Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 18:55:00 (1324)


[18:55]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hér liggur frammi frv. um framhaldsskóla og nýlokið er umræðu um grunnskólafrv.
    Með grunnskólafrv. var ákveðnum tilgangi yfir lýst í greinargerð, þ.e. fyrst og fremst flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna. Í þeirri umræðu gat ég um þá skoðun mína að þar væri of mörgu blandað inn til breytinga á lögunum. Það sem maður hlýtur að velta fyrir sér þegar þessi tvö frv. eru hér til skoðunar er spurningin um stefnu í skólamálum, stefnu til lengri tíma litið og maður hlýtur að spyrja sig: Á að taka upp þá stefnu eða e.t.v. má segja --- á að viðhalda henni, að marka nýja stefnu, nýja stefnu fyrir hverja stjórn sem situr og miða allar áherslur í skólamálum og öll grundvallaratriði skólastefnu þjóðarinnar eftir hverri þeirri hræringu sem verður í stjórnarmyndun hverju sinni? Ég spyr af tilefnum sem eru gefin. Í tíð síðustu stjórnar var m.a. mótuð stefna sem birtist í riti sem hét Til nýrrar aldar í skólamálum

fram til aldamóta. Það var mikið rit að vöxtum. Ég er svo sem ekki að halda því fram að sú stefna og það rit hafi verið gallalaust enda er það ekki til umfjöllunar hér. Það var ekki farið að vinna eftir þeirri stefnu þegar skipt var um stjórn. En það sem mér finnst gagnrýnivert bæði þá og kannski oft áður er að það var allt lagt til hliðar sem unnið hafði verið, öll þau gögn sem voru fyrirliggjandi voru lögð til hliðar og þessi mikla vinna sem þá hafði verið unnin um alllangan tíma var ekki lengur notuð. Þessi skýrsla innihélt mikið af gagnlegum upplýsingum og mér er kunnugt um að margir nemendur sem voru í námi við Kennaraháskóla Íslands leituðu eftir upplýsingum sem var að finna í þessari skýrslu og mér er líka kunnugt um að þeir leituðu eftir skýrslunni í menntmrn. og talið var að þar væri nægilegt magn til af henni en þá brá svo við að ekkert af henni fannst það virtist svo sem þessi skýrsla og öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem þar var að finna væru horfin með öllu. Þetta finnst mér vera afar sérkennilegur hlutur og full ástæða til að gagnrýna.
    Fljótlega var síðan settur í gang annar vinnuhópur til þess að vinna e.t.v. það sama starf en e.t.v. út frá öðrum forsendum. Ég held að þessi vinnubrögð séu ekki nægilega góð. Og þó við skiptum um stjórnir, þó við skiptum um stefnu í skólamálum þá held ég að við eigum a.m.k. að nýta þær upplýsingar sem liggja fyrir, láta þær liggja frammi þeim til gagns sem á þeim þurfa að halda frekar en að fela þær eða eyða, ég veit ekki hvort hefur verið gert, alla vega fannst þessi skýrsla ekki og hefur ekki sést þegar menn hafa leitað eftir henni.
    Það hefur áður verið nefnt um þá nefnd sem var skipuð, þessa átján manna nefnd, á sínum tíma og þess hefur verið getið og má ítreka hér að skipan hennar var ekki til þess fallin að skapa sátt um niðurstöðurnar þar sem mikið vantaði á að sú breidd væri í skipan þess vinnuhóps sem æskilegt má telja þar sem kæmu fram ýmis pólitísk sjónarmið og það hefur reyndar komið fram bæði í þessari umræðu núna og í umræðunni um grunnskólann að einmitt þessi skipan nefndarinnar er mjög líkleg til þess að verða ásteytingarsteinn í umræðunni og mun frekar tefja málin heldur en greiða fyrir því að þau fái eðlilega afgreiðslu.
