Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 14:49:59 (1360)


[14:49]
     Flm. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér talaði sá sem telur sig hafa valdið. Það er reyndar misskilningur. Hann er

bara 1 / 63 af Alþingi og getur því ekkert sagt fyrir um það hvaða tillögur verða samþykktar hér eður ei. Það var hins vegar athyglisvert að hann hafði betra vald á sér en við fyrri hluta umræðunnar og var raunar miklu málefnalegri í sínum málflutningi.
    Það sem ég hef hins vegar sérstaklega við hans mál að athuga er það að þær áætlanir sem hafa verið uppi og það sem lagt var af stað með þegar Alþingi ákvað að ná fram ákveðnum árangri á tilteknum tímafresti, ég held að það hafi verið 1983, var það bundið við hringveginn og þau byggðarlög sem voru í ákveðinni fjarlægð frá hringveginum. Það liggur núna fyrir að í þessum efnum er afar mikið ógert í Austurlandskjördæmi og mikið af vegbútum þar sem eru með þeim hætti að tæpast er samboðið þeirri umferð sem er á vegum landsins og ekki síst þegar komnir eru góðir vegir að þeim sitt hvorum megin frá eins og sums staðar er. Þetta ástand er óviðunandi.
    Það er jafnframt þýðingarmikið að ná þeirri tengingu sem ég hef talað um norður í land. Hér er um að ræða sérstæð og sérstök verkefni og það er hvergi nokkurs staðar í þessari umræðu hallað á þarfir annarra.