Náttúruvernd

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 10:43:27 (1422)


[10:43]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971, ásamt síðari breytingum. Þetta frv. var lagt fram á 117. löggjafarþinginu en hlaut því miður ekki afgreiðslu.
    Frv. þetta er að mestu samhljóða því frv. sem lagt var fram á síðasta þingi en þó hafa nokkrar breytingar verið gerðar. Við breytingarnar var tekið nokkurt mið af þeim athugasemdum sem Alþingi bárust við frv. og leitast við að skýra það og einfalda. Eitt meginmarkmið við breytinguna á frv. er að draga betur fram en áður sjálfstæði Náttúruverndarráðs og aðskilnað þess frá ríkisvaldinu.
    Núgildandi lög um náttúruvernd eru frá 1971, en eru þó að stofni til mun eldri eða frá árinu 1956. Þó lögin hafi reynst með ágætum, eins og raunar er rakið ítarlega í athugasemdum með frv., hefur staðið til um langt skeið að endurskoða þau. Þetta gildir jafnt um stjórnkerfi náttúruverndarmála sem og hin almennu efnistriði frv.
    Eftir að umhvrn. var sett á stofn árið 1990 var ljóst að það varð ekki lengur hjá því komist að endurskoða stjórnkerfi náttúruverndarmála. Ný löggjöf á sviði umhverfismálanna kallaði einnig á endurskoðun. Hér má nefna lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og alveg sérstaklega lög um mat á umhverfisáhrifum.
    Í janúar 1992 skipaði þáv. umhvrh. nefnd til að endurskoða þætti náttúruverndarlaganna sem lúta

hlutverki Náttúruverndarráðs og stjórn náttúruverndarmála.
    Þegar ég tók við embætti um mitt ár 1993 þótti ljóst að nefndin mundi ekki ljúka störfum í bráð og þess vegna ákvað ég að leysa hana frá störfum og láta vinna þennan þátt endurskoðunarinnar í ráðuneytinu. Í ræðu sem ég flutti við setningu 8. náttúruverndarþings haustið 1993 setti ég síðan fram tillögur að breyttu stjórnkerfi náttúruverndarmála sem urðu grundvöllurinn að því frv. sem liggur hér fyrir til umræðu.
    Við stofnun umhvrn. varð að móta stefnu um framtíðarhlutverk Náttúruverndarráðs. Af sögulegum ástæðum hefur ráðið mikla sérstöðu í ríkiskerfinu. Samkvæmt lögunum frá 1971 var Náttúruverndarráð sjálfstætt, nánast ígildi ráðuneytis í náttúruverndarmálum. Það er fjölskipað stjórnvald þar sem náttúruverndarþing kýs sex fulltrúa í ráðið og ráðherra skipar formann án kosninga. Ríkissjóður fjármagnar rekstur ráðsins. Það heyrir undir ákveðin ráðuneyti og er sem slíkt rekið á ábyrgð ráðherra þó ráðherra hafi hins vegar afskaplega takmörkuð áhrif á ákvarðanir þess. Náttúruverndarráð er þess vegna í þeirri sérstöku aðstöðu að það sækir umboð sitt bæði til frjálsra félaga og ríkisins. Ráðinu er því í rauninni ætlað bæði að framfylgja stefnu ríkisstjórnar eins og hún er á hverjum tíma en jafnframt að móta sína eigin sjálfstæðu stefnu. Það sér auðvitað hver heilvita maður að þetta gengur ekki upp.
    Markmið frv. er að breyta þessu að mörgu leyti þversagnarkennda hlutverki Náttúruverndarráðs og móta stjórnkerfi náttúruverndarmála þar sem umhvrn. gegnir eðlilegu hlutverki. Með frv., virðulegi forseti, er stefnt að því í fyrsta lagi að laga stjórnun þessa málaflokks að stofnun umhvrn. Í öðru lagi að styrkja stefnumótun um friðlýsingar og framkvæmd friðlýsinga. Í þriðja lagi að skapa grundvöll fyrir sjálfstætt og virkt Náttúruverndarráð. Í fjórða lagi að skilja ríkisrekstur frá annarri starfsemi Náttúruverndarráðs sem miðar að því að tryggja sjálfstæði þess gagnvart Stjórnarráðinu. Í fimmta lagi að samræma verksvið umhvrn. og stofnana þess og í sjötta lagi að samræma lög um náttúruvernd nýjum lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og löggjöf á sviði mengunarvarna.