    Þessi tvö frv. eiga að breyta ýmsu um skólastarf bæði hvað varðar grunnskóla og framhaldsskóla. En ég tel að núgildandi lög feli í sér flestar heimildir sem þörf er á til að bæta skólastarf og að mörgu leyti í þá veru sem lagt er til í þessum frv. hvort heldur sem er á grunnskóla- eða framhaldsskólastigi. Það hafa ekki verið lögin sem hafa takmarkað umbætur í skólamálum á undanförnum árum. Það hafa ekki verið lögin, það hefur heldur ekki verið áhugaleysi menntmrh., hvorki í þessari ríkisstjórn né hinni síðustu, sem hefur hindrað umbætur í skólastarfi, ég vil taka það sérstaklega fram. Það sem hefur hindrað þessar umbætur og að það væri gert sem þyrfti til þess að bæta skólastarfið hefur verið skortur á peningum. Þetta er öllum ljóst. Það er skortur á peningum sem hefur verið þar mestur þrándur í götu að umbætur í skólamálum yrðu ríkulegar hér á landi. Þess vegna tel ég að hægt væri að ná fram mjög mörgu af því sem ráðherra hefur áhuga á að bæta með því að einbeita sér að fjárlagagerðinni. Fá fjármagn til skólanna, beita sér fyrir kjarabótum til kennara, sem allir sem hafa talað um þessi tvö frv. eru sammála um að sé höfuðnauðsyn í skólastarfi í dag. Að auka tímafjölda fyrir nemendur, að beita sér fyrir betri nýtingu skólaársins til hagsbóta fyrir nemendur. Allar þessar heimildir eru fyrir hendi í núgildandi lögum. Allt þetta er hægt ef fjármagn er fyrir hendi. Ekkert í núgildandi lögum mælir heldur á móti skólanámsskrárgerð, hvorki í grunnskóla né heldur í framhaldsskóla. Ekkert mælir á móti því að starfsnám verði aukið innan núgildandi laga um framhaldsskóla enda er víða unnið að því á markvissan hátt og ég vil nefna t.d. Framhaldsskóla Vestfjarða sem hefur látið kanna þörf fyrir stuttar starfstengdar námsbrautir og er að svara þeirri þörf eftir því sem fjármagn leyfir.
    Eins má geta um stórmerkt starf farskólanna víðs vegar um landið sem einmitt hafa komið til móts við þessar kröfur að mjög verulegu leyti, einmitt þessar kröfur um starfsnám. Farskólarnir hafa tekið höndum saman við aðila úr atvinnulífinu með mjög fjölbreyttum hætti og komið þar til móts við einmitt þær kröfur sem er verið að setja fram í þessu nýja frv.
    Það er stöðugt verið að hamra á valddreifingu með framlagningu beggja þessara frv. Reyndin er þó sú að oft er um aukna miðstýringu að ræða í stað valddreifingar. Þar vil ég sérstaklega nefna breytta skipan skólanefnda, sem hér hefur verið mjög til umræðu, þar sem fækkað hefur verið í nefndunum, nemendum hefur verið ýtt þar út, kennurum verið ýtt þar út, en ráðherra ætlar sér að skipa þrjá nefndarmenn án tilnefningar og það þrjá af fimm í stað eins áður af sjö manna nefnd.
    Samræming stúdentsprófs getur vel verið markmið í sjálfu sér en virðist þó ganga þvert á það fjölbreytta námsval sem áfangakerfið hefur boðið upp á og þar með ólíkar leiðir sem nemendur eiga nú til þess að ljúka stúdentsprófi. Þarna virðist mér að frjálsræði sé ekki aukið heldur þvert á móti virðist það vera skert. Ég tel fulla ástæðu til þess að vara við því að meta ekki það mikla og farsæla starf sem unnið hefur verið í mótun áfangakerfis. Áfangakerfið hefur að verulegu leyti komið til móts við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi. Það hefur gert minni skólum og deildum sem starfað hafa víðs vegar um landið kleift að starfa eftir sömu lögmálum og hinir sem stærri eru þó námsframboðið sé ekki hið sama. Þetta áfangakerfi hefur vakið mikla athygli víða um lönd og m.a. hafa Svíar lagt sig mjög eftir því að kynna sér þetta kerfi og viljað nýta sér kosti þess.
    Hvað snertir námsskrárgerð, prófagerð og eftirlit sem gert er ráð fyrir víða í frv. þá er hér sama sagan og í grunnskólafrv. Ekki verður séð í fjárveitingum að reiknað sé með kostnaði vegna þessara auknu starfa sem ráðuneytið mun þurfa að annast. Þess má geta að núgildandi námsskrá fyrir framhaldsskóla er

frá árinu 1990 og hún átti að koma út endurskoðuð tveimur árum seinna, árið 1992. Hún er ekki komin enn og mætti e.t.v. spyrja af hverju hún er ekki komin.
