Húsaleigubætur

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:41:50 (1260)


[17:41]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að undirstrika það hver staða leigjenda hefur verið í þessu landi fram að þessu. Réttarstaða þeirra hefur verið ákaflega óljós, um að ræða háa leigu og lítið framboð. Margir hafa líkt þessu ástandi hins almenna leigumarkaðar við ákveðinn frumskóg. Ég hygg að það séu allir um það sammála að brýnt sé að taka á þessum málum. Lögin um húsaleigubætur gera það svo sannarlega. Ég get hins vegar tekið undir það og menn geta haft á því ýmsar skoðanir frá einum tíma til annars hvernig best verði að framkvæmd þessara laga staðið frá einum tíma til annars. Ég gat hins vegar um það og ég ætla að undirstrika það að nefnd ráðuneytisins og fulltrúa sambands sveitarfélaga fór til þeirrar vinnu að ganga frá reglugerð, framkvæmd reglugerðar um það hvernig best væri að standa að þessu. Sú nefnd mun starfa áfram og fylgjast grannt með þróun þeirra mála. Þannig að þetta samráð og samvinna við forsvarsmenn sveitarfélaga hefur farið fram.
    Ég vil einnig árétta að vitaskuld hafa sveitarfélögin látið sig varða hag leigjenda, að vísu í misjafnlega miklum mæli, hafa gert það í gegnum framfærslustyrki, kvarðastyrki, og greitt húsaleigubætur þótt með óbeinum hætti hafi verið. Þannig að þetta verkefni er þeim allendis ekki ókunnugt. Þau hafa verið að taka á þessu máli, gera það með myndarlegri blæ núna, þ.e. þau sveitarfélög sem tóku um það pólitíska ákvörðun að láta leigjendur í viðkomandi sveitarfélagi njóta þessarar réttarbóta.
    Ég segi það, virðulegi forseti, að ég hygg að leigjendur í landinu, þeir sem munu njóta þessara bóta frá og með næstu áramótum, hlusti mjög grannt á þessi viðhorf þingmanna sem hér heyrast og auðvitað á viðhorf þeirra sveitarstjórna sem tóku um það pólitíska ákvörðun eins og lögin heimiluðu þeim að greiða ekki út þessar bætur. Þau verða auðvitað að standa til svara gagnvart sínum umbjóðendum ( KHG: Líka Alþýðuflokkurinn.) og segja þá: Vegna þess að stjórnkerfið kemur sér ekki saman um hvernig að skuli standa þá fáið þið ekki neitt. Ég sagði það hér áðan að meiri hagsmunir eigi að vera ríkjandi gagnvart minni hagsmunum. Þeir hagsmunir eru stærstir í þessu máli að þessi réttarbót, þessar bætur til leigjenda í landinu, komi til þeirra. Að því mun ég vinna.