    Samkvæmt frv. mun Náttúruverndarráð ekki sinna stjórnsýslu á vegum ríkisins eða bera ábyrgð á ríkisrekstri. Ráðið verður sjálfstæður en þó lögbundinn ráðgjafar- og umsagnaraðili á sviði náttúruverndar. Það er gert ráð fyrir því að Náttúruverndarráð móti sjálfstæða stefnu í náttúruverndarmálum og geti þar af leiðandi hvenær sem verkast vill gagnrýnt stefnu ríkisins í einstökum málum. Bakhjarl þess verður þó í náttúruverndarþingi þar sem fulltrúar frjálsra félaga, stofnana og sérfræðinga koma saman.
    Í frv. er lagt til að sérstök stofnun, Landvarsla ríkisins, sem er að stofni til núverandi skrifstofa Náttúruverndarráðs, taki við þeim hluta af verkefnum Náttúruverndarráðs sem í dag falla undir ríkisrekstur. Þungamiðjan í náttúruverndarstarfi hinnar nýju stofnunar verður rekstur friðlýstra svæða og þjóðgarða. Auk þess mun hún sjá um undirbúning og framkvæmd þeirra friðlýsinga sem ráðist verður í. Landvarslan mun einnig taka við eftirlitshlutverki Náttúruverndarráðs.
    Frv. er sjö greinar og ákvæði til bráðabirgða. Hver grein frv. tekur til hvers einstaks kafla í núgildandi lögum auk gildistökuákvæðis. Hver grein í frv. er því í raun samsafn margra greina. Langviðamest er 1. gr. frv. þar sem II. kafli núgildandi laga, stjórn náttúruverndarmála, er felldur brott og í stað greina 2--8 í núgildandi lögum koma þrettán nýjar greinar. Ég mun nú, virðulegi forseti, rekja efnisatriði 1. gr. frv.
    Samkvæmt nýrri 2. gr. fer umhvrn. með yfirstjórn náttúruverndarmála. Ráðuneytið skal við mótun stefnu hafa samráð við Náttúruverndarráð, við bændur og aðra landnotendur, sveitarstjórnir og samtök áhugafólks eftir því sem við á.
    Í greinum 3--8 er fjallað um Landvörslu ríkisins sem verður ríkisstofnun undir yfirstjórn umhvrn. Hlutverk stofnunarinnar verður umsjón með friðlýstum svæðum, þjóðgörðum og öðrum náttúruverndarsvæðum eftir því sem við á. Stofnunin hefur að auki umsjón með undirbúningi og framkvæmd friðlýsinga. Ég vil, virðulegi forseti, benda á prentvillu í nýrri 4. gr., en þar segir í lok 1. mgr., með leyfi forseta:
    ,, . . .  skv. 3. gr. laga þessara`` en á að vera: samkvæmt 33. gr. laga þessara, enda er verið að vísa í skilgreiningu á náttúruverndarsvæðum í 33. gr.
    Friðlýsingar þjóna margvíslegum tilgangi og reisa mismiklar skorður við aðgengi ferðafólks. Í ljósi þess að eitt af markmiðum náttúruverndarlaganna er að auðvelda almenningi aðgengi að náttúru landsins er nauðsynlegt að kveða á um tengsl ferðaþjónustu og náttúruverndar. Virk náttúruvernd er í rauninni undirstaða ferðamála hér á landi og þykir æskilegt að samræma þessa tvo þætti betur en hefur verið gert. Landvörslunni ber að fylgjast með því að umferð ferðamanna valdi ekki raski né spjöllum á náttúru. Það er nýmæli í frv. að þeirri stofnun er gert að gefa ráðherra árlega skýrslu um ástand svæða í umsjón hennar. Aðstöðu þarf til að taka á móti ferðamönnum og gera tillögur til úrbóta. Stofnuninni er einnig gert, sem ég tel mikilvægt til lengri tíma litið, að meta stöðu ferðamála almennt frá sjónarmiði náttúruverndar.