    Þetta bendir á sömu rök og áður hafa verið nefnd í tengslum við grunnskólafrumvarpið, að starfsemi ráðuneytis mun ekki verða dreift um landið eins og nú er í grunnskólanum og að hluta til í framhaldsskólakerfinu. Aukning mun verða á störfum ráðuneytis og aukningin mun verða í ráðuneytinu sjálfu hér suður í Reykjavík og þeim mun verða stýrt héðan.
    Hér hefur verið nefnt svolítið um 6. gr., um hlutverk skólanefnda og skipan skólanefnda. Ég held að það sé full ástæða til að ítreka það sem áður hefur verið sagt að þessi skipan skólanefnda getur ekki verið tilraun eða neitt framlag til þess að dreifa valdi. Síður en svo. Áður var skólanefnd þannig skipuð að tveir starfsmenn skóla voru í nefndinni, það var einn úr hópi nemenda, það voru þrír og eru núna reyndar, það eru þrír sem eru skipaðir af viðkomandi sveitarstjórnum sem standa að skólanum og það er einn sem er tilnefndur af ráðherra, en ráðherra skipar að sjálfsögðu alla þessa menn í nefndina. Ég veit ekki annað en þetta hafi gefist allvel í störfum skólanefnda, ég þekki ekki annað, en nú eru breytingar þær að það eru þrír sem eru skipaðir beint af ráðherra. Enginn fulltrúi nemenda og enginn fulltrúi kennara nema sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og tillögurétt. Ég get ómögulega litið öðruvísi á þetta heldur en hér sé um að ræða afturför.
    Ég set líka spurningarmerki við næstu grein, 7. gr., þar sem stendur: ,,Skólanefnd markar áherslur í starfi skólans. Hún gerir árlega starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skólann til þriggja ára sem háð er samþykki menntmrh.``
    Í núverandi lögum hefur reyndar löngum verið gert ráð fyrir því að skólanefnd annist ásamt skólameistara og skólastjórn ýmsa áhersluþætti í skólastarfinu, en starfsemi skólanefnda gerir það að verkum að hún á kannski ekki mjög auðvelt með að sinna þessu svo fullnægjandi sé. Maður hlýtur að spyrja sig á sama hátt og var með grunnskólalögin: Hefur skólanefnd alla tíð burði til þess að marka áherslur í starfi skólans? Hefur hún færni til þess eða hver eru þau skilyrði sem skólanefndarmönnum eru sett þegar þeir eru skipaðir til þessara starfa? Eru einhver ákvæði um menntun þeirra, reynslu eða þekkingu á skólakerfinu sem gerir þeim kleift að taka að sér svona viðamikið hlutverk eins og þarna er gert?
    Nú heitir það skólaráð í þessu frv. sem áður hét skólastjórn. Ég veit ekki hvort það er í valddreifingarátt. Varla. Það er ekki gert ráð fyrir því að skólaráð komi að rekstrinum eins og skólastjórn gerði áður. Í texta kemur það ekki fram.
    Það má setja spurningarmerki við það af hverju skólameistari er skipaður til fimm ára núna. Er nauðsynlegt að setja þessi tímamörk? Er ekki nægilegt vald á ráðningu skólameistara með því að ráða þá ótímabundið með lögbundnum uppsagnarfresti? Maður hefði haldið að tæplega fimm ára starfstími væri nægilegur fyrir skólameistara til þess að fá þá yfirsýn yfir stóran skóla sem nauðsynleg er til þess að stjórna af þeirri þekkingu sem hann þarf.
    Það má spyrja: Hver eru ráðningarkjör kennara? Ekkert sést um það, svo ég viti til, í þessu frv. hver ráðningarkjör þeirra eru. Það kemur ekki fram, heldur bara að þeir eru ráðnir.
    Það má spyrja um 15. gr. þar sem kemur fram að inntöku nemenda er stýrt eftir einkunnum. Þar með er takmarkað hvert nemendur geta leitað eftir grunnskóla, í hvaða áttir þeir eiga að sækja. Þarna fer auðvitað mjög mikið eftir því hver framkvæmdin verður hvernig til tekst. En það má spyrja hvort það sé boðið upp á nægilegan stuðning við þá nemendur sem á stuðningi þurfa að halda.
