hver sem er getur haldið því fram að hann ætli að flytja á jörðina og búa þar. Það getur enginn stoppað neitt af á grundvelli þess að þú hafir einhvern grunaðan um að ætla ekki að efna ákvæði af þessu tagi. Það er ekki hægt. Það er ekki boðleg málsástæða. Í fyrsta lagi heldur það því ekki. Enginn aðili, sveitarstjórn eða ríkisstjórn, mun geta beitt því. Því Herr Wolfgang eða Monsieur Le --- eitthvað sem koma frá Þýskalandi og Frakklandi geta einfaldlega sagt ég ætla að flytja á jörðina. Ég hef uppi áform um það að flytja á jörðina í lok ágúst með minni ráðskonu og ráðsmanni. (Gripið fram í.) Því skyldu þau ekki gera það? Kannski kemur einhver vesæll Fransmaður sem er ráðsmaður hjá Herr Wolfgang og Herr Wolfgang flytur sitt heimilisfang. Hver ætlar að fylgjast með því hve oft hann sefur á staðnum? Allt svo, þetta er svona. Þetta ákvæði mun reynast ákaflega erfitt að eiga við.
    Auðvitað mun það líka eiga við gagnvart Íslendingum. Menn munu þá leika það að færa sína búsetu að nafninu til, koma sér upp einhverri starfsemi á viðkomandi stað og það verður ákaflega erfitt að fylgjast með því.
    Í öðru lagi með ákvæði 5. gr., sem er sú grein sem ég hafði bundið langmestar vonir við að tækist að útfæra þannig að í því væri nokkurt hald, þ.e. að það sé hægt að setja menntunarkröfur eða starfsreynslukröfur sem séu raunhæfar, þ.e. að þær séu ekki úr lausu lofti gripnar, þær séu í einhverjum eðlilegum efnislegum tengslum við atvinnuveginn. Auðvitað er hægt að halda því fram mjög auðveldlega að ekki sé heppilegt að menn fari að starfa í þessari grein og taka upp búskap nema þeir hafi annaðhvort einhverja menntun eða starfsreynslu á viðkomandi sviði. Þá er það ákvæði sett inn að þetta skuli ekki samþykkt nema viðkomandi hafi starfað í landbúnaði í fjögur ár og þar af tvö ár hér á landi. En þá kemur að því að ég hef því miður stórfelldar efasemdir um að þetta muni standast. Þetta ákvæði frv. tel ég að sé veikast af þeim sem þarna eru á ferðinni. Fyrst og fremst vegna þess að það muni verða að því spurt hvaða menntun eða starfsreynsla í landbúnaði annars staðar er sambærileg við þetta. Ef hingað kemur þýskur búfræðingur sem hefur óumdeilanlega mikla menntun í landbúnaði og hann hefur jafnframt starfað við landbúnað kannski bæði í Danmörku og Þýskalandi, á blönduðum búum og guð má vita hvað og segir: Ég fullyrði að mín menntun og mín starfsreynsla er fullnægjandi gagnvart þessu. Hún

er sambærileg. --- Hvað ætla menn þá að gera --- ekki Danir heldur Íslendingar? Hvað gera Íslendingar þá? Þá mundi væntanlega koma til þess: Er okkur stætt á því að binda þetta við starfsreynslu í landbúnaði á Íslandi eða væri okkur stætt á því að binda þetta við menntun í Bændaskólanum á Hvanneyri? Hvað með Bændaskólann í Ási eða einhvers staðar annars staðar?
    Það er til svar við þessu, það er ósköp einfaldlega bæði dómar og praxís sem hefur myndast sem eru á þann veg að menn hafa neyðst til þess að viðurkenna jafngilda menntun frá öðrum löndum samningssvæðisins eða jafngilda starfsreynslu. Ef menn trúa þessu ekki þá ættu þeir að taka dönsku reglugerðina sem hér var vitnað í af hæstv. ráðherra, það vill svo til að ég hef undir höndum eintak af henni, að vísu frá árinu 1989 en ég veit ekki til þess að hún hafi breyst síðan. Þar er það einfaldlega þannig að fyrst eru talin upp þau skilyrði og þær kröfur sem hægt er að gera til manna um menntun, um starfsþjálfun í dönskum landbúnaði o.s.frv., en síðan segir að ríkisborgarar í landi sem tilheyra Evrópusambandssvæðinu skulu annaðhvort hafa gengið í gegnum sambærilega landbúnaðarmenntun sem, eins og þar segir, --- ,,der kan sidestilles med . . .  `` einni af kröfunum sem taldar eru upp eða uppfylla kröfur um starfsþjálfun í landbúnaði. Með öðrum orðum er reglugerðin undanþæg að því leyti til að hafi menn sambærilega menntun eða starfsþjálfun einhvers staðar í löndum Evrópusambandssvæðisins þá er ekki hægt annað en að taka það gilt.
    Þetta held ég því miður að yrði niðurstaðan í framkvæmd 5. gr. Við því er þá í sjálfu sér ekki mikið að segja. Það væri þá einfaldlega þannig sem það verkar.
