Breytingar á ríkisstjórninni

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 13:52:44 (1480)


[13:52]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Vegna þeirra efasemda sem fram koma í máli hv. 1. þm. Austurl. er rétt að minna á að stjórnarandstaðan hefur nú látið á það reyna á þessu þingi hvort ríkisstjórnin hafi traust, fyrst með sérstakri og alveg einstakri umræðu utan dagskrár sem var einhvers konar tilraunaumræða um vantraust á ríkisstjórnina og síðan með alveg einstakri umræðu um vantraust á ríkisstjórnina. Eins og kunnugt er náði sú vantrauststillaga ekki fram að ganga. Meiri hluti Alþingis vísaði henni frá eins og oft hefur verið gert við afgreiðslu slíkra tillagna og með því er meirihlutavilji Alþingis alveg skýr og það kemur mér því á óvart að þessar efasemdir skuli koma upp hjá jafnþingreyndum manni og hv. 1. þm. Austurl. er.