    Fornám sem boðið er upp á, þar er út af fyrir sig komið til móts við ákveðnar hefðir sem hafa verið og ekki nema gott eitt um það að segja, en því á að ljúka með grunnskólaprófi. Það kemur að vísu ekki fram í frv. en það kemur fram í skýrslunni sem fylgir með. Maður veltir fyrir sér af hverju á framhaldsskólinn að fara að leggja grunnskólapróf fyrir nemendur sem komnir eru upp úr grunnskóla og geta verið á mjög misjöfnum aldri. Þeir geta verið komnir um eða yfir tvítugt jafnvel þegar þeir fara í forskóla, það er ekkert sem mælir á móti því. Ef markmiðið með forskólanum er að gera nemendur hæfa til inngöngu í framhaldsskólann er þá ekki eðlilegt að þeir þreyti þar einhvers konar inntöku- eða hæfnispróf frekar heldur en að framhaldsskólinn sé að veita þeim grunnskólapróf? Það er ástæða finnst mér til að setja spurningarmerki við það, enda er þarna um annað próf að ræða heldur en grunnskólaprófið sjálft, það segir sig alveg sjálft að þannig er það.
    Ef við lítum á 16. gr. þessa frv. um námsskipan. Þar er rætt um, eins og komið hefur hér fram, verulega greiningu brauta. Mig langar aðeins til þess að koma hér að aðdraganda þess að starfsnám og iðnnám fór inn í framhaldsskólann. Mjög margir úti á landsbyggðinni muna eftir gömlu iðnskólunum og hverja þýðingu þessir iðnskólar höfðu fyrir byggðirnar. Víða þar sem ég þekki til störfuðu þessir iðnskólar við hlið grunnskólanna og hver einasti iðnaðarmaður sem starfaði á staðnum hafði farið í gegnum þennan iðnskóla. Reyndin varð sú að ef menn fóru annað til iðnnáms var undir hælinn lagt að þeir skiluðu sér í heimabyggðina til baka. Síðan þróaðist þetta þannig að þessar starfsbrautir og iðnnámið kom inn í fjölbrautaskólana, fyrst í stærstu skólana á höfuðborgarsvæðinu, en sem betur fer varð síðan þróunin sú að þetta kom inn í framhaldsskólana sem starfa víðs vegar um landið.
    Í tilefni af því að hv. þm. Svavar Gestsson, sem ekki er hér í salnum núna, lagði fram fyrirspurn til ráðherra hér áðan varðandi þróun mála á Patreksfirði og víðar á Vestfjörðum hvað snertir framhaldsdeildir sem þar starfa, þá tel ég rétt að ég fyrir mitt leyti gefi nokkra skýringu, ég býst við að ráðherrann geri það líka, en þar sem ég þekki vel til þessara mála þá vil ég aðeins í stuttu máli greina frá því hvernig þessi þróun hefur verið.
    Um margra ára skeið var reynt að koma á framhaldsnámi við grunnskólann á Patreksfirði í formi framhaldsdeilda þar. Af ýmsum ástæðum, sem er kannski of langt að rekja hérna, þá tókst þetta ekki og ég vil þó sérstaklega taka fram að það var ekki vegna þess að ekki væri skilningur á þessu í ráðuneytinu. Á öllum tímum þessarar viðleitni fékkst fullur skilningur þaðan og það var ekki hindrunin.
    Hólmavík var nefnd hér líka. Þar hefur að vísu ekki verið reglulegt framhaldsskólanám heldur var komið þar á eins vetrar öldungadeildarnámi á vegum Framhaldsskóla Vestfjarða og sama gerðist á Flateyri. Reyndar fór framhaldsnámið á Patreksfirði upphaflega þannig fram að þar var stofnuð öldungadeild sem starfaði á vegum framhaldsskólans.
    Það var svo fyrir rúmu ári að það tókst að koma á framhaldsdeild á vegum Framhaldsskóla Vestfjarða en í nánum tengslum við grunnskólann á Patreksfirði og það starf hefur gengið mjög vel. Ég held, af því að það var komið inn á þetta atriði áðan, að þá hafi reynslan þarna sýnt okkur að framhaldsnám með þessum hætti, a.m.k. við þær aðstæður sem þarna eru, er mun heppilegra að sé á vegum viðkomandi framhaldsskóla með stuðningi grunnskólans og reyndin verður sú á framkvæmdinni að framhaldsdeildin og grunnskólinn styðja hvort annað mjög dyggilega. Svo ég vona að þessar skýringar komist á framfæri við hv. þm. Svavar Gestsson.
