Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:52:41 (1434)


[12:52]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Enn aukast vandræðin, kerling, sagði Björn í Mörk forðum. Mér sýnist nú að við stöndum frammi fyrir því að enn aukast vandræðin vegna þess að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir skildu þetta mál eftir í uppnámi á síðasta þingi, vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur þrengt og skekkt kvótakerfið sem stjórnunarkerfi í sjávarútvegi. Við sjáum gallana víða og við sjáum þróun sem nú er að gerast. Það eru ekki bara smábátarnir sem ekki reka sig. Einkaútgerðin, vertíðarbátarnir, þeir eru að fara í brotajárn. Það er ekki rekstrargrundvöllur undir smábátum, undir venjulegum vertíðarbátum. Þetta er alvarleg staða, hæstv. sjútvrh.
    Ég sé það í mínu byggðarlagi og eins í Vestmannaeyjum. Vertíðarbátar hafa horfið þar úr höfninni einir 30 á tveimur árum. Það getur vel verið að það sé hægt að koma upp og segja að rúmmetrafjöldinn hafi aukist en þróunin er auðvitað sú að frystiskipin eru í stórum stíl að gleypa þessa litlu heilbrigðu atvinnuhætti um allt land. Menn eru allt of víða um land að fara með kvótann um borð í tröllaukin þorp sem heita frystitogarar sem er siglt með á haf út og fólkið missir atvinnu sína. Þannig að ég óttast það, hæstv. sjútvrh., ef ekki verður hlustað á raddir og þær tillögur sem við vorum með hér í þinginu í fyrra að þá kunni að blasa við ný heljarslóðarorusta um málefni sjávarútvegsins. Ég treysti því að hæstv. sjútvrh. taki á þessu máli og reyni að hafa stefnuna þannig að þjóðin standi saman um sjávarútvegsstefnuna. Það er meginatriðið. Því miður, hæstv. forseti, hefur það brugðist í stjórnunarháttum þessarar ríkisstjórnar og því er komið sem komið er. Tíminn er kannski ekki floginn, hæstv. forseti, en við væntum þess að menn opni augun. ( MB: Þessi ógæfa byrjaði öll undir stjórn Framsóknar.)