Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:02:21 (1366)


[15:02]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur J. Sigfússon, hafði þau orð hér að hér væri um lágkúru að ræða í málflutningi og eins konar hanaslag. Það eru hans orð og hann verður að lifa við þau sjálfur. Ég hafði engin slík köpuryrði hér uppi enda legg ég það ekki í vana minn. Ég vil hins vegar geta þess að ég skil að hv. þm. gerir sér fyllilega grein fyrir því að það hafa orðið kaflaskipti í kjördæminu og í samgöngumálum á þessu kjörtímabili og þau eru stór þau kaflaskipti. Það var fullkomið samkomulag milli allra aðila að ráðast í Ólafsfjarðargöngin. Það hefur hefur hins vegar verið mikill áherslumunur á því hvernig ætti að vinna að samgöngumálum í Norðurl. e. og núv. samgrh. hefur lagt áherslu á þessa tengingu við Austurlandið og m.a. þá hefur hann unnið að því í ríkisstjórn að stóraukið fjármagn kæmi inn í kjördæmið til að vinna að þessu verkefni. Það er þetta sem veldur kaflaskiptum.