[16:57]
Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
Virðulegi forseti. Mig langar til að beina spurningu til hæstv. félmrh. Nú gerðist það hér fyrir skömmu að það átti sér stað hópuppsögn hjá Leikfélagi Reykjavíkur og það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, ef ráðherrann getur séð það í hendi sér, hvort þessi lög mundu ná til slíkra uppsagna. Hvernig yrði réttur þeirra tryggður í þessu samhengi eða hvert nær þessi réttur? Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þetta mál. Þetta heyrir ekki undir þær nefndir sem ég á sæti í en þetta er svona nýjasta dæmið sem ég man eftir um hópuppsagnir. Hópuppsagnir eru reyndar mjög sjaldgæfar hér nema í frystihúsum, alla vega eftir því sem ég best veit, þar sem þeim hefur stundum verið beitt þegar hráefni skortir. En getur ráðherrann svarað þessu varðandi þetta tiltekna dæmi?