    Fræðsla er nátengd heimsóknum ferðafólks og því markmið að auðvelda fólki aðgang og kynni á náttúru Íslands. Fræðsla er í rauninni undirstaða virkrar náttúruverndar og markmiðið með slíkri fræðslu er í senn að kenna fólki betur að njóta töfra náttúrunnar og jafnframt að umgangast hana af virðingu og nærgætni. Þess vegna lít ég svo á að fræðsluhlutverk þessarar nýju stofnunar, Landvörslunnar, sé afar mikilvægt.
    Ég vil sérstaklega minnast á það nýmæli að stofnuninni verður heimilt að setja á stofn gestastofur. Þar með verður sett í lög það lofsverða fordæmi Náttúruverndarráðs sem felst í uppsetningu gestastofa. Nú þegar hefur gestastofa verið opnuð við Gullfoss og gestastofa við Mývatn hefur einnig verið opnuð.
    Á síðari árum hafa tengsl skipulagsmála og náttúruverndar orðið mönnum æ ljósari. Landvarslan skal sjá til þess í samráði við embætti skipulagsstjóra ríkisins og sveitarstjórnir að gerðar verði skipulagsáætlanir fyrir þjóðgarða, friðlýst svæði og önnur náttúruverndarsvæði í hennar umsjón. Þetta er afar mikilvægt fyrir framtíðarþróun svæðanna og tengsl þeirra við þau sveitarfélög sem þau eru hluti af. Ég vil því leggja sérstaka áherslu á samráð við sveitarfélögin varðandi gerð slíkra skipulaga.
    Samkvæmt nýrri 5. gr. tekur Landvarslan við því eftirlitshlutverki sem Náttúruverndarráð hefur með höndum í dag. Hér er fyrst og fremst um að ræða eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum eða framkvæmdum sem brjóta í bága við náttúruverndarlög og eru verulegar breytingar gerðar á þeim hluta frv. sem fjallar um eftirlit með framkvæmdum. Í því frv. sem var lagt fram á síðasta þingi hafði Náttúruverndarráð þetta á sinni hendi, en það verður að teljast eðlilegra að ríkisstofnun eins og Landvarslan hafi slíkt hlutverk.
    Allur undirbúningur framkvæmda hefur tekið miklum breytingum á síðustu missirum við gildistöku laga um mat á umhverfisáhrifum. Í þeim lögum er kveðið á um sjálfstæðan feril við undirbúning framkvæmda og úrskurð skipulagsstjóra. Það þótti því ekki ástæða til að kveða sérstaklega á um slíkt í þessu frv. Það er ekki gert ráð fyrir breytingu á því eftirliti sem Náttúruverndarráð hefur með höndum í dag þó að Landvarslan taki við því enda hefur það reynst ágætlega.
    Í nýjum tveimur greinum sem merkt eru 6 og 7 er fjallað um stjórn og starfsmenn Landvörslunnar. Þar er lagt til að umhvrh. skipi Landvörslunni þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn. Hér er hins vegar um að ræða breytingu frá því frv. sem rætt var í fyrra. Þar var gert ráð fyrir tilnefningu ferðamálaráðs og Náttúruverndarráðs í stjórnina. Það kom fram mjög hörð gagnrýni á rétt ferðamálaráðs til að tilnefna mann í stjórn auk þess sem aðrir hagsmunaaðilar vildu þá einnig fá að skipa sinn fulltrúa í stjórnina. Því er sett fram sú lausn að ráðherrann skipi stjórn án tilnefningar, en jafnframt kveðið á um það að stjórnin gæti samráðs við ferðamálaráð, Náttúruverndarráð, að sjálfsögðu sveitarstjórnir, bændur og aðra landnotendur sem og samtök áhugafólks.
    Samkvæmt frv. skipar ráðherra framkvæmdastjóra Landvörslunnar til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Hann ræður einnig þjóðgarðsverði til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar og þeir annast stjórn og daglegan rekstur þjóðgarða. Samkvæmt frv. fá þjóðgarðsverðir skýrari stöðu en þeir hafa í dag sem ég er sannfærður um að muni leiða til hagfelldari reksturs þjóðgarðanna.