    Og þá að lokum um forkaupsréttinn. Þar fannst mér að vísu þess gæta að menn væru enn á pínulitlum villislóðum því út á hvað gengur umræðan um að forkaupsréttinum megi beita í þessu sambandi? Mér virðist að hún gangi út á það að ríki eða sveitarfélög gætu keppt við útlendinga um kaup á jörðum en ekki í öðrum tilvikum en það er ekki svo. Það gengur ekki. Það er einfaldlega þannig að ef menn vilja beita forkaupsréttinum til að afstýra því að jarðir lendi í eigu einstaklinga þá verða menn að gera það í öllum tilvikum án mismununar. Það er alveg ljóst vegna þess að jafnræðisregla 4. gr. EES-samningsins og sambærileg ákvæði Rómarsamningsins gilda ekki bara að lögum heldur líka í framkvæmd, þ.e. öll framkvæmd stjórnsýslunnar verður líka að standast jafnræðisregluna. Það er alveg augljóst mál að ef útlendingar sem byðu hér í jörð yrðu fyrir því að ríkið neytti forkaupsréttar en gætu hins vegar sýnt fram á að í sambærilegum tilvikum þegar Íslendingar áttu í hlut hafi þeim forkaupsrétti ekki verið beitt mundu geta kært þá stjórnsýsluframkvæmd á grundvelli jafnræðisreglunnar og það þyrfti ekkert að efast um úrslitin.
    Þetta er alveg skýrt. Þess vegna er það misskilningur að forkaupsréttarákvæðum sé hægt að beita þannig að í því felist sérstaklega vörn gagnvart ásælni útlendinga. Ef menn vilja taka um það pólitíska ákvörðun að kaupa allar jarðir sem losna til þess að afstýra því að þær fari yfir höfuð í einstaklingseigu og það geri ríki eða sveitarfélög eftir atvikum þá er það aðferð út af fyrir sig. Með því eru menn ósköp einfaldlega að segja: Við ætlum að taka allt það land í opinbera eigu sem skiptir um hendur í þessum tilvikum. Það held ég að mundi nú standa í mönnum.
    Síðan er eitt enn í þessu sem ég held að sé nauðsynlegt að minna á og það er réttarþróunin í þessum málum. Hún er nefnilega á fullri ferð og út á hvað gengur hún? Hún gengur öll út á það að uppræta og afnema hindranir einmitt af þessu tagi sem menn hafa verið að laumast til að leggja í götu Evrópusamrunans. Það eru í gildi sérstakar tilskipanir og áætlanir innan Evrópusambandsins, sem eru orðnar um leið hluti af réttinum á Evrópska efnahagssvæðinu, sem hafa það markmið að uppræta þessar hindranir. Ég vil þá nefna sérstaklega almennu áætlunina um afnám hafta á staðfesturétti og þar er sagt að ráð Efnahagsbandalags Evrópu hafi komið sér saman um eftirfarandi aðgerðir svo og svo og almenna áætlun um afnám hafta á staðfesturétti innan svæðisins. Þetta höfum við auðvitað tekið í arf ásamt öðru dóti í þessu mikla lagasafni sem hér hefur verið tekið upp. Síðan er nákvæmlega farið yfir það hvaða hindranir, af hvaða tagi, beri serstaklega að uppræta á næstu árum og þar á eftir. Þar er til að mynda sagt: ,,Verða eftirtalin höft afnumin í samræmi við tímaáætlunina sem mælt er fyrir um í 4. bálki.`` Og d-liður er: ,,Setja skilyrði um tiltekin búsetu- eða þjálfunartímabil í gistilandinu fyrir því að einstaklingur hefji eða stundi sjálfstæða starfsemi.`` Það er akkúrat tilgreint að höft af því tagi, sem byggjast á, eru fólgin í skilyrðum um búsetu eða þjálfunartímabil í gistilandinu, skuli uppræta og það er eftir þessu sem Evrópudómstóllinn dæmir. Þannig að hann er með fyrirmæli um að vera ekki hlutlaus í þessum málum. Evrópudómstóllinn er afar sérstakt fyrirbæri að þessu leyti til að hann dæmir á grundvelli tiltekinnar stefnu um þróun sem honum ber að reyna að þvinga fram með dómum sínum. Hann er ekki hlutlaus, hann er ekki passívur úrskurðaraðili á grundvelli kyrrstæðrar löggjafar. Ó nei, það er ekki aldeilis það. Hann er með fyrirmæli um að dæma í þágu Evrópusamrunans, enda er það niðurstaðan að hann dæmdi Írum í óhag, hann dæmdi Dönum í óhag og hann dæmdi Grikkjum í óhag í sambærilegum málum og þessu hér sem við erum að ræða um. Þannig að ég er ekki, því miður, í neinum vafa um það að ef t.d. misbeiting forkaupsréttarákvæðanna kæmi til kasta dómstólsins þá mundi hann dæma þeim í hag sem teldu að ákvæðunum hefði verið misbeitt. Þetta er nú gallinn, því miður, hæstv. forseti.
    Að lokum ítreka ég að það var og er sannfæring mín að það eina sem hefði dugað okkur Íslendingum í þessum efnum var varanlegur fyrirvari gagnvart fjárfestingum eða kaupum á fasteignum á landi. Og ég sé ekki ástæðuna fyrir því að mismuna þannig auðlindunum í landinu að verja þennan fyrirvara gagnvart sjávarútveginum, sem að sjálfsögðu var gott og nauðsynlegt, en gera það ekki t.d. gagnvart þeirri miklu auðlind sem landið er og sem í mínum huga er e.t.v. nátengdara fullveldi og sjálfstæði nokkurrar þjóðar en flestir aðrir hlutir, fyrir utan söguna og tunguna, þ.e. að ráða sjálf því landi sem þjóðin býr á. Þess vegna er þetta auðvitað stórmál sem hér er á ferðinni og besta leiðin til að komast út úr þessum ógöngum væri auðvitað að endursemja um þessi mál við Evrópusambandið í tvíhliða samningi, þar sem við næðum á nýjan leik fullu forræði á þessum þáttum málsins.