Skattlagning tekna blaðsölubarna o.fl.

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:55:53 (1388)


[15:55]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér er nokkuð sérstakt mál á ferðinni. Það fer ekki hjá því að það vakni spurningar þegar við sjáum að skattyfirvöld eru allt í einu farin að eltast við smáupphæðir af því tagi sem hér um ræðir og fara að taka á málum sem hafa legið í láginni árum saman. Hvað liggur þarna að baki? Við höfum horft upp á það að hér í þjóðfélaginu eru skattsvik talin vera upp á yfir 11 milljarða kr., það er verið að fella niður hátekjuskatt sem veldur ríkinu um 300 millj. kr. tekjutapi, það má ekki koma á hér fjármagnstekjuskatti en þá er allt í einu farið að eltast við blaðburðarbörn. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, það er heitt í kolunum hér greinilega og ég vildi gjarnan fá að halda áfram máli mínu.
    Það vaknar auðvitað sú spurning hvort það þurfi ekki að taka á málum barna í heild og hvort það sé eðlilegt að skattleggja þau með þessum hætti nema um verulegar tekjur sé að ræða hjá börnum og unglingum. Það er lítið tillit tekið til þess í skattkerfinu hvað það kostar fólk að ala upp börn. Þar af leiðandi þarf auðvitað að skoða þessi skattamál barna í samhengi. En mér finnst líka vera mjög stórt atriði í þessu máli að börn eiga auðvitað að sitja við sama borð. Það er mjög sérkennilegt að sum börn greiði skatt af sínum tekjum en önnur ekki bara vegna þess að þau eru í þessum ákveðnu störfum. Mér finnst í raun og veru að við ættum að taka þessi mál hér til rækilegrar skoðunar á Alþingi og hugleiða það hvort börn eigi ekki að hafa heimild til að hafa tekjur upp að vissu marki en þó er alls ekki sama hvað þar liggur að baki. Ég held nefnilega að það sé líka ástæða til að skoða svolítið vinnu barna hér á landi og reyna að finna út úr því í hve ríkum mæli hún er og hvort hún standist barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þær reglur og þá sáttmála sem menn hafa samþykkt hér um aðbúnað barna. Ég held að því miður sé oft og tíðum um of mikla vinnu barna að ræða. En meginmálið er þetta: Börn eiga að sitja við sama borð og við þurfum að taka á þessu hér á hinu háa Alþingi og ég held að við ættum að setja reglur sem heimila börnum að hafa tekjur upp að vissu marki.