    Það er jafnframt nýmæli í frv. að ráðherra getur falið þjóðgarðsvörðum víðtækara eftirlits- og stjórnunarhlutverk á svæðum í sínum landshluta sem undir Landvörsluna falla. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir breytingu á stöðu landvarða frá því sem nú er.
    Samkvæmt nýrri 8. gr. getur umhvrh. með samningum falið öðrum aðilum umsjón náttúruminja og friðlýstra svæða að þjóðgörðum undanskildum. Þetta á við um sveitarfélög, áhugasamtök um náttúruvernd, ferðafélög og einstaklinga. Ég tel nauðsynlegt að setja þetta ákvæði í lög þrátt fyrir að þetta sé í samræmi við reglugerð um náttúruvernd frá 1973. Það bætir framkvæmd þessara mála sem hefur ekki verið í nógu góðum farvegi að mínum dómi
    Í frv. er skýrt tekið fram að í slíkum samningum verði kveðið rækilega á um réttindi og skyldur samningsaðila hvað varðar umsjón með svæðinu, mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna, fræðslu og ráðstöfun tekna af gjaldtöku ef hún er leyfð. Landvarslan mun áfram fylgjast með slíkum svæðum og sjá til þess að aðilar fari að samningum um meðferð landsins.
    Í 9. gr. er fjallað um náttúruverndarnefndir. Í fyrra frv. var gerð tillaga um að stækka umdæmi nefndanna. Það er að vísu fallið frá því í þessari gerð frv. vegna mikillar andstöðu sveitarstjórnarmanna og greinin er núna nær samhljóða 3. gr. náttúruverndarlaganna frá 1971.
    Í 10. gr. er fjallað um náttúruverndarþing sem verður haldið annað hvert ár í stað þriðja hvert. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á greininni frá fyrra frv. Í lögunum frá 1971 er löng upptalning á þeim sem hafa seturétt á þinginu. Slík upptalning í lögum getur eðli málsins samkvæmt aldrei verið fullnægjandi og því hefur verið gefin út reglugerð fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem fulltrúar hafa verið tíundaðir nákvæmlega. Í frv. er fallið frá þessu fyrirkomulagi af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er upptalning af þessu taginu að mörgu leyti óeðlileg í lögum þar sem félög og stofnanir taka breytingum í tímans rás. Í öðru lagi tel ég óeðlilegt að löggjafinn og ráðherra með reglugerð ákveði samsetningu náttúruverndarþings sem er ætlað að vera óháð stjórnvöldum. Þess í stað er kveðið á um þingið sem vettvang frjálsra félagasamtaka sem sinna náttúruverndarmálum, stofnana og fræðimönnum sem málið varðar. Það er gerð tillaga um það að Náttúruverndarráð semji reglur fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem kveðið er á um rétt til setu á þinginu, kjörgengi, kosningarétt. Ef það rísa deilur . . .  
    ( Forseti (VS) : Forseti vill biðja um algjöra þögn í þingsalnum þar sem hæstv. umhvrh. hefur ekki mjög sterka rödd í dag.)
    Virðulegi forseti. Mér er alveg sama þó að þessir hv. þm. haldi áfram sínum samræðum í þinginu. Það truflar mig ekki. ( Gripið fram í: Við viljum gjarnan heyra.) Já, ef rödd mín er svo veik að hún nái ekki af núverandi styrk út til þingsins, þá bið ég forláts.

    Virðulegi forseti. Ég var kominn þar sögu að ég var að greina frá því að það sé gerð tillaga um það í þessu frv. að Náttúruverndarráð semji reglur fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem er kveðið á um rétt til setu á þinginu, kjörgengi og kosningarrétt. Ef deilur rísa um þessar reglur þá skal vísa því til úrskurðar á þinginu sjálfu. Hlutverk umhvrn. verður þá það eitt að auglýsa reglurnar en að öðru leyti tekur ráðuneytið enga efnislega afstöðu til þeirra.
    Í greinum 11 og 12 er fjallað um Náttúruverndarráð. Samkvæmt frv. verður hlutverk ráðsins verulega breytt frá því sem nú er. Það verður ekki ríkisstofnun í venjulegum skilningi þó ríkissjóður greiði laun framkvæmdastjóra, veiti framlag til reksturs skrifstofu og auk þess þóknun ráðsliða. Samkvæmt frv. verður Náttúruverndarráð skipað sjö mönnum, en í fyrra frv. var auk þess gert ráð fyrir tveimur tilnefningum í ráðið. Það var fallið frá þessum tilnefningum eins og fyrr var sagt.