    Það sem ég hef kannski helst áhyggjur af í sambandi við námsskipan sem getið er um í 16. gr. er að það er gert ráð fyrir meiri greiningu brauta sem ég óttast að geti gert litlum skólum og einmitt framhaldsdeildum eins og þarna eru nefndar erfiðara um vik að starfa og þar með veikja stöðu þeirra. Það væri mikið skref aftur á bak sem mér þætti mjög bagalegt ef stigið yrði með þessu frv. og hvet til þess að þessi grein verði tekin til skoðunar út frá þessu sjónarmiði sérstaklega, þar sem ég tel þetta vera lykilatriði ef við ætlum að halda þessum litlu skólum, sem eru að reyna að hafa svo fjölbreytt nám sem kostur er, þó einhverjar takmarkanir hljóti að verða á því.
    Annað sem þetta mun leiða til, ef að lögum yrði með þessum hætti, það væri allmikil aukning greiðslu úr ráðuneyti í formi dreifbýlisstyrkja. Ég þykist vita að ráðherrann þekki þær reglur sem gilda um úthlutun styrkja til stuðnings þeim sem stunda nám úr dreifbýli. Það er því aðeins veitt að ekki sé hægt að stunda sambærilegt nám heima fyrir. Einmitt þessi staða, að það hefur verið litið á fyrsta námsárið sem sambærilegt að verulegu leyti við flestar greinar, hefur orðið til þess að nemendur hafa oft getað stundað það nær sínu heimili heldur en áður var.
    Í sambandi við 22. gr. þessa frv. Þar er gert ráð fyrir að hver skóli skuli gefa út skólanámsskrá. Það er svo sem ekki nema gott eitt um það að segja. Það hefur áður komið fram að skólanámsskrá krefst mikillar vinnu og vafalaust mjög mikillar viðbótarvinnu hjá kennurum sem einhvers staðar verður að koma til móts við með peningum. Ekki veit ég hvort nokkurs staðar er reiknað með því þar sem talað er um skólanámsskrá. Í skólanámsskrá á að gera grein fyrir kennsluháttum, námsmati og stjórnunarháttum svo sem gæðastjórnun. Gæðastjórnun er nýtt orð sem mikið er notað, stundum jafnvel ofnotað. Ég er svo sem ekkert að hafa á móti þessu orði sem hljómar vel og stendur fyrir ýmsa góða hluti. En ég vara samt við því að nota það um allt of víðtæka hluti og slá því fram svona án skilgreiningar eins og stundum er gert.
    En ég held að þarna þurfi líka að athuga það að þessi skólanámsskrá sem er faglegt mat á því sem verið er að gera og ekki bara mat, heldur líka áætlun um hvernig eigi að gera það, það er talað um að skólanámsskrá skuli vera samþykkt af skólanefnd sem fylgist með framkvæmd hennar. Aftur kem ég að atriðum um skólanefndina sem eins og áður kom fram hefur allt annað vægi heldur en fyrr. Hún er skipuð með pólitískum hætti, miklu þrengri. Það eru ekki fulltrúar nemenda, það eru ekki fulltrúar kennara og þess vegna held ég að það sé mjög hæpið að skólanefnd, sem á að samþykkja skólanámsskrá, hafi yfirleitt mikla möguleika á því að meta hvað í henni felst, mun minni en kannski skólanefnd eins og hún er skipuð nú þar sem aðilar eru þar inni sem hafa möguleika á að leggja faglegt mat á ýmsa hluti, þar með talið skólanámsskrá.
    Það hefur komið fram hérna að 5 ára mat í þessu svipað og í grunnskólunum kallar enn á meiri vinnu hjá ráðuneyti og í 24. gr. er fjallað um almennt námsmat. Það á að vera í höndum kennara og deildarstjóra. Það byggist líka á þessari skólanámsskrá sem áður er getið um.
