Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:38:39 (1428)


[12:38]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nú að koma á daginn, m.a. með þessari utandagskrárumræðu, að hæstv. ríkisstjórn skildi þetta mál eftir í upplausn á Alþingi sl. vor. Það sést best á því að einn hv. stjórnarliði sér sig nú knúinn til þess að ræða við hæstv. sjútvrh. um þá stöðu sem uppi er í málinu nokkrum mánuðum síðar og öllum mátti ljóst vera að yrði, þ.e. að algjört ófremdarástand er að skapast í málefnum smábátaútgerðarinnar. Sá frágangur á þessu máli sem meiri hlutinn á Alþingi beitti sér fyrir sl. vor gengur ekki upp. Þar er staða aflamarkssmábátanna sérstaklega erfið og í raun og veru algjörlega vonlaus. Það er búið að dæma þá útgerð til dauða ef svo heldur sem horfir enda er nú uppistaðan af þeim umsóknum um úreldingu sem Þróunarsjóði berast þessa mánuðina frá smábátum eða minni bátum á aflamarki.
    Það verður líka, hæstv. forseti, að spyrja þeirrar spurningar hvort það stjórnkerfi fiskveiða sem við búum við gangi yfirleitt upp, sé yfirleitt nothæft við ríkjandi aðstæður í kvótaúthlutun, þ.e. það eru margir að verða þeirrar skoðunar að útilokað sé að ná þeim afla af öðrum tegundum sem úthlutað er við svo lítinn útgefinn þorskkvóta nema sortera aflann fyrst áður en komið er að landi.
    Þessa stöðu verður að taka upp og ræða, hæstv. forseti. Við alþýðubandalagsmenn fluttum margar brtt. við stjfrv. í fyrravor og hefðu menn borið gæfu til að samþykkja þær þá væri staða smábátaútgerðarinnar betri. Þá hefðu til að mynda smábátar á aflamarki möguleika um að velja á milli krókaleyfa og aflamarks. Þessar tillögur þarf að taka upp, þessa stöðu verður sjútvn. að ræða. Við það ófremdarástand sem núna ríkir í málefnum bátaútgerðarinnar verður ekki unað.