    Í frv. er lagt til að Náttúruverndarráð verði kosið á náttúruverndarþingi og þar með talinn sá formaður ráðsins sem ráðherra skipar í dag. Markmið frv. er að gera náttúruverndarþing og Náttúruverndarráð að sameiginlegum vettvangi allra þeirra sem vinna að náttúruvernd í landinu. Ráðið hefur ekki ákvörðunarvald í hinum fyrra skilningi en það hefur tillögu-, umsagnar- og ráðgjafarhlutverk. Á þennan hátt er tryggður skilvirkur farvegur fyrir almenning til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en virk starfsemi samtaka almennings er nauðsynleg til að vinna sjónarmiðum náttúruverndar brautargengi. Með því að skapa þessum samtökum lögformlegan rétt til áhrifa í gegnum náttúruverndarþing og Náttúruverndarráð er tekið undir þetta sjónarmið. Náttúruverndarráð kemur því ekki í staðinn fyrir þau frjálsu félög sem nú starfa víðs vegar á hinum haslaða velli náttúruverndar og því síður verður það í samkeppni við þau.
    Hlutverk Náttúruverndarráðs samkvæmt frv. er að stuðla að almennri náttúruvernd í landinu og vera stjórnvöldum til ráðgjafar. Ráðið skal marka sér sjálfstæða stefnu í náttúruverndarmálum og gera náttúruverndarþingi, almenningi og stjórnvöldum grein fyrir henni. Það liggur í augum upp, virðulegi forseti, að ef slík stefna er vel unnin og skýr þá er erfitt fyrir stjórnvöld að sniðganga hana og Náttúruverndarráð hefur að sama skapi sterkari stöðu til að veita stjórnvöldum virkt aðhald, beita virkri gagnrýni. Í frv. kemur fram að lagt er til að álits ráðsins skal leitað á öllum stjfrv. og reglugerðum á sviði náttúruverndar. Til þess að tryggja betur þennan samráðs- og ráðgjafarrétt Náttúruverndarráðs þá er í frv. kveðið á um að a.m.k. tvo fundi á ári með umhvrh.
    Náttúruverndarráð mun ekki hafa það vald til friðlýsingar sem felst í núgildandi lögum, en áhrif þess á friðlýsingar verða mikil eftir sem áður. Í frv. er gert ráð fyrir auknu vægi náttúruminjaskrár sem stefnumótandi tækis fyrir friðlýsingar og náttúruvernd. Náttúruverndarráð fjallar ítarlega um skrána áður en hún gefin út hverju sinni og það getur gert tillögur um verndunaraðgerðir og um friðlýsingar.
    Samkvæmt nýrri 13. gr. annast Náttúruverndarráð vörslu friðlýsingarsjóðs. Í fyrra frv. var Landvörslunni falið þetta hlutverk. Hér er hins vegar fallist á tillögur Náttúruverndarráðs um sjóðinn, en tilgangur hans er að fjármagna einstök verkefni í þágu náttúruverndar.
    Ný 14. gr. er efnislega samhljóða 5., 6. og 7. mgr. 7. gr. gildandi laga. Eina breytingin er að í stað Náttúruverndarráðs mun umhvrn. vinna að gróðurvernd ásamt Landgræðslu ríkisins og skógvernd ásamt Skógrækt ríkisins. Þetta verkefni ráðuneytisins er í samræmi við það samkomulag sem gert var þegar ráðuneyti umhverfismála var sett á laggirnar.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér lokið við að rekja efni hinnar viðamiklu 1. gr. frv. 2. gr. þess fjallar um III. kafla núgildandi laga, þ.e. greiðslu kostnaðar af framkvæmd laganna.
