Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 14:14:55 (1450)


[14:14]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Byggðastofnun er sá lánasjóður sem birtir opinberlega hvert einasta lán í skýrslu sinni og til hverra er veitt hverju sinni, bæði nöfn og heimilisföng. Jafnframt eru birt öll lán sem stofnunin tekur og eiginlega öll starfsemi hennar sem er send í skýrslu til Alþingis og margra fleiri aðila og í raun og veru rædd á Alþingi. Það má til sanns vegar færa að umræður um þessa skýrslu séu nokkurs konar aðalfundur um stofnunina hverju sinni enda er stjórn stofnunarinnar kjörin af Alþingi og sitja þar sex alþingismenn af sjö. Ég tel að þessi atriði séu til fyrirmyndar og ættu að vera víðar framkvæmd í lánakerfi okkar Íslendinga. Það er aftur töluvert íhugunarefni hvort hinar svokölluðu BIS-reglur lánastofnana eigi að ná til þessarar stofnunar vegna þess að hún er með fjölbreytilega starfsemi. Lánastarfsemin er ekki nema viss hluti af heildarstarfsemi stofnunarinnar.
    Eins og hæstv. forsrh. gat um þá var eitt meginstarfið hin nýja byggðaáætlun í samræmi við lög sem afgreidd voru í þinglok vorið 1991. Það var erfitt að semja þá skýrslu enda er þetta frumsmíð. Mér dettur ekki í hug að halda það að hún sé fullkomin því að það er svo margt sem þarfnaðist frekari athugunar við. Hún er þó góður og traustur grundvöllur að því sem gera á í framtíðinni.
    Ég vil ekki eyða löngum tíma eða bæta við það sem forsrh. sagði um starfsemi stofnunarinnar heldur fara frekar um víðari völl. Ég held að stofnanir sem fást við lánamál séu allt of margar í landinu og samvinna þeirra á milli er nánast mjög takmörkuð og í sumum tilfellum engin. Þessi skortur á samvinnu á milli stofnana er mjög áberandi. Við erum í litlu þjóðfélagi með 250 þús. íbúa en við erum með ótal sjóði. Ég ætla ekki að tala um alla lífeyrissjóðina sem lána sem eru 300 eða 400 ef sérsjóðirnir eru teknir með og það eru a.m.k. 1.200--1.500 bankastjórar í þeim. Við erum með Fiskveiðasjóð, sem er tryggður 1. veðréttur í skipum, en hefur til þessa neitað að lána til smábáta undir 10 tonnum. Fyrrv. ríkisstjórn fór þess á leit við Byggðastofnun að hún lánaði 300 millj., ef ég man rétt, til smábáta sem hún gerði og þau lán hafa innheimst mun þokkalegar en björtustu vonir leyfðu. Það má svo nefna Þróunarsjóð, Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð, Ferðamálasjóð, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Framleiðnisjóð og að ég tali ekki um allar fjármagnsleigurnar sem gerir það að verkum að margt fer öðruvísi en ætlað er og má vera miklu betra.
    Ég tel það lífsspursmál fyrir stofnun eins og Byggðastofnun og fleiri sjóði að hafa mjög náið samstarf við bankana í landinu, sérstaklega báða ríkisbankana og alveg sér í lagi Landsbankann og sömuleiðis við stærsta einkabankann, Íslandsbanka, út af fjölmörgum málum. Og við Seðlabankann sem er með sitt bankaeftirlit. Ég get ekki látið hjá líða að segja að það rekst margt á. Bankaeftirlitinu eru settar þröngar skorður. Það á að gæta þess að litlar lánastofnanir láni ekki of mikið því að þá geta þær hrunið. Ég veit um tilfelli þar sem bankaeftirlitið varaði litla lánastofnun við að lána til tveggja fyrirtækja sem voru í eigu sama fólks. Að beiðni eigenda sneri ég mér til hæstv. viðskrh. og bað um aðstoð, að stærri lánastofnun eða Landsbanki Íslands tæki þessi fyrirtæki í afurðalánaviðskipti sem ég tel að sé ekki hætta fyrir lánastofnanir. Hæstv. viðskrh. brást mjög fljótt við og skrifaði landsbankastjórn svohljóðandi bréf:
    ,,Landsbankastjórn hefur móttekið bréf yðar dags. 23. þessa mánaðar með fyrirspurn um hvort Landsbankinn geti með einhverjum hætti tekið viðkomandi fyrirtæki í viðskipti sem hér eru nefnd.`` Svo kemur svar bankans. Það er afskaplega stutt, það kemur daginn eftir og það er svona þegar búið er að vísa til bréfsins: ,,Svo er ekki.`` Síðan koma undirskriftir tveggja stórmenna í stofnuninni.
    Þið sjáið á þessu, hv. alþingismenn, að þessi virðulega lánastofnun, sú stærsta í landinu, þurfti ekki sólarhring til þess að skrifa dómsorð. En það þurfti ekki neinar dómsforsendur heldur var dómsorðið: ,,Svo er ekki.`` Svo rífumst við á hinu háa Alþingi um smámál, lítilfjörleg mál sem flestir nenna ekki að tala um en alveg sérstakur dugnaður er í mörgum þingmönnum að taka þau fyrir.