    Það er nefnd hér framkvæmd samræmdra prófa. Enn setur maður spurningu við samræmd stúdentspróf og hvort því er beint að einhverju leyti gegn áfangakerfi, þ.e. hvernig á það að koma skilgreiningu áfangakerfis inn í samræmingu stúdentsprófs. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig stúdentspróf á að vera samræmt og jafnframt að geta verið svo fjölbreytilegt sem nú er. Í 25. gr. er fjallað um starfsnám og það væri kannski ágætt að þar væri eitthvað skýrara um innihald starfsnáms en það sem stendur hér, að það eigi að taka mið af þörfum starfsgreina fyrir fagmenntað starfsfólk til einstakra starfa á hverjum tíma. Samstarfsnefnd um starfsnám er skipuð 18 fulltrúum. Ég ætla svo sem ekki að setja fram skoðun á þessari nefnd, hvort hún muni fullnægja þeim skilyrðum og standa undir þeim kröfum sem til hennar eru gerðar. Ég hef alltaf verið svolítið efins um virkni nefnda þegar fer að skipta tugum manna í þeim. Kannski er 18 eitthvað heilög tala í hugum þessarar nefndar, ég veit það ekki, og mér sýnist að hérna sé allstór nefnd og viðamikil.
    Hér er rætt um 31. gr. að menntmrh. geti að fenginni umsögn starfsgreinaráðs og stofnaðila gert

framhaldsskóla eða deild í framhaldsskóla að kjarnaskóla í lengri eða skemmri tíma. Það kom fram í máli hv. alþm. Valgerðar Sverrisdóttur að einmitt nýlegt dæmi um faggreinar netagerðar bendi nú ekki til þess að þessi vinnubrögð séu a.m.k. komin á dagskrá og kannski færi betur að þar yrði breytt um því að þar var einmitt vikið frá þessu þar sem búið var að setja einn kjarnaskóla í ákveðinni grein, þá var tekin sú vinnuregla að dreifa þessu út aftur.
    Það er spurning sem ég vil setja fram um stuttar starfsbrautir sem veita réttindi. Ég hef ekki rekist á það hérna, kann að vera að mér hafi þá yfirsést, en ég nefndi einmitt áðan könnun sem gerð var við Framhaldsskóla Vestfjarða um slíkar starfsbrautir sem eru síðan komnar í gang og það kom í ljós við þá könnun sem gerð var að það væri einmitt mjög veruleg þörf fyrir þessar stuttu starfsbrautir. Maður setur spurningarmerki við þetta. Hvernig er með tengslin, nú heitir samræmt stúdentspróf, stúdentspróf á bóknámsbrautum og námslok starfsbrauta, hvernig tengist þetta svo samræmingu sem stefnt er að að lokum?
    Virðulegi forseti. Í þessu frv. er um að ræða margar breytingar. Sumar hverjar eru til bóta en margar þeirra má telja skref aftur á bak. Mér þykir margt í frv. benda til aukinnar miðstýringar eins og ég hef komið inn á í stað þeirrar valddreifingar sem boðuð hefur verið. Og ég vil enn og aftur nefna breytta skipan skólanefnda sem dæmi og ég tel það einn versta þáttinn í þessu frv. Ég óttast það að ekki verði tekið nægilegt tillit til þeirrar reynslu sem fengist hefur af áfangakerfinu og það er margt sem bendir til þess að andi gamla bekkjakerfisins svífi hér yfir vötnum.
    Þá vil ég sérstaklega benda á að ég tel að það sé mikil afturför fólgin í afnámi einnar setningar í 2. gr. frv. þar sem áður var stefnt að því að skapa skilyrði til náms og þroska við allra hæfi eins og stendur í núgildandi lögum. Þetta hefur verið fellt út. Þessi breyting segir býsna margt um þann anda sem að baki býr.
    Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu vinna að þessu máli þegar það kemur til menntmn. og ég mun gera mitt til þess að koma þeim sjónarmiðum á framfæri sem ég hef hér lýst. Að þeim uppfylltum og e.t.v. fleiri breytingum, þá tel ég að hægt verði að gera þetta frv. að viðunandi lögum en ítreka það sem ég hef áður lýst að ég tel mjög hættulegt að ætla að forma nýtt menntakerfi og nýja skólastefnu með hverjum stjórnarskiptum. Það er vísasti vegurinn til að brjóta niður skólakerfið.