Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 19:11:59 (1295)


[19:11]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það sem hér er verið að ræða um snertir að talsvert miklu leyti það samningaferli sem leiddi til samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég held að það sé rétt að minna á það hér og nú að þetta samningaferli hófst árið 1989 í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og þá voru settir m.a. af hæstv. þáv. forsrh. sjálfum, Steingrími Hermannssyni, ákveðnir fyrirvarar og þar á meðal um landakaup. Í þessu samningaferli sem var bæði langt og strangt miðaði störfum þannig að þegar ríkisstjórnarskipti urðu á vordögum 1991 var búið að ljúka verulegum hluta samningaferlisins. Í flóknum samningum sem þessum þá er það svo að þegar einum áfanga er lokið þá er miklum erfiðleikum háð og nánast ómögulegt að brjóta upp ferlið á nýjan leik. Hvert skref sem stigið er í þessu samningaferli er þannig að þeir sem þá standa að samningunum bera ábyrgð á því skrefi, á hverju skrefi sem stigið er og þeir bera þá jafnframt ábyrgð á þeim erfiðleikum sem upp kunna að koma þegar skrefin hafa verið stigin.
    Hér hefur verið rætt um það hvenær almennur fyrirvari um landakaup hafi verið felldur út. Það liggur ljóst fyrir, m.a. úr umræðum hér á þinginu að þessi almenni fyrirvari var felldur út í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, því miður. Ég harma að það skuli hafa verið gert og er þar af leiðandi sammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það hefði verið betur gert að halda slíkum fyrirvara inni en ég undirstrika það að sá fyrirvari var felldur út í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það var einmitt vegna þess að hæstv. þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, vissi af þessu, að hann gerði ráð fyrir því að það þyrfti að setja sérstakar girðingar í lög. Hann meira að segja ásakaði hæstv. þáv. landbrh., Steingrím J. Sigfússon, fyrir að hafa ekki unnið í þessu máli sem skyldi. Þannig að menn voru þá vitandi um þennan vanda.
    Hins vegar var það mjög áberandi að í kosningabaráttunni var lítið um þetta rætt, m.a. af hálfu alþýðubandalagsmanna sem héldu sig mjög til hliðar í þessum umræðum.
    Það var einnig ljóst að af hálfu stjórnvalda hafði ekki farið fram nein rækileg könnun á réttarstöðu okkar í þessum efnum. Menn sigldu því í myrkri í þessu máli í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og lögðu sig ekki í líma við að kanna þessa réttarstöðu. Það var fyrst í tíð núv. hæstv. landbrh., Halldórs Blöndals, sem farið var að kanna gaumgæfilega réttarstöðu okkar í sambandi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fasteignir á Íslandi. Þessi könnun, sem þingmenn hafa haft til athugunar og þekkja vel, sýnir fram á það að fjárfestingarrétturinn, rétturinn m.a. til þess að kaupa jarðir á Íslandi, hefur ekki sjálfstætt gildi heldur er hann metinn, að mati sérfræðinganna, í ljósi fjórfrelsisins. Með öðrum orðum að frelsið til þess að fjárfesta er leitt af réttinum til þess að starfa á Íslandi og til þess að kaupa sér þær eignir sem nauðsynlegar eru vegna atvinnurekstrar á Íslandi eða búsetu. Þetta er því afleiddur réttur og háður hinum þáttum fjórfrelsisins. Þetta skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli vegna þess að þá þýðir þetta það að utan við réttarstöðu samningsins hafa íslenskir ríkisborgarar annan rétt og meiri heldur en erlendir ríkisborgarar.
    Ég geri fastlega ráð fyrir því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson geti tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það sé full ástæða til þess að þrengja ekki lög á Íslandi um jarðakaup meira en nauðsyn krefur og að það sé rétt að ganga ekki inn á það réttarsvið Íslendinga sem er óháð samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það kom skýrt fram hér á hinu háa Alþingi í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hann var mér sammála um að það ætti að gæta að þessu.
    Nú er það ljóst að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur alltaf haft nokkra sérstöðu í þessum málum og ég tel að það sé ljóst hér og hafi alla tíð verið ljóst að hann dró meira lappirnar í þessu samningaferli heldur en aðrir þingmenn Alþb. á meðan Alþb. bar fulla ábyrgð á þessu samningaferli. Hann gerði það. Engu að síður er mér ekki kunnugt um annað en að hann hafi stutt ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þar til stjórnarskiptin urðu þannig að hann ber fulla ábyrgð á því að þessir fyrirvarar um landakaupin fóru út og menn gerðu þá ráð fyrir því að það þyrfti að grípa til girðingarstarfsemi með lögum en það var ekki gert og það var ekki undirbúið. Það var ekki einu sinni kannað hver réttarstaða okkar væri. Á þessu ber hv. þm. fulla ábyrgð.
    Að sjálfsögðu ef hann hefði metið það svo að þetta væri frágangssök í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, þá hefði hann hætt stuðningi við ríkisstjórnina miðað við það vægi sem hann nú gefur þessu máli. Það var ekkert vitað um það á vordögum 1991 hversu langt réttarstaðan sem samningnum fylgdi næði. Það var ekkert vitað þá. Ýmsir menn voru með áhyggjur af því og þar á meðal sá sem hér stendur og hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Við nánari athugun málsins, sem var að frumkvæði hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh. núverandi þá kemur í ljós að réttarstaða okkar Íslendinga í þessu máli er ekki eins veik og hún virtist vera. En það tek ég skýrt fram að auðvitað hefði verð miklu þægilegra fyrir Íslendinga ef fyrrverandi ríkisstjórn hefði borið gæfu til að halda þessum almenna fyrirvara inni en það gerði hún ekki.
    Þetta vildi ég að kæmi fram hér vegna þess að hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, hefur þráfaldlega talað um það hér að ég hafi ekki staðið við þau orð sem ég lét falla árið 1991.

Hann las þau upp hér áðan og vitnaði réttilega í þau. Og þar er einungis talað um það að ég muni ekki fallast á það að þessi réttur verði hinn sami fyrir íslenska ríkisborgara og aðra ríkisborgara. Álitsgerðin sem ég vitna hér í, hinna þriggja ágætu lögfræðinga, er gefin út í júní 1992. Þar með lágu þessar upplýsingar fyrir um mat þeirra á eðli samningsins og réttarstöðu Íslendinga. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var samþykktur ef ég man rétt 13. jan. 1993 þannig að áður en gengið var til atkvæðagreiðslu um það, þá lá þessi réttarstaða fyrir. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur fulla heimild til þess að finnast lítið til þessa koma. Hann hefur fulla heimild til þess. Hann hefur einnig fulla heimild til þess að draga í efa að okkur takist að standa á þessu, en það eru staðhæfingar hans gegn áliti sérfræðinganna.