    Ráðherrar, þingmenn, og nefndir Alþingis eru undir sterkum áhrifum almennings og fjölmiðla. En menn sem eru búnir að hreiðra um sig í þessum embættum geta leyft sér að afgreiða hluti með þessum hætti og þurfa ekki að rökstyðja neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Er ekki kominn tími til að taka til í

þessu húsi sem íslenska ríkið ræður yfir og gera það ekki af neinu handahófi? Það dugar ekki að setja bara ryksuguna í gang í kortér. Það þarf að moka fleiru út úr þessum híbýlum og hreinsa almennilega til. Þar er verk að vinna fyrir ríkisstjórn og fyrir komandi Alþingi.
    Hæstv. forsrh. gat þess réttilega að styrkveitingar þessa litla sjóðs hefðu aukist verulega. Það veitti sannarlega ekki af því. Við stigum spor aftur á bak þegar við lögðum niður Fiskimálasjóð sem veitti til nýjunga á sviði sjávarútvegs. Ég veit að fyrrv. sjútvrh. vildi koma þessu inn í Fiskveiðasjóð og ég efast ekki um að það hafi verið í góðum tilgangi. En það hefur ekkert verið gert í Fiskveiðasjóðnum í því og það hjakkar í sama farinu. Á sama tíma eru aðrar þjóðir vakandi fyrir því að sinna nýjungum en við hjökkum í sama farinu. Það mætti segja mér að gamli Stalín liti upp hingað til þessa lands með mikilli velþóknun því að það er margt hér enn þá með sama sniði og hann vildi hafa það, gamli maðurinn. En ég fyrir mitt leyti tel ekki neina sérstaka ástæðu til þess að gleðja hann þó að ég sé ekkert að ráðast að honum löngu gengnum.
    Það urðu nokkrar deilur sem eðlilegt er um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem var lögfestur. Á fundi sjútvn. í gær kom framkvæmdastjóri sjóðsins sem er mjög góður og gegn maður og traustur starfsmaður og skýrði frá því hvað væri búið að gera. M.a. sagði hann okkur frá því að það væri búið að samþykkja úreldingu 87 skipa, þar af 42 innan við 10 rúmlestir. Samtals er þessi úrelding um 1.515 millj. kr. og samanlögð tonnatala þessara skipa er 5.326 rúmlestir. Eftir er að afgreiða 115 umsóknir upp á 459 millj. eða 1.541 rúmlest. Ég vildi nú mega halda því fram þegar þetta frv. kom til meðferðar --- og var afskaplega lítið hrifinn og menn verða að virða mér það til vorkunnar --- að þessi Þróunarsjóður væri fyrst og fremst fyrir lánastofnanir. Og það mætti segja mér það að 99% af þeim upphæðum sem búið er að afgreiða fari til lánastofnana. Fiskveiðasjóður er best tryggður allra sjóða en bankarnir eru þeir sem hafa ávinninginn en ekki þessir útgerðarmannavesalingar eða skipseigendur. Þeir hafa kannski fengið um 1% svo að það hefði kannski mátt alveg eins kalla þennan sjóð Þróunarsjóð bankanna en ekki Þróunarsjóð sjávarútvegsins. En það er víst of seint í rassinn gripið því að þetta er orðið að lögum.
    Það eina sem ég geri athugasemd við sem hæstv. forsrh. sagði, eða mér fannst svona koma fram hjá honum, að það væri mikil ánægja hvað lánveitingar sjóðsins hefðu minnkað. En það er ekki af því að það sé ekki þörf á lánveitingum og það til skynsamlegra hluta. Ég er alveg sammála forsrh. í því að bæði þessi sjóður og aðrir verða að gæta hófs í sínum lánveitingum. En við verðum líka að gera þá breytingu að þegar einstaklingur eða atvinnufyrirtæki kemur til sjóðs eins og þessa, biður um lán, fær það, það eykur verðmæti eignarinnar, þá er beðið um að annar sjóður gefi eftir veðleyfi, þá er sagt nei þegar veðið er að batna. Þetta auðvitað gengur ekki og þarna er samstarfsskortur. Ég held að það væri afar mikils virði og ég vona að hæstv. ríkisstjórn sem nú situr lifi það hvað sem hver og einn segir ef hún tæki sig nú til og gerði ákvörðun um það að skipa nefnd sem hefði það hlutverk að gera tillögur um bætta samvinnu á milli allra þeirra stofnana í landinu sem lána og koma þar á traustari böndum en hafa verið ekki nú um skeið heldur í raun og veru í marga áratugi.
    Svo þakka ég hæstv. forsrh. fyrir hans ræðu og hans skilning á starfsemi þessarar litlu stofnunar um leið og ég segi það hér að ég þakka mínum samstarfsmönnum og starfsfólki fyrir samstarf þar því að sjálfsagt fer að styttast í því að maður sé á þessum stað.