Áhrif EES-samningsins á forsendur fjárlaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:48:52 (1235)


[16:48]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég hef fáu við að bæta það sem ég sagði áður um þetta mál. Ég held að allir séu sammála um að til samstarfs eins og þjóðirnar eiga með sér um Evrópska efnahagssvæðið er auðvitað efnt til hagsbóta fyrir viðkomandi þjóðir, til að greiða fyrir viðskiptum en með því má sannarlega laga lífskjörin.
    Varðandi tollalækkunina þá er verið að tala um tollalækkun á íslenskum sjávarafurðum og öðrum afurðum í löndum Evrópska efnahagssvæðisins. Tollalækkunin getur numið kannski 1,5 milljörðum miðað við þau viðskipti sem áttu sér stað fyrir einu eða tveimur árum síðan. Þessi tala skilar sér að sjálfsögðu ekki með beint í ríkissjóð, hún skilar sér með betri samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, aukinni atvinnu og síðan óbeint í ríkissjóð teknamegin. Ég get ekki staðfest þessa tölu, 800 millj. kr., en ég ætla ekki að efast um að hún sé rétt. ( GHelg: Hún er í bréfi frá fjmrn.) Já, já, ég sagðist ekki efast um að hún væri rétt. Þó ég skrifi ekki allt sem kemur frá fjmrn. þá ber ég að sjálfsögðu ábyrgð á því. En við verðum að vara okkur á öðru og það er að að sjálfsögðu hefðu erlendu samskiptin kostað okkur ef við hefðum ekki gerst aðilar að EES. Þessi tala er því brúttótala en ekki nettótala.
    Ég bendi á að sum ráðuneytin hafa komið sér upp fastafulltrúa í Brussel sem ég held að henti ágætlega þegar um mikil viðskipti er að ræða sem eru þess eðlis að sérfræðinga þarf til aðstoðar í sendiráðinu. Ég nefni til sögunnar að fjmrn. hefur einn slíkan fulltrúa.
    Varðandi framtíð EES er það hárrétt sem hv. þm. sagði. Munurinn á okkur og Svisslendingum er þó sá að Svisslendingar höfnuðu aðild að EES. Íslendingar eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalagið hefur lýst yfir að það muni standa við samninga við Íslendinga, samninga sem Svisslendingar hafa ekki.