    Í nýrri 16. gr. er fjallað um gjaldtöku af ferðafólki. Það er engin gjaldtökuheimild í lögunum frá 1971 og ég tel að það sé nauðsynlegt að taka af tvímæli hvað þetta varðar. Þetta er m.a. mikilvægt til að tryggja að gjaldtaka stangist ekki á við það markmið laganna að auðvelda almenningi umgang og kynni við landið og að ákvæði um almannarétt séu virt. Víða þurfa ferðamenn nú þegar að greiða fyrir veitta þjónustu á friðlýstum svæðum og þar nægir að nefna greiðslur fyrir tjaldstæði og aðgang að hreinlætisaðstöðu. Slík gjöld eru t.d. innheimt í þjóðgörðunum sem eru ríkisreknir og svæðum þar sem ferðafélög hafa byggt upp aðstöðu fyrir ferðamenn. Gjaldtaka þessi er hins vegar ekki nema að litlu leyti samræmd.
    Samkvæmt 16. gr. verður umhvrh. heimilt, að fengnum tillögum Landvörslu ríkisins, að ákveða gjald fyrir veitta þjónustu í þjóðgörðum og í friðlöndum. Þessi heimild er þó bundin því skilyrði að það sé skilgreint vel hverju sinni hvað er verið að greiða fyrir. Þá verður ráðherra jafnframt heimilt að ákveða tímabundið gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæðum, að fenginni umsögn Landvörslu ríkisins ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna á viðkomandi svæði eða ef það er hætta á spjöllum. Um gjaldtökuna skal sú almenna regla gilda að tekjunum skuli varið til eftirlits eða framkvæmda á sama svæði og þeirra er aflað. Þessi regla er nauðsynleg til þess að tryggja það að gjaldtakan verði ekki notuð til almennrar fjáröflunar, afhent til ríkisins eða annarra aðila. Það hlýtur að teljast eðlilegt að tekjunum sé varið til uppbyggingar og rekstrar á sama svæði og þeirra er aflað, en fyrir því er engin trygging eins og málum er háttað í dag.
    Virðulegi forseti. Það má geta þess að þessi gjaldtaka á sér vissa fyrirmynd í lögunum frá 1928 um helgistað á Þingvöllum, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld á Þingvöllum og verja því fé upp í kostnað við friðunina.``
    Virðulegi forseti. 3., 4. og 5. gr. frv. er að mestu aðlögun laganna að þeim breytingum sem eru

lagðar til í 1. gr. Í stað þess að Náttúruverndarráð setji reglur, veiti leyfi og undanþágur, þá færist slíkt til umhvrh.
    Viðamesta breytingin varðar friðlýsingar og náttúruminjaskrá. Eins og lögin eru í dag þá getur Náttúruverndarráð eitt friðlýst náttúruvætti, lífverur og friðlönd og stofnað þjóðgarða, þó að slíkar friðlýsingar taki að vísu ekki gildi án staðfestingar ráðherrans. Ráðherra hefur aðeins ákvörðunarvald eftir að Náttúruverndarráð hefur fjallað um málið og tekið sína ákvörðun. Það er hins vegar eðlilegt, tel ég, að umhvrn. sem æðsta stjórnvald á sínu sviði fari með friðlýsingarmálin. Samkvæmt frv. verður þó friðlýsingarferillinn þessi:
    Umhvrh. getur friðlýst sérstæðar náttúrumyndanir ef telja verður mikilvægt að varðveita þær sakir fræðilegs gildis þeirra eða þess að þær eru fagrar eða sérkennilegar að mati Náttúruverndarráðs eða Landvörslu ríkisins eða Náttúrufræðistofnunar.
    Umhvrh. getur að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands friðlýst örverur eða jurtir sem miklu máli skipta frá náttúrufræðilegu sjónarmiði, enda er það hlutverk þeirrar stofnunar að véla um þær tegundir. Landsvæði sem er mikilvægt að varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs getur umhvrh. friðað í heild að fenginni umsögn Náttúruverndarráðs, Landvörslu ríkisins eða Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Umhvrh. getur, samkvæmt frv., lýst ákveðið landsvæði þjóðgarð. Nú er það svo að í gildandi lögum er tekið skýrt fram að þjóðgarðar skuli að jafnaði vera í ríkiseign. Því er haldið en hins vegar er það nýmæli að finna í frv. að það er lagt til að svo þurfi ekki nauðsynlega að vera náist um það samkomulag milli umhvrn. og landeigenda. Þetta tel ég að gæti auðveldað stofnun þjóðgarða, gert þá sveigjanlegri heldur en núna er og þetta á sér visst fordæmi erlendis frá.
    Frumkvæðið að friðlýsingum samkvæmt þessu frv. getur þá legið hjá umhvrh., Landvörslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun, Náttúruverndarráði eða félagasamtökum og einstaklingum. Það eru með öðrum orðum mjög margir sem geta komið slíkum hugmyndum á framfæri og ég tel að þetta sé í anda þess lýðræðis sem við viljum starfa eftir og ég tel að þetta sé líka í anda þess að reyna að færa frumkvæðið á þessu sviði út til fólksins. Það er gert ráð fyrir því að Landvarslan hafi fyrst og fremst frumkvæði hvað varðar ferðamannastaði og útivistarsvæði almennings. Náttúrufræðistofnun sinnir fræðilegri hlið friðlýsinganna. Í frv. er líka kveðið á um það í 5. gr. að áður en ráðherra tekur fullnaðarákvörðun um friðun og friðunarákvæði þá skuli leita eftir áliti Náttúruverndarráðs.
    Þetta ákvæði er mikilvægt til þess að tryggja það að Náttúruverndarráð geti komið sínum sjónarmiðum mjög skýrt á framfæri áður en friðlýsing er framkvæmd, er staðfest.
    Til að styrkja friðlýsingarstarfið er nauðsynlegt að efla náttúruminjaskrána. Í frv. er gert ráð fyrir því að umhvrn. gefi skrána út, stjórni vinnslu hennar, en vinnan sjálf verði að mestu í höndum Náttúrufræðistofnunar og Landvörslunnar þar sem hið fræðilega atgervi liggur. Á náttúruminjaskrá skulu vera upplýsingar um öll náttúruverndarsvæði landsins og náttúrumyndanir, lífverur og vistkerfi sem friðlýst hafa verið eða æskilegt er að friðlýsa eða leggja undir fólkvanga og þjóðgarða.
    Í framtíðinni er nauðsynlegt að náttúruminjaskráin verði mun ítarlegri og betur rökstudd heldur en núna. Þar kemur ekki síst til atbeini Náttúrufræðistofnunarinnar og síðar náttúrustofa úti í kjördæmunum sem munu hafa yfir að ráða hinum sérfræðilega mannafla og atgervi til verksins, en kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir það að ráðuneytið leiti til annarra sérfræðinga ef þess gerist þörf. Náttúruverndarráð, félagasamtök eða einstaklingar geta líka gert tillögur um náttúruminjaskrána og ráðuneytið verður þá að svara slíkum tillögum innan fjögurra mánaða frá því að þær berast.
    Virðulegi forseti. Ég hef í þessari ræðu minni lagt mikla áherslu á hið breytta hlutverk Náttúruverndarráðs og hvernig vald er fært frá Náttúruverndarráði til umhvrn. og þess vegna þykir mér afar miður að í e-lið 5. gr. frv. hefur slæðst sú meinlega villa að sagt er að Náttúruverndarráð ákveði friðlýsingu. Í samræmi við markmið frv. á að sjálfsögðu að standa ,,ákveði umhverfisráðherra`` o.s.frv.
    Í 6. gr. frv. er það nýmæli að kveðið er á um skýrslugerð starfsfólks Landvörslu ríkisins verði það vart við brot á lögunum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Þessar skýrslur koma að sjálfsögðu ekki í veg fyrir hefðbundnar lögregluskýrslur en gætu orðið hluti af þeim gögnum sem lögreglan mundi nýta. Tilgangurinn með þessu er sá að bæta rannsókn á brotum gegn náttúruverndarlögum, enda er það svo að slík brot eiga sér oft og tíðum stað langt frá byggð og því getur langur tími liðið þar til að lögregla kemst á vettvang.
    Virðulegi forseti. Í þessu frv. felst róttæk uppstokkun á stjórnkerfi náttúruverndarmála. Þessi uppstokkun er að mínum dómi löngu tímabær. Ég tel að hún muni styrkja stefnumörkun og framkvæmdir ríkisins á þessu sviði. Ég tel líka að hún auki virkt lýðræði og ég legg til, virðulegi forseti, þegar ég hef lokið við að mæla fyrir þessu frv